miðvikudagur, desember 08, 2004

Ég held það sé örlítið að rætast úr jólaskrautsleysinu hjá mér. Að minnsta kosti fann ég mér dagatal um helgina, reyndar ekki súkkulaði en það er í góðu lagi. Minnir að ég hafi gefið Styrmi flesta molana í fyrra og bróður mínum árið þar áður. Það er svo annað mál að myndirnar í þessu dagatali eru ekki alltaf jólalegar. Í gær var það bökuð kartafla, skreytt með osti og á toppinum trónaði ber.
Skotarnir eru svo bara flestir búnir að setja upp jólatrén og skreyta, þeir taka það svo niður vel fyrir áramót. Sinn er siðurinn í hverju landi, ég segi ekki annað.

Ég er frekar bitur út í skólann minn, ég hef nóg að gera en var samt nógu samviskusöm til að gera heimavinnuna mína, allt til einskins, Bókin sem ég valdi mér til að lesa upp úr var ekki nógu góð fyrir kennarann minn, Anne. Ég á því að kaupa "Fýkur yfir hæðir" og finna mér part úr henni og lesa, fyrir utan þetta er svo auditon hjá Crispin næst og ég þarf að læra dágóðan part utan að fyrir það.
Svo var mikið spjallað um partýið sem verður á laugardaginn, við eigum að koma með mat með okkur og ég ætla að vera svo sniðug að koma með flatbrauð með hangikjöti. Það er að segja ef Sóla verður svo væn að kaupa það fyrir mig. Í framhaldi af þessu spurði Pam mig út í íslenskan mat sem hún hélt að væri allur hrár eins og sushi, svo var hún mjög forvitin yfir því hvernig við höldum jól og áramót. Merkilegast fannst henni að allir mættu kaupa eigin flugelda og skjóta þeim upp. Það er ekki leyfilegt hér, það er bara ein flugeldasýning um áramótin.

Ég hef ennþá ekki lagt í það að skrifa blessuð jólakortin en þyrfti helst að klára þau sem þarf að senda áður en Sóla kemur. Svo eru það Carminugreinarnar tvær, er reyndar langt komin með aðra þeirra en tíminn er naumur.
Að heiman virðist lítið að frétta. Sá á mbl.is um daginn að Lárus Orri væri að koma aftur í Þór og var heldur en ekki glöð yfir að gamla hetjan frá barnsárunum ætlaði að feta í fótspor enn stærri hetju, Hlyns Birgissonar. Nokkrum dögum seinna stóð svo á mbl.is að Lárus ætlaði að leggja skóna á hilluna. Ef einhver veit hvort er rétt má hann upplýsa mig um málið. Okkur Þórsurum veitir nú ekki af Lárusi til að sigrarnir yfir Víkingi Ólafsvík verði enn stærri í sumar. Mikið hlakka ég til:)