föstudagur, júlí 13, 2007

Allt í einu er komið fram í miðjan júlí og Hanna Karin er sex ára í dag, til hamingju með það Hanna:) Lítið er eftir af grasekkjulífinu sem hefur þó verið mjög fínt. Hef verið dugleg að hitta mann og annan og mjög ánægð með það. Svo er auðvitað engin ástæða til að vera bitur vegna þess að maður er ekki í útlöndum, góða veðrið er búið að vera hjá mér í sumar og hef ég notið þess vel. Allt frá því að sitja út í garði og gæða mér á ferskum ananas, til ísferða og meiri ísferða. Að sitja úti í blíðunni á Hressó með Sólu, Ivu og bananasplitti er dásamlegt.

Litli bróðir minn kom til mín um þarsíðustu helgi og höfðum við það rosalega gott, fórum út að borða og í keilu ásamt Lilju og Andra, sagan segir að ég hafi staðið mig afar vel;) Ég fór svo norður á mánudaginn til að hitta krílabróðurinn aðeins meira sem og foreldra, tengdaforeldra, ömmur, afa, ættingja og vini. Það var virkilega gaman að koma norður og yndislegt að hitta alla. Auðvitað fór ég á Pálmholt og var þar í fjóra klukkutíma, ég bara tímdi ekki að fara.

Helgin verður góð hjá mér og þar mun Harry vinur minn Potter standa upp úr. Ég hefi hugsað mér að fara á mynd númer fimm ásamt Agg og Agl, ekki slæmur félagskapur þar. Síðan mun ég sitja stjörf í sætinu í 138 mínútur og passa mig á að blikka aldrei augunum svo ég missi nú örugglega ekki af neinu. Vúhú, ég hlakka svooo til. Svo maður minnist nú ekki á bókina sem kemur út eftir 8 daga, en það er önnur saga.

Ég er byrjuð í nýrri vinnu, er í Rannsóknarstofu Háskólans og sinni þar háleynilegum verkefnum. Upplýsingar væri hugsanlega hægt að toga upp úr mér fyrir væna fúlgu, nei ég segi bara svona. Þarna verð ég það sem eftir er af júlímánuði og sný svo aftur á leikskólann reynslunni ríkari.

Ef einhver hefur áhuga, tíma og hugmyndir þá langar mig gjarnan að fara í útilegu einhverja helgina í sumar, það er ekki sumar nema að maður fari í útilegu er það?
Að lokum, tölfræði helgarinnar: nr 16 á biðlista eftir stúdentagörðum, átta dagar í Harry Potter bók nr. 7 , fjórir dagar í að karlinn snúi heim á ný, einn dagur í að ég fari á Harry Potter og Fönixarregluna og í blálokin, Styrmir hefur innbyrgt x marga bjóra í interrailinu.