mánudagur, júní 19, 2006

Hún kveinkaði sér heldur ekki núna. Sama hversu kvalin hún væri þá skyldi ekkert hljóð koma frá vörum hennar.
Hún var fótbrotin. Hafði dottið niður stiga. Atburðarásin hafði verið óraunveruleg. Eftir fallið hafði hún setið kyrr langa stund og starað á opið beinbrotið. Eins og skáldið, hugsaði hún. Ég er fótbrotin eins og skáldið. Hún fór að brjóta heilann, hvað gerði skáldið í þessum sporum. Hún reyndi ákaft að muna og í gegnum þoku hugsananna kom það loksins. Hún vissi hvað hún þyrfti að gera.
Hún beit tönnunum saman og byrjaði hægt að mjaka sér upp stigann. Kvalirnar voru nánast óbærilegar og myrkrið dansaði lokkandi fyrir augum hennar. Hún hvíldi sig eftir hvert þrep. Safnaði kröftum og hélt svo áfram, myrkrið kom nær og nær, loks náði það henni.
Hún hrökk upp við sársaukann. Það var eins og fóturinn á henni væri að brenna. Hún leit rugluð í kringum sig, það tók hana svolitla stund að átta sig á aðstæðum. Sólin skein inn um gluggann og blindaði hana. Fuglarnir sungu hamingjusamir á móti sólinni. Það hlytu að hafa liðið margir klukkutímar. Hafði hún sofnað? Hún hló með sjálfri sér. Vissi ekki afhverju hún hló, kannski afþví hún vildi ekki gráta. Hún neyddi sig til að horfa á fótinn sem var orðinn stokkbólginn, hvítt beinið glotti til hennar, brotið. Hún leit upp og sá að það voru mörg þrep eftir. Hún reyndi að finna eldmóðinn frá því kvöldið áður. Eftir stutta stund tókst það. Henni fannst hún verða eitt með skáldinu, saman tækist þeim þetta. Hún fór þrep fyrir þrep án þess að hvíla sig, einbeitingin var algjör.
Hún var komin upp. Hvað næst spurði hún sjálfa sig? Skáldið svaraði henni.
Heilluð gerði hún eins og það bað. Hún skreið fram í eldhúsið og náði í harðfisk. Nógu þjóðlegt, hugsaði hún. Það var aðeins erfiðara að ná í Vodkaflöskuna en hún gafst ekki upp. Hún hefði viljað eiga brennivín eins og skáldið en þetta yrði að duga. Hún skreið einbeitt í átt að rúminu. Augun voru blóðhlaupin og varirnar sprungnar og bólgnar. Það tók nokkrar tilraunir að komast upp í rúmið. Myrkrið kom aftur um leið og hún lagðist í hart rúmið. Hefur skáldið yfirgefið mig, var hennar síðasta hugsun.
Það var aftur komið kvöld. Hún var skraufþurr í munninum. Hún teygði sig eftir vodkaflöskunni og fékk sér góðan sopa. Hún gretti sig, vissi ekki hvort það væri út af vodkanu eða fætinum. Skáldið var komið aftur. Hún vissi að hún yrði að gera eins og skáldið. Liggja og bíða eftir að einhver myndi vitja hennar. Kannski fengi hún líka lungnabólgu og kannski myndi hún deyja. Hún brosti, skáldið myndi gæta hennar.
Hún teygði sig í náttborðsskúfuna og tók upp blýant og gamla stílabók. Á ögurstundu eru bestu ljóðin samin hugsaði hún. Kannski myndi hún semja meistaraverk. Eitthvað sem yrði getið í íslenskri bókmenntasögu. Hún fékk sér annan sopa úr flöskunni og reyndi að japla á harðfisknum. Hún hafði ekki krafta til að borða hann svo hún tók upp blýantinn áköf á svip. Henni hlyti að fara að detta eitthvað í hug.
Hún var að hlaupa. Hún hljóp á blómum skrýddu engi, hratt eins og vindurinn. Hún var vindurinn. Hún leit niður á fætur sína, báðir voru heilir. Hún hló hátt og innilega og hélt áfram að hlaupa. Hún þreyttist aldrei. Þetta var hamingjan, að hlaupa endalaust. Þetta ætlaði hún að skrifa um.
Bros lék um varir stúlkunnar í rúminu. Smá saman hvarf það og augun urðu kyrr undir augnlokunum. Að lokum hljóðnaði andardrátturinn.
Það ríkti algjör kyrrð.