þriðjudagur, janúar 18, 2005

Ég er búin að rembast við það að setja inn comment kerfi. Það gengur ekki nógu vel. Það virðist alltaf koma efst og því ekki hægt að kommenta á nýjustu færsluna (held ég). Ég gefst upp í bili en vonast til að þeir fjölmörgu sem hafa kvartað yfir því að ekki sé hægt að kommenta, muni nýta sér þessa annars ágætu tækni.

Á laugardeginum kom ég ekki miklu í verk sökum þreytu en ég ákvað að fara til Evu og hjálpa henni að passa. Kom við í bænum og hoppaði inn í eina búð, kom út aftur með tvennar buxur og bol fyrir 2000 krónur. Síðan fór ég til Evu og fékk nánast hjartaáfall því á rúminu hennar sat einn af drengjunum frá kvöldinu áður. Þau reyndu bæði að sannfæra mig um að hann væri nýkominn, ég gerði mitt besta til að trúa því;)
Hann kom sér reyndar fljótlega út úr húsinu eftir að ég kom svo Eva hafði einhvern tíma fyrir mig. Var komin heim og sofnuð um 12 leytið, svaf í 12 tíma. Yndislegt.
Sunnudagurinn fór í leti framan að en svo kom ég mér á fætur og fór í bæinn með Soffíu. Við fengum okkur pitsu og fórum svo í bíó. Hún ætlaði með Richard en ég með Malenu og Johönnu, var búin að sjá myndina sem þau ætluðu á. Það reyndist svo uppselt á myndina okkar Finnana svo ég bauð þeim bara heim til mín í staðinn. Kristján og Ingibjörg ætluðu í bíó en þau fóru frekar seint svo stelpunum var boðið í mat. Þær höfðu verið að skemmta sér kvöldið áður, höfðu enga matarlyst en kunnu ekki við að afþakka. Þetta var skemmtilegt kvöld, Eva kom líka og var ákveðið að við myndum allar fara í bíó á miðvikudaginn í staðinn.

Svo var það gærdagurinn með sinni vanalegu rútínu, Kjartan og Sæmsa. Ég gæti stundum andast úr hlátri yfir þeim, þeir eru svo vitlausir. Þannig var mál með vexti að Sæmsi var á klósettinu og Kjartan sturtaði niður fyrir hann. Sæmsi tók því illa þar sem hann vildi gera það sjálfur.
S: Ég ætla ekki að giftast þér lengur Kjartan.
K: (skeifa) Æiiiiiiii. Stuttu seinna, ég skal aldrei gera það aftur Sæmsi. Viltu þá giftast mér?
Ég sem hélt ég hefði verið búin að útskýra fyrir þeim hvernig þetta væri þegar Kjartan sagði um daginn að hann ætlaði að giftast kærastanum mínum. Það virðist hinsvegar ekki hafa skilað árangri. Þeir eru allavega með það á hreinu að þeir ætli ekki að giftast stelpu, því eins og allir vita eru strákar miklu betri. Litlu karlremburnar.

Það var skóli í gærkvöldi. Tvöfaldur movement. Hélt fyrirfram að ég myndi deyja en þetta var ekki svo erfiður tími þar sem Crispin lagði áherslu á meira en líkamlega áreynslu. Í næstu viku verður hinsvegar þrekhringur með Shakespeare, það verður áhugavert.
Annað áhugavert, það byrjaði að snjóa hér í gær. Á götunum er núna örþunnt lag af snjó. Það var ekki talað um annað í fréttunum í morgun og fólkið í skólanum í gær lét eins og það væri óveður. Ég bara hló. Svo sá ég konu í morgun vera að skafa af bílnum sínum. Það gekk þannig fyrir sig að hún setti rúðuþurrkurnar á fullt og spreyjaði einhverju úr brúsa á rúðuna. Það er margt undarlegt hérna í útlandinu...