Ég er fótbrotin. Það er mjög lítið spennandi skal ég segja ykkur. Ligg upp í rúmi með skál við hliðina á mér. Skálin er full af verkjatöflum. Hver hefði trúað því að það væri svona erfitt að ferðast um á hækjum? Mig verkjar orðið í heilbrigða fótinn og er með strengi í höndunum. Samt var ég liggjandi í rúminu í allan gærdag nema þegar ég þurfti nauðsynlega að hreyfa mig.
Hvernig fór ég svo að þessu? Það var svo misheppnað. Ég var á Kaffi Ak í góðra vina hópi og missteig mig með þeim árangri að ég hrundi í gólfið. Ég fann rosalega til en reyndi þó að jafna mig, settist niður og hélt að þetta hlyti að fara að lagast. Gerði svo máttleysislega tilraun til að fara að dansa aftur en sá svo að þetta gengi ekki. Fannar, sá heiðursmaður, reddaði mér fari heim og studdi mig upp að dyrum.
Þegar inn var komið gat ég ekki sofnað, var alveg hætt að geta stigið í fótinn og leist ekkert á blikuna. Tók leigubíl upp á slysó þar sem ansi geðvondur starfsmaður tók á móti mér. Bauð mér ekki hækjur eða neitt og ég hoppaði um á öðrum fæti, dauðþreytt og slösuð. Sú illgjarna hreytti í mig nokkrum spurningum, urraði á Styrmi og sendi mig heim. Sagði mér að koma í röntgen klukkan 10. Svo kom önnur sem var töluvert mannlegri. Hún lét á mig teygjusokk og verkjalyf svo ég gæti sofið. Enn var mér ekki boðið hækjur svo ég hélt áfram að hoppa. Tók leigubíl heim aftur og gat sofið í fjóra tíma áður en ég átti að mæta aftur á spítalann.
Það tók á móti mér vingjarnleg amma þegar ég mætti á slysó í seinna skiptið. Þetta var ekki amma mín þó hún sé vingjarnleg og vinni á spítalanum. Hún bauð mér strax hækjur eða hjólastól. Hetjan ósofna valdi auðvitað hækjurnar. Ég átti samt erfitt með að halda jafnvægi vegna þreytu. Nenni ekki að fara nánar út í þessa sjúkrahúsferð en fólk var almennt ekkert mjög mannlegt. Ég þarf að vera á hækjum í nokkrar vikur og vonlaust að ég komist í vinnu á næstunni. Mér er strax byrjað að leiðast og get aðeins huggað mig við allar heimsóknirnar sem ég á vonandi eftir að fá og símtölin. Ég vorkenni mér svolítið ég viðurkenni það. Ég á samt að geta stigið í fótinn þegar ég fer til Búlgaríu eftir mánuð en ég verð ekki orðin góð.
Nenni ekki að skrifa meira núna, ég hef svo mikið að gera. Ætla að fara að stara upp í loftið.
P.S. Ætli það sé ekki hægt að setja tjáningu 103 sem skyldufag í læknadeildina?
<< Home