fimmtudagur, desember 09, 2004

Gærdagurinn var nú töluvert viðburðaríkari en ég átti von á. Já, dagurinn sem við munum öll minnast sem dagsins sem ég varð fræg, eða hvað? Það byrjaði með því að ég fékk símtal frá manninum sem kom í skólann okkar og er að gera stuttmynd. Hann virtist frekar áhugasamur um mig og vildi endilega fá mig í viðtal. Ég er því á leið í atvinnuviðtal á fimmtudaginn kemur, verð að viðurkenna að ég er pínu kvíðin en hef ekki hugmynd af hverju.
Það er ekki nóg fyrir mig að vera fræg í Edinborg svo það virðist sem ljósmyndarinn sem tók stúdentamyndirnar mínar hafi ákveðið að nota mynd af mér í auglýsingaskyni. Þetta er hið versta mál því myndin er birt í sorpritinu Extra sem dreift er í öll hús á Akureyri, Ólafsfirði og Dalvík ef ég man rétt. Og sem MA-snobbari verð ég að viðurkenna að ég er hreint ekki ánægð með að vera bendluð við VMA. Mér skilst að það standi fyrir ofan myndina "Til hamingju nýstúdentar VMA 18. desember" eða eitthvað þvíumlíkt. Einnig hef ég ekki gefið leyfi til að fésið á mér sé notað í auglýsingaskyni og er því ekki sátt við þetta.
Ég verð að skýra mál mitt betur. Extra er andstyggilegur snepill, yrði ekki hissa ef fólk notaði það þegar klósettpappírslaust er á heimilinu. Sá sem gefur það út er enginn annar en Helgi Jónsson, já maðurinn sem skrifaði skelfilegar unglingabækur á við Allt í sleik og Rauðu augun. Það sem ég tel þó algjörlega ófyrirgefanlegt eru Gæsahúðarbækurnar sem maðurinn skrifar. Ekki veit ég hvernig hann náði sér í rétt til að skrifa bækur undir því nafni því það er erlendur rithöfundur sem skrifar þessar bækur og hafa nokkrar verið þýddar á íslensku. Þetta eru bækur fyrir börn og eru þessar erlendu nokkuð góðar, vekja örlítinn ótta eins og þær eiga að gera en ekkert meira. Helgi hinsvegar skrifar í allt öðrum stíl, ef stíl skyldi kalla. Bróðir minn fékk eitt sinn bók eftir hann í jólagjöf, ég fletti í gegnum hana og henti henni svo. Hún fjallaði um gamlan mann sem myrti söguhetjurnar og gróf þær í garðinum. Þetta er kannski ekki það versta, Helgi hefur gefið út nýja Gæsahúðbók fyrir jólin. Hún ber nafnið Litla líkistan. Ég læt fylgja með lýsingu sem ég tók af http://www.bokautgafa.is/page_37.html alltsvo bókatíðindum á netinu í dag.
Steini er að leika við Fellini, litla sæta hundinn í næsta húsi, þegar hann fellur fram af húsþaki – og deyr. Eða svo halda allir. Hann er fluttur á sjúkrahús þar sem læknar úrskurða hann dáinn. Mamma og pabbi og litla systir eru sorgmædd. Svo er Steini litli jarðaður. En er hann raunverulega dáinn? Af hverju lætur Fellini litli öllum illum látum? Af hverju er Steini að berja og öskra í kistunni djúpt ofan í jörðu?
Ég tel ekki að ég hljómi eins og gömul nöldurkerling þó þetta fari í mínar fínustu. Hafði sjálf gaman af dularfullum og spennandi bókmenntum þegar ég var barn. En það er engin að tala um að sjúkar bók"menntir" séu við hæfi. Er einhver sammála?

Þá er ég búin að létta á mér. Sóla kemur á morgun:)