laugardagur, maí 19, 2007

Þetta er búið að vera aldeilis góður dagur og reyndar gærdagurinn líka. Gærdagurinn var reyndar mjög skrítin, ég fékk hæstu einkunn sem ég á líklega eftir að fá í háskóla og einnig þá lægstu, (vonandi). Samt sem áður var ég næstum jafn ánægð með þær báðar. Ástæðan er sú að ég náði helvítis setningafræðinni og var meira segja ekkert svo hræðilega nálægt því að falla. Ljóta ósanngjarna prófið getur bara bitið í sig, þetta er búið:)

Ástæða þótti til að fagna í gær og fórum við Styrmir út að borða á Shalimar og fengum rosalega góðan mat. Í morgun vaknaði ég svo með þá tilfinningu að í dag fengi ég pönnuköku. Förinni var heitið út úr borginni og í sveitasæluna og við skelltum okkur á Njálusetrið á Hvolsvelli (nema hvað, ég er nú einu sinni íslenskunörd) Reyndar var verið að breyta sýningunni svo það var lítið að sjá en afgreiðslustúlkan labbaði samt með okkur í gegn og sagði okkur hvernig þetta yrði. Svo gátum við skoðað líkan af Þingvöllum og Kaupfélagssafnið sem var mjög gaman. Þurftum ekki einu sinni að borga, þarna komum við aftur í sumar, ekki spurning.
Eftir þetta vorum við orðin svöng og við fundum fínasta kaffihús á Hellu. Það fyrsta sem ég rak augun í voru pönnukökur og auðvitað pantaði ég mér eina slíka og gat ekki stillt mig um að segja Styrmi að ég hefði haft rétt fyrir mér:)
Ferðina enduðum við svo á því að skoða Urriðafoss sem er vatnsmesti foss landsins. Hann var mjög flottur og ansi gaman að koma þangað.
Þegar heim var komið eldaði ég fylltar kjúklingabringur og erum við hæstánægð með daginn okkar.

Þegar maður fer á svona road trip er nauðsynlegt að hlusta á góða tónlist. Í uppáhaldi þessa dagana er Any other world með Mika, hvet alla til að hlusta á þetta lag, algjör snilld.
Svo er maður bara farin að plana sumarið, ætla að reyna að fara sem mest um helgar og skoða landið mitt. Ég sé fyrir mér að foreldrar mínir glotti við þennan lestur þar sem ég var ekki svo hrifin af slíkum ferðum þegar ég var á gelgjunni. Þá ferðuðust foreldrar mínir innanlands en ekki um heiminn líkt og nú. Ég sat í bílnum í fýlu og las bók og bölvaði ættingjum mínum að eiga ekki barn á mínum aldri. Sindri hafði svo oft leikfélaga sjáiði til.

Batnandi mönnum er best að lifa ekki satt;) Ég er næstum búin að sætta mig við það að ég komist ekki til Noregs og fái ekkert sumarfrí. Klappið fyrir jákvæðninni og bjartsýninni sem einkennir þetta blogg og farið svo að hlusta á Mika:)

fimmtudagur, maí 17, 2007

Færsla númer 200:)

Ég er aðeins að jafna mig á prófinu ógurlega og næstum búin að sætta mig við að ég verð að vinna í allt sumar og fer ekki í neina utanlandsferð.
Ég eyði miklum tíma í að kíkja inn á Ugluna og í gær hafði ég loks eitthvað upp úr krafsinu. Ein einkunn komin og ég get ekki verið annað en sátt.

Úff, hef ekkert að segja. Fer norður eftir rúma viku, í útskrift hjá múttu. Hlakka til að komast aðeins heim:)

miðvikudagur, maí 09, 2007

Mér hefur aldrei gengið verr á ævinni. Gleðin yfir að vera búin er horfin áður en hún byrjaði og skyndilega er allt grátt. Sumarið mitt sem átti að verða svo ánægjulegt kemur aldrei, Noregur væntanlega út úr myndinni.

Nú má rigna.

þriðjudagur, maí 08, 2007

Sjitt og fokk.
Íslenskuneminn verður að grípa til þess að sletta, slík er hræðslan sem bærist innra með honum. Á morgun gott fólk, á morgun verður aftakan.

laugardagur, maí 05, 2007

Jæja þá eru fjögur próf búin. Mér finnst eins og ég hafi ekki gert annað en að læra í fleiri mánuði og ég nenni ekki meir. Þó er erfiðasta prófið eftir sem þýðir að ég verð að læra allavega 16 tíma á dag næstu daga. Ég ætla að ná þessu helvíti, nenni ekkert í neitt sumarpróf og sérstaklega ekki í svona hræðilegu fagi. Þess má til gamans geta að nái ég 9 í prófinu (hahaha, góður þessi) gef ég Álfhildi 100.000 krónur. Líkurnar eru í mínus svo hafið ekki áhyggjur gott fólk. Eyðið frekar kröftum ykkar í að vona að Álfhildur fái 9 því þá fæ ÉG 100.000 kall, múhahaha;)

Fjórir dagar eftir, það er ekki neitt. Eftir það......... SUMAR:)