Mér leiðist. Næst þegar ég tek upp á að slasa mig ætla ég að heimta að fá að leggjast inn á sjúkrahús. Þá neyðist fólk til að koma að heimsækja mig á heimsóknartímum. Einnig finnst fólki það knúið til að koma með blóm og vikublöð til að stytta sjúklingnum stundirnar. Svo hefur maður herbergisfélaga og læknarnir og hjúkkurnar droppa reglulega við og heilsa upp á mann.
Svona í fullri alvöru er ég fegin því að vera ekki á sjúkrahúsi. Þá gæti ég til dæmis ekki horft á Prison break allan daginn (Er komin á þátt 14 Ævar) sem eru snilldar þættir. Svo fór ég út í gær, aðeins á Bláu könnuna og kvöldið áður kíkti ég á Karó með Margréti og Sunnu. Það var mjög fínt. Ég ætla líka út í kvöld, í matarboð til deildarstjórans míns. Það er erfitt og þreytandi að vera á ferðinni en mun skárra en að hanga heima.
Ég er alltaf að reyna að vera hetja, tek ekki eins mikið af verkjatöflum og læknirinn ráðlagði mér. Læt alltaf líða lengra og lengra á milli skammta. Maður verður svo sljór af þessu. Nenni ekki að skrifa um hvað allt er erfitt, til dæmis bara að fá sér vatnsglas.
Ég sakna svo barnanna minna á Pálmholti og svo sakna ég líka hans Kjartans míns. Ég skrifaði Ingibjörgu um daginn. Hér er brot úr tölvupóstinum... "Kjartan er mjög leiður yfir þessum fréttum - en létti þegar hann heyrði að fóturinn hefði ekki brotnað af og þetta myndi gróa aftur."
Hann er sætastur í heimi.
<< Home