mánudagur, janúar 31, 2005

Það er vor í lofti í Edinborg, enda janúar að renna sitt skeið og hinn merki mánuður febrúar að ganga í garð. Lífið gengur sinn vanagang eftir að Styrmir fór, (í gær) ég fer í skólann í kvöld og verður það örugglega ekki leiðinlegt. Ég og Dana erum að fara að vinna að samlestri sem á að flytja eftir 3-4 vikur svo það er nóg að gera. Á miðvikudaginn hef ég þegar planað að hitta Malenu, aldrei að vita nema fleiri sláist í hópinn. Á föstudagskvöldið verður partý hjá Richard sem byrjar með Haggis boði fyrir útvalda. Ég ætla hinsvegar ekki fyrir mitt litla líf að fá mér, þeir sem mig þekkja vita hvað mér finnst um slátur!

Í liðinni viku hef ég afrekað markt skemmtilegt. Meðal annars fórum við Styrmir þrisvar í bíó, þar af einu sinni í Gold class, karlinn lét okkur samt óvart borga sama verð og fyrir venjulega miða;) Einnig fórum við að borða á uppáhalds veitingastaðinn okkar með "son" okkar. Fólk virtist halda að Kjartan væri okkar barn og fannst við voða sæt fjölskylda. Styrmir var að vísu 14 ára þegar Kjartan fæddist en það er annað mál. Við fórum ekkert á djammið en kíktum á pöbb á föstudagskvöldinu og svo kom Eva til okkar á laugardagskvöldið vopnuð bjór. Höfðum það aldeilis ágætt og náðu Styrmir og Eva vel saman, að minnsta kosti virðist hún ákaflega hnuggin á bloggsíðunni sinni yfir að hann sé farinn.
Ástæðan fyrir því að lítið var farið út á lífið, eða út yfirleitt að skoða, var sú að ég var lasin. Var langt frá því að vera upp á mitt besta fyrstu tvo dagana og sá Styrmir alfarið um Kjartan á milli þess sem hann hjúkraði mér. Ég stóð mig þó eins og hetja í barnaafmælinu á sunnudaginn, enda stórvön að sjá um barnaafmæli en lagðist í rúmið þegar gestirnir voru farnir. Ég lagaðist þó seinni part vikunnar svo lesendur geta þerrað þau tár sem ég efast ekki um að hafi verið komin fram vegna samúðar með mér.
Ég fór með Styrmi alla leið á flugvöllinn í gær, svolítið sniðugt þarna í Glasgow gat verið með honum alveg þangað til hann fór inn í vél, honum leiddist þá ekki á flugvellinum.

Kjartan greyið hefur alls ekki jafnað sig eftir að Styrmir fór, hann er alveg miður sín. Honum finnst að Styrmir eigi alltaf að vera hjá okkur og fór neðri vörin að titra þegar honum var tjáð að svo væri ekki. Þegar við lokuðum útidyrahurðinni henti Kjartan sér upp í rúm og andvarpaði af sorg. Svo kom Kristján að honum seinna um daginn umkringdum 4. bananahýðum. Ég hefði reyndar frekar lagst í súkkulaðið en Kjartan fór aðeins heilsusamlegri leið til að sefa sorg sína. Svo í morgun kom hann inn í herbergið mitt og spurði hvar Styrmir væri. Ég sagði honum að hann væri farinn, Kjartan ætti að vita það. Þá andvarpaði sá stutti og sagðist hafa vonað að þetta væri bara hræðilegur draumur. Eins og til að sannfæra sig fór hann að leita í sænginni, hvort Styrmir væri ekki að fela sig, þegar hann hafði leitað af sér allan grun lagðist hann hjá mér og tjáði mér að hann langaði til að gráta. Ég reyndi að hugga hann með því að Styrmir kæmi aftur en nei, Kjartan vildi sko að hann kæmi núna. Er uppiskroppa með hugmyndir til að hughreysta hann. Hinsvegar var Soffía mín svo góð að hugsa um mig í gær, gaf mér að borða, pitsu og kók og svo horfðum við á DVD og American Idol. Takk Soffía.

