Þá er ég gengin í EAS. Já, fór í prufu fyrir Edinburgh acting School í kvöld og komst inn. Ekki veit ég afhverju, þar sem ég hef nú lesið þetta betur, fipaðist örlítið fyrst í mesta stressinu en svo lagaðist það nú. Allavega þá fékk ég mikið hrós og var boðin velkomin með það sama, skólinn byrjar á mánudaginn. Meðal annars þótti ég hafa góða rödd, ég sem er enn að jafna mig eftir hálsbólgu. Það má kannski taka það fram að það var enginn annar en Earnest, eftir góðvin minn Oscar Wilde sem hjálpaði mér að komast inn.
Ég er viss um að djúpur skilningur minn á ævi Wilde, sem ég öðlaðist við fyrirlestrargerð með Lilju, hafi átt sinn þátt í velgengni minni. Ég og Lilja lifðum okkur að minnsta kosti ansi mikið inn í verkefnið, vorum farnar að leita uppi afkomendur Oscars og ég veit ekki hvað.
Nóg um það. Það lítur út fyrir að ég verði að passa hjá Habbý á laugardagskvöldið, hmm orðinn fastur liður. Þó mun ég neita ef partýið hennar Soffíu reynist vera það kvöld, veit það ekki enn. Svo er spurning hvort ég bíði ekki aðeins lengur með jólagjafakaup, þarf að borga leiklistarskóla og verð þar af leiðandi bláfátæk kona.
Að öðru leyti hef ég það fínt, er greinilega farin að gera mig heimakomna hér. Hef vísað nokkrum túristum til vegar og svo stóð ég mig að því að segja"thank u" í dag..