Í dag er nákvæmlega mánuður síðan ég flutti til Reykjavíkur. Það er margt búið að gerast, skiptast á skin og skúrir eins og sagt er. Hér á Víðimelnum er gott að vera, sérstaklega í augnablikinu þegar vissir nágrannar eru að leita sér lækninga. Það ku vera mjög jákvætt og því er friðsælt í húsinu. Þvotturinn fær að hanga í friði, við Styrmir fáum að vera í friði og fólk þarf ekki að vera með hjartað í buxunum þegar það kemur í heimsókn.
Vesturbærinn er auðvitað eini staðurinn sem hægt er að búa á í Reykjavík og ég fer helst ekki langt frá honum. Ég er því lítið farin að rata utan hans en mér finnst það líka allt í lagi. Maður verður að halda í sérviskuna, norðlenskan framburð og annað. Það er fínt í skólanum, samt er auðvitað alltof mikið að gera en þannig er samt að vera í Háskóla. Eða hvað, ætli það sé misjafnt á milli deilda? Sumir virðast að minnsta kosti ekki gera svona mikið af verkefnum. Ég held að félagslífið í skólanum verði fínt, ég er komin með sessunaut sem heitir Álfhildur og er einnig orðin málkunnug fleiri stelpum. Utan skólans er brjálað að gera í félagslífinu hjá mér, örlítil breyting síðan í fyrra. Þá átti ég um tvo vini eftir á Akureyri þó það hafi auðvitað breyst með Leikklúbbnum Sögu. Núna á ég fleiri vini í Reykjavík en ég get talið með fingrum og tám og stunda kaffihúsin grimmt.
Á döfinni er svo að Brynja "systir" kemur til okkar um helgina:) Hlökkum mikið til að sjá hana, ég ætla að reyna að plata hana með mér í bíó á einhverja stelpu mynd. 12. október kem ég svo til Akureyrar, þarf að fara til tannlæknis, ekki spyrja! Ég get ekki beðið eftir að koma við á Pálmholti og kíkja á börnin. 2. janúar er för minni heitið til Edinborgar, þá fæ ég að sjá Kjartan í fyrsta skipti í eitt ár. Sá verður orðinn stór. Það er til margs að hlakka:) Kristín Inga á afmæli á morgun, hún hélt upp á það um helgina og ég lét mig ekki vanta. Til hamingju með daginn á morgun Kristín mín.
<< Home