Ég er búin að fá afmælisgjöf frá mömmu og pabba sem eru lestarmiðar til London. Þetta er frábær gjöf, takk so mikket. Hlakka svo til, Ásta er búin að panta hótel, svo verður farið á söngleik og ég veit ekki hvað og hvað....

laugardagur, janúar 22, 2005

Það er komið að því að ég innheimti jólagjöfina frá tengdafólkinu mínu. Þau voru svo elskulega að gefa mér Mimma í jólagjöf. Ég er mjög ánægð með þessa gjöf sem mun verða send til mín í fyrramálið upp að dyrum og reikna ég með að hún verði komin um eitt. Aumingja Styrmir kemur beint í barnaafmæli en það verður örugglega fjör. Svo verðum við bara að skötuhjúast næstu vikuna. Ætla að taka hann með mér í skólann á þriðjudaginn, verður forvitnilegt að sjá hvað honum finnst um fólkið mitt og hvað þeim finnst um hann.
Ég er reyndar slöpp, svolítið svona lasin, en ég harka það af mér. Ekkert skal fá að spilla gleði minni!

föstudagur, janúar 21, 2005

Fyrsti í afmæli er búinn. Fórum með allar gasblöðrurnar á leikskólann í gær, það var skrautlegt. Ekki má gleyma Spidermankökunni en Kjartan kom með afganginn af henni heim. Þvílíkan viðbjóð hef ég bara ekki smakkað, dísætt með væminni, blárri sykurhúð. En Sæmsa Palla fannst hún góð og heimtaði að það yrði geymd sneið handa honum. Ekki ætla ég að borða þetta, það er víst. Svo verður haldið upp á afmælið á sunnudaginn, þá fyllist húsið af æpandi krökkum, reyndar koma Eva og Soffía líka, spurning hvort þær séu í þeim hópi.

Stefnan er tekin í bíó í kvöld, á myndina Closer. Samferðakonur mínar verða; Malena, Johanna og Eva, svo mun ég halda heim til Evu og gista þar í nótt, það er að segja ef svo ólíklega vill til að enginn karlamaður verði í heimsókn;) Nei Eva mín, ég hætti ekki.
Gerði svolítið gáfulegt á miðvikudaginn. Þannig er mál með vexti að Kjartan á nokkrar skyrtur. Ég taldi því upplagt að klæða hann í eina þeirra, fann þessa líka fínu bláköflóttu skyrtu. Kjartan var líka ánægður með sig, fannst hann voða smart eins og hann orðaði það. Svo leið dagurinn og varð að kvöldi, Ingibjörg og Kristján komu heim og við fórum að borða. Allt í einu horfði Ingibjörg undarlega á mig og spurði hvort Kjartan hafi verið í þessari skyrtu í allan dag. Ég játti undrandi og spurði hvort það væri ekki í lagi. Þá sprakk hún úr hlátri, þetta var sumsé náttskyrta. Ég varð eins og auli en ákvað bara að hlæja með, Kjartani greyinu fannst þetta ekki eins fyndið.

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Ég vil þakka Ástu fyrir að vera svo elskuleg að laga síðuna mína. Hún betrumbætti hana, setti inn þetta fína kommentkerfi og skrifaði auk þess glæstan pistil um sambýling sinn og sig, ég kom einnig við sögu. Þess má geta að í tilraun minni til að setja inn komment kerfi rústaði ég síðunni algjörlega svo að Ásta er hér með útnefnd kraftaverkarkona. Lesendur mega alltaf eiga von á undarlegum færslum í framtíðinni, þar sem Ásta er með notendanafnið og lykilorðið mitt:) Að lokum vil ég hvetja alla til að kommenta, góð byrjun væri að skoða myndina í færslunni frá 20. des og kommenta á hana.

Það er kannski best ég segi aðeins frá skólanum í gær. Ég kom að sjálfsögðu með ræðu, áttum að koma með eitthvað klassískt, sumsé Shakespeare og ég ákvað að velja mér frekar stutta. Við áttum þó ekki að læra hana utan að, ástæðan kom fljótt í ljós. Við áttum að vera tvö og tvö saman og skipta um ræður. Ég var svo heppin að ég fékk lengstu ræðuna af öllum. Svo fengum við tuttugu mínútur til að vinna með hana og svo þurfti maður að lesa það upp. Crispin var svo undrandi hversu vel mér tókst til þar sem tungumálið er ekki það auðveldasta, svei mér þá ég var svolítið ánægð með mig, þau hrósuðu mér öll svo mikið. Nóg komið af sjálfsánægju í bili. Síðan þurftum við að fara með ræðurnar frá því í síðustu viku og rúlla okkur eftir gólfinu á meðan, hlaust að því töluverður svimi. Við héldum á pöbbinn að skóla loknum og nutum ódýra veitinga og svo skutlaði Pam mér heim. Mjög gott kvöld.

