fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Þessi vika hefur aðallega snúist um flutninga, að pakka og sinna pappírsvinnu. Ótrúlegt hvað vikurnar virðast snúast um allt annað en nám. Ég er að byrja að sætta mig við að líkurnar á að klára BA ritgerðina á þessari önn eru hverfandi. Fæ samt meirihlutann af námslánunum en spurning hvort þetta hafi áhrif á blessaðan fæðingarstyrkinn.

Af krílinu er allt gott að frétta, það er orðið ansi þröngt um það í bumbunni þrátt fyrir að hún hafi vaxið töluvert. Setti inn nýjar bumbumyndir á síðuna fyrir ykkur sem njótið ekki þeirra forréttinda að eiga í daglegum samskiptum við mig ;)
Krílið er svo heppið að eiga góða að og við erum komin með mest af stóru hlutunum sem er nauðsynlegt að eiga fyrir fæðingu. Auðvitað ýmislegt sem vantar, eins og leikteppi og ömmustóll en það má alveg bíða. Við ætluðum reyndar í dag að kaupa barnapíugræju en hrökkluðumst út þegar við sáum verðið. Eigum smá von um að fá notaða og ætlum aðeins að bíða og sjá til.
Á morgun er svo aukasónarinn til að athuga hvort það sé allt í lagi með nýrun á litla krílinu. Við höfum reynt að hafa sem minnstar áhyggjur en auðvitað erum við svolítið kvíðin. Vona að við fáum góðar fréttir, skrifa inn á barnalandssíðuna eftir sónarinn.

Á laugardaginn er stefnan tekin á samstöðutónleika með fríðu föruneyti. Skilyrðið er eiginlega að ég fái sæti enda erfitt að standa í fjóra tíma komin tæpa 8 mánuði á leið. Á sunnudagskvöldið verður svo síðasta Dagvaktarkvöldið í þessari íbúð og er ég bæði spennt og kvíðin. Þættirnir standa fyrir sínu og eru snilld en ég roðna og blána vegna þess að ljóshærði sakleysinginn er ekki svo saklaus eftir allt saman. Hvað segir þú Ævar, á ég að vera tilbúin með púða fyrir augun :P ?