LEIKLIST - Leikklúbburinn Saga
Einstakt leikhús
Núna
Höfundar: Leikhópurinn. Leikstjóri: Guðjón Þorsteinn Pálmarsson. Leikarar: Auður Stefánsdóttir, Kristjana Stefánsdóttir, Margrét Hannesdóttir, Salka Gústafsdóttir, Steinar Halldórsson, Sunna Björk Ragnarsdóttir,Vala Stefánsdóttir. Sýning 21. maí 2006
Með Guðjóni Þorsteini Pálmarssyni leikstjóra sögðu sjö krakkar einlægar sögur, beint frá hjartanu. Sögur þeirra létu engan ósnortinn og ég hló og táraðist á víxl. Núna var ekki hefðbundið leikhús en samt leikhús í sinni tærustu mynd: Leikarinn var einn með áhorfendum í svo pínulitlu rými að nær varð ekki komist. Krakkarnir töluðu beint til okkar af svo miklu öryggi að ætla mátti að þau væru þrælvön að koma fram sem leikarar og uppistandarar. En meira en helmingur hópsins var óvanur. Sumar af reynslusögunum voru sniðnar til, aðrar alveg sannar. Allar voru þær mjög áhugaverðar. Þau töluðu um samskipti og samskiptaleysi; um fyndin atvik; um sorg og ótta; um erfiða bernsku og um framtíðardrauma. Þarna kristallaðist í leiklistinni allt það sem mælir með því að nota hana sem uppeldis-, kennslu og meðferðartæki ásamt skemmtun og afþreyingu. Það var gott að vera í leikhúsinu þetta kvöld.
Hrund Ólafsdóttir
Tekið af mbl.is þann 07.06.06.
<< Home