Fór einnig út í kvöld, á pöbb með Malenu og Johönnu, þær ætla líka að hitta okkur Evu á föstudagskvöldið, stefnan tekin á bíó.
Svo er það hann Kjartan Þorri sem á afmæli á morgun. Hann verður 4. ára og ætlar með Spidermanköku á leiksskólann. Ekki má gleyma gasblöðrunum sem Ingibjörg fyllti á fyrir hann. Til hamingu með daginn stóri strákur.

Ásta hét kona er kölluð var hin limfagra. Hún var drengur góður, spök og vitur mjög. Hennar sambýliskona var Brynja hin hörundsmjúka. Brynja var kvenskörungur mikill, fögur sýnum og heitfeng í skapi. Svo vill það til þennan vetur að sambýlingar huga að útför mikilli. Halda þær til skips og halda til Brittaníu og taka land við Lundúnaborg. Hittu þær þar fyrir landnámskonuna Auði augnayndi. Hún var göfug kona mjög og heilsaði sambýlingum vel og gaf þeim góðar gjafir. Ok lýk ek þá sögu þessari.

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Ég er búin að rembast við það að setja inn comment kerfi. Það gengur ekki nógu vel. Það virðist alltaf koma efst og því ekki hægt að kommenta á nýjustu færsluna (held ég). Ég gefst upp í bili en vonast til að þeir fjölmörgu sem hafa kvartað yfir því að ekki sé hægt að kommenta, muni nýta sér þessa annars ágætu tækni.

Á laugardeginum kom ég ekki miklu í verk sökum þreytu en ég ákvað að fara til Evu og hjálpa henni að passa. Kom við í bænum og hoppaði inn í eina búð, kom út aftur með tvennar buxur og bol fyrir 2000 krónur. Síðan fór ég til Evu og fékk nánast hjartaáfall því á rúminu hennar sat einn af drengjunum frá kvöldinu áður. Þau reyndu bæði að sannfæra mig um að hann væri nýkominn, ég gerði mitt besta til að trúa því;)
Hann kom sér reyndar fljótlega út úr húsinu eftir að ég kom svo Eva hafði einhvern tíma fyrir mig. Var komin heim og sofnuð um 12 leytið, svaf í 12 tíma. Yndislegt.
Sunnudagurinn fór í leti framan að en svo kom ég mér á fætur og fór í bæinn með Soffíu. Við fengum okkur pitsu og fórum svo í bíó. Hún ætlaði með Richard en ég með Malenu og Johönnu, var búin að sjá myndina sem þau ætluðu á. Það reyndist svo uppselt á myndina okkar Finnana svo ég bauð þeim bara heim til mín í staðinn. Kristján og Ingibjörg ætluðu í bíó en þau fóru frekar seint svo stelpunum var boðið í mat. Þær höfðu verið að skemmta sér kvöldið áður, höfðu enga matarlyst en kunnu ekki við að afþakka. Þetta var skemmtilegt kvöld, Eva kom líka og var ákveðið að við myndum allar fara í bíó á miðvikudaginn í staðinn.

Svo var það gærdagurinn með sinni vanalegu rútínu, Kjartan og Sæmsa. Ég gæti stundum andast úr hlátri yfir þeim, þeir eru svo vitlausir. Þannig var mál með vexti að Sæmsi var á klósettinu og Kjartan sturtaði niður fyrir hann. Sæmsi tók því illa þar sem hann vildi gera það sjálfur.
S: Ég ætla ekki að giftast þér lengur Kjartan.
K: (skeifa) Æiiiiiiii. Stuttu seinna, ég skal aldrei gera það aftur Sæmsi. Viltu þá giftast mér?
Ég sem hélt ég hefði verið búin að útskýra fyrir þeim hvernig þetta væri þegar Kjartan sagði um daginn að hann ætlaði að giftast kærastanum mínum. Það virðist hinsvegar ekki hafa skilað árangri. Þeir eru allavega með það á hreinu að þeir ætli ekki að giftast stelpu, því eins og allir vita eru strákar miklu betri. Litlu karlremburnar.

Það var skóli í gærkvöldi. Tvöfaldur movement. Hélt fyrirfram að ég myndi deyja en þetta var ekki svo erfiður tími þar sem Crispin lagði áherslu á meira en líkamlega áreynslu. Í næstu viku verður hinsvegar þrekhringur með Shakespeare, það verður áhugavert.
Annað áhugavert, það byrjaði að snjóa hér í gær. Á götunum er núna örþunnt lag af snjó. Það var ekki talað um annað í fréttunum í morgun og fólkið í skólanum í gær lét eins og það væri óveður. Ég bara hló. Svo sá ég konu í morgun vera að skafa af bílnum sínum. Það gekk þannig fyrir sig að hún setti rúðuþurrkurnar á fullt og spreyjaði einhverju úr brúsa á rúðuna. Það er margt undarlegt hérna í útlandinu...

laugardagur, janúar 15, 2005

Það er komin helgi og aldrei þessu vant eyddi ég ekki föstudagskvöldinu í nammiát og sjónvarpsgláp, heldur fór ég út á lífið í góðra vina hópi. Það var virkilega skemmtilegt að komast út og fórum við íslensku fljóðin á Vodka bar, að ég held, ég hef ekki haft fyrir því að leggja á minnið nöfnin á skemmtistöðunum. Þar hittum við Richard og heilan helling af vinum hans. Þeir voru að sjálfsögðu spenntir fyrir þessu fagra kvenfólki og fylgdu okkur allt kvöldið. Ég komst að því að skoskir strákar eru ekki svo mikið skárri en þeir íslensku. Einn þeirra tók sér það bessaleyfi að strjúka yfir hárið á mér með mikilli aðdáun og vakti það ekki mikla lukku.
Eitthvað græddum við þó á þessum strákafans þar sem þeir voru duglegir að borga drykkina. Ég eyddi ekki nema 4, 5 pundum og þá keypti ég drykki fyrir mig, Richard, Evu og Soffíu, veifaði stúdentakortinu góða og fékk þennan líka afslátt. Við þræddum nokkra staði, dönsuðum og skemmtum okkur hið besta þar til veskinu hennar Evu var stolið, það er ekki gaman að lenda í því en sem betur fer var Eva með bæði símann og myndavélina í vasanum. Við fórum svo út og ætluðum í partý heima hjá Richard. Stelpurnar komu svo ekkert þar sem þær fundu einhverja Íra og Ástrala, ég beið eftir þeim heima hjá Richard og horfði á MTV og spjallaði aðeins við hann. Fínn náungi og sem betur fer ber virðingu fyrir því að ég sé lofuð, engin reynaviðsla í gangi. Þegar var orðið útséð um að stelpurnar kæmi pantaði ég mér leigubíl og hélt heim á leið. Þangað var ég svo komin um 6 í morgun og vaknaði svo níu við alveg eiturhressan Kjartan. Gat því miður ekki sofnað aftur þó þau færu út. Svo komu þau heim með fiðrildahárskraut handa mér, því Kjartan hafði sagt mömmu sinni að mig langaði í svoleiðis:)

Þessi vika var líka alveg ágæt. Ég var mikið með Sæmsa og Kjartan og gekk það svona upp og ofan. En þeir komu mér á óvart þegar þeir fóru að keppast um hvor gæti verið betri við mig. Ansi skemmtilegt verð ég að segja og sama kvöld kláruðu Helga og Sæmsi bæði matinn sinn sem hefur aldrei gerst fyrr.
Á fimmtudagskvöldið vorum við með íslenska ýsu í matinn, keypt í Marks & Spencer, gaman að segja frá því.
Ég er einnig búin að fá leyfi hjá Ingibjörgu til að fara til London þegar Brynja og Ásta verða þar, svo stelpur, hlakka til að sjá ykkur! Ingibjörg benti mér á að það gæti verið sniðugra fyrir mig að taka lestina, kanna það...

þriðjudagur, janúar 11, 2005

Það var enginn skóli í gær, hélt ég. Nei raunin er sú að ég hélt að það væri skóli og mætti þessvegna tímanlega með bros á vör. En brosið tók að dofna þegar enginn annar gerði sig líklegan til að mæta, beið nokkuð lengi, bara til öryggis. Á endanum gafst ég upp og kíkti í heimsókn til Soffíu, var boðið á mat og hafði það nú aldeilis gott svo kvöldið fór ekki alveg til spillis. Í dag hringdi ég svo í Anne og komst að því að það var reyndar skóli í gær, en á hinum staðnum vegna þess að það voru fyrirlestrar.
Ég mætti því bara mun hressari í skólann í kvöld og átti anski skemmtilegar stundir. Crispin lét okkur æfa audition partana sem við gerðum fyrir jól með allskonar tilþrifum. Meðal annars átti maður að standa í enda herbergisins og tveir í miðjunni. Svo átti maður að reyna að komast í hinn endann og segja ræðuna á meðan en þessir tveir áttu að reyna að stoppa mann. Það var barist upp á líf og dauða og mikið hlegið. Crispin var ánægður með mína ræðu, hann hafði ekki heyrt hana fyrr. Það var gott fyrir sjálfstraustið þar sem Justin tók henni ekki allt of vel fyrir jól.
Eftir skóla fórum við svo á notalega, ódýra barinn þar sem við erum komin aftur í stúdentahverfið. Keypti ég mér glas af kóki fyrir aðeins 50 krónur íslenskar, þetta kallar maður að gera vel við stúdentana. Ekki gekk heimferðin svo áfallalaust fyrir sig þar sem ungur maður gerði hosur sínar grænar fyrir mér strax á strætóbiðstöðinni. Ég tók seinni strætóinn til að losna við hann en ég var ekki sest þegar drukkinn náungi bauð mér í kaffi. Hann reyndi hvað hann gat alla strætóferðina þó ég ýmist hunsaði hann eða svaraði á íslensku. Á endanum hringdi ég í Evu sem bjargaði mér, hann lét mig í friði meðan ég var í símanum.

Það er búið að vera spáð fárviðri hér síðustu daga. Myndi nú ekki kalla veðrið það, en það er alltaf frekar mikill vindur sem er frekar leiðinlegt og Kjartan verður stundum voða hræddur. "Akkuðu eð þetta noise"? Ég svara því að þetta hafu verið vindurinn. "Ó ég hélt þetta vað scary monster"
Ég og Habbý hlógum líka mikið af Sæmsa í dag. Ég stóð nálægt sófanum sem hann sat í og allt í einu sló hann í afturendann á mér og sagði "Move your bottom" Habbý fannst hann einum of ungur, þriggja ára og byrjaður að slá í rassinn á stelpunum.

Gleði kvöldsins, hún Samara mín var að komast inn í stóran leiklistarskóla. Vonbrigði kvöldsins, Ainsley er hættur í skólanum. Allavega þessa önn því hann fékk vinnu í Glasgow.

mánudagur, janúar 10, 2005

Þetta var ágætis helgi hjá mér. Það var gaman að hitta Evu aftur þó svo að hún sé nú búin að "svíkja" mig. Hún er komin með nýjan vin (aumingja Jonas) sem býr í næsta húsi svo það er spurning hvort hún hafi tíma fyrir mig í framtíðinni. Hafrún og George (fólkið sem hún býr hjá) er að minnsta kosti búið að gera sitt besta til að halda mér frá til þess að leyfa hinni nýju ást að blómstra. Engu að síður var það ég sem gisti hjá Evu á föstudagskvöldið og horfðum við á myndir á breiðtjaldinu góða.
Laugardeginum eyddum við með Soffíu sem er líka komin aftur og fórum við á kaffihús og blöðruðum frá okkur allt vit. Síðan fórum við heim til Soffíu og horfðum á um það bil 50 myndbönd, það var verið að spila bestu lög allra tíma og margt skemmtilegt þar. Við gátum ekki stillt okkur um að syngja með á köflum. Svo fórum við Eva heim og vorum við samferða á strætóstöðina, hún með Johnny Depp í poka, hún keypti nefninlega dagatal með honum. Varð mér strax hugsað til frænku minnar og vinkonu, já Sessý mín, það ert þú:)

Á sunnudeginum rifjaði ég upp hvað það er gott að liggja í rúminu og hreiðraði um mig til eitt. Síðan ætlaði ég með Malenu í bíó klukkan fjögur en það endaði á því að við settumst inn á veitingastað og fengum okkur hvítlauksbrauð og kók. Svo var blaðrað og blaðrað og þótti mér það mjög gaman. Ástin virðist blómstra hér í Edinborg þessa dagana því hún er líka komin með vonbiðil. Í gærkvöldi vorum við með matarboð þar sem vinafólk Ingibjargar og Kristjáns kom og var tilefnið trúlofun þeirra, ( Allt svo vinafólksins) skál.
Síðan er það bara skóli í kvöld. Held að við þurfum ekki að gera neitt nema að hlusta á fyrirlestra. Ég reyndar gerði ekki minn. Ég sagði meira að segja Anne fyrir jól að ég myndi ekki hafa tíma. Það reyndist rétt. Spurning hvort maður ætti ekki að reyna að gera hina heimavinnuna, geisp.

Pirringur helgarinnar var að vera alltaf blaut í fæturnar, á sumsé ekki vatnshelda skó. Gleði helgarinnar var að Mimmi nennti að hlusta á mig blaðra í símann í fleiri tíma, meðal annars um bókina sem ég var að lesa þó að hann væri að fara að sofa. Gleði vikunnar: Ef að Eva drepur mig ekki þegar hún sér þessa færslu...

föstudagur, janúar 07, 2005

Þá er ég komin aftur eftir gott frí á Íslandi. Þar var þemað að borða, held ég hafi ekki náð að verða svöng öll jólin. Ég hef að minnsta kosti ekki lyst á reyktu kjöti á næstunni.
Hvar skal byrja. Jú ferðalagið mitt til Íslands byrjaði með því að ég var með 7 kg í yfirvigt á Edinborgarflugvelli. Góði maðurinn leyfði mér að taka í handfarangur þessi 7 kg og bar ég þau í 2. stórum pokum. Auk þess var ég með 10 kg bakpoka, ekki létt, ég þurfti þó ekki að borga yfirvigt. Lenti svo á Stansted og hitti Tinnu og það var bara eins og við hefðum hist síðast í gær, náðum svo vel saman;) Við vorum þó frekar tæpar að ná vélinni, einhver var með yfirvigt en það reddaðist þó. Ég fékk samt rosalegt stresskast og var lengi að jafna mig en Tinna bara hló að mér. Heilar á höldnu lentum við á Íslandi, það var svo gott að heyra flugfreyjuna segja "góðir farþegar, velkomnir heim." Afi og amma tóku svo á móti mér og skutluðu mér á Reykjavíkurflugvöll, það var engin tími til að stoppa neitt. Þar beið svo Elín með appelsín í gleri og jólapakka. Loksins gat ég svo stigið upp í þriðju vélina þennan daginn, já var á leiðinni í snjóinn á Akureyri og þótti það ekki leiðinlegt. Sat við hliðina á svo ágætri gamalli konu á leiðinni, þessar 45 mín ætluðu samt aldrei að líða. En loksins, loksins lentum við. Á flugvellinum var móttökunefndin, pabbi, mamma, Sindri og Mimmi. Ég fékk næstum hjartaáfall þegar ég sá litla bróður, hann er núna bara 3 cm minni en ég og allur svo breyttur, á aðeins fjórum mánuðum. Hann er samt alltaf sama yndið þessi elska.

Dagarnir liðu við glaum og gleði, aðfangadagur með gjafirnar, var mjög ánægð með það sem ég fékk. Svo var það jóladagur með Hangikjötsboðum hjá ömmu og tengdó. Það var svo mikill snjór að Valur þurfti að ná í okkur á jeppanum, svalur frændi.
Á annan í jólum voru ég og Mimmi með teiti og í það mættu; Hrönn, Sara, Ómar, Reginn, Andri, Emmi, Sóla, Magnús, Brynja, Hildigunnur, Soffía, Ásta og Kalli. Það var mjög skemmtilegt hjá okkur og var hápunkturinn þegar Kalli hrundi niður stiga. Ég var ein af fáum sem var vitni að því svo ég fór og lék það fyrir afganginn af gestunum, Kalli kom svo að mér og fattaði strax hvað var í gangi, hehe. Svo var haldið í Sjallann þar sem Í svörtum fötum léku fyrir dansi.
Ég var töluvert í boðum, mjög gaman að hitta alla, sérstaklega litlu frænkur mínar þrjár, algjörir gullmolar.
Gamlárskvöldi eyddi ég heima hjá Mimma, bara rólegt, sötruðum freyðivín og skutum upp flugeldum.

Gamanið byrjaði svo þegar ég átti að fljúga suður á mánudaginn. Það var ekkert flogið vegna vonskuveðurs og átti ég að fljúga út á þriðjudagsmorgni. Því þurfti ég að breyta fluginu og kostaði það aðeins rúmar 20.000 krónur. Mikil gleði á mínu heimili með það. Ég komst þó á endanum og Kjartan og Ingibjörg náðu í mig á Edinborgarflugvöll klukkan ellefu á miðvikudagskvöldið. Hér er ég á ný og allt gengur sinn vanagang. Er að passa Kjartan og Sæmsa þessa stundina. Í kvöld held ég líklega til Evu og breiðtjaldsins, hún kom með einhverjar góðar myndir frá Íslandi og ég stefni á að gista hjá henni.

Að lokum. Það er ekki seinna vænna en að fara að huga að afmælinu mínu. Ég auglýsi eftir gefanda að ferð til London í febrúar þar sem Brynja og Ásta verða þar. Gæti kostað 40-50 pund, aber ja...