þriðjudagur, janúar 11, 2005

Það var enginn skóli í gær, hélt ég. Nei raunin er sú að ég hélt að það væri skóli og mætti þessvegna tímanlega með bros á vör. En brosið tók að dofna þegar enginn annar gerði sig líklegan til að mæta, beið nokkuð lengi, bara til öryggis. Á endanum gafst ég upp og kíkti í heimsókn til Soffíu, var boðið á mat og hafði það nú aldeilis gott svo kvöldið fór ekki alveg til spillis. Í dag hringdi ég svo í Anne og komst að því að það var reyndar skóli í gær, en á hinum staðnum vegna þess að það voru fyrirlestrar.
Ég mætti því bara mun hressari í skólann í kvöld og átti anski skemmtilegar stundir. Crispin lét okkur æfa audition partana sem við gerðum fyrir jól með allskonar tilþrifum. Meðal annars átti maður að standa í enda herbergisins og tveir í miðjunni. Svo átti maður að reyna að komast í hinn endann og segja ræðuna á meðan en þessir tveir áttu að reyna að stoppa mann. Það var barist upp á líf og dauða og mikið hlegið. Crispin var ánægður með mína ræðu, hann hafði ekki heyrt hana fyrr. Það var gott fyrir sjálfstraustið þar sem Justin tók henni ekki allt of vel fyrir jól.
Eftir skóla fórum við svo á notalega, ódýra barinn þar sem við erum komin aftur í stúdentahverfið. Keypti ég mér glas af kóki fyrir aðeins 50 krónur íslenskar, þetta kallar maður að gera vel við stúdentana. Ekki gekk heimferðin svo áfallalaust fyrir sig þar sem ungur maður gerði hosur sínar grænar fyrir mér strax á strætóbiðstöðinni. Ég tók seinni strætóinn til að losna við hann en ég var ekki sest þegar drukkinn náungi bauð mér í kaffi. Hann reyndi hvað hann gat alla strætóferðina þó ég ýmist hunsaði hann eða svaraði á íslensku. Á endanum hringdi ég í Evu sem bjargaði mér, hann lét mig í friði meðan ég var í símanum.

Það er búið að vera spáð fárviðri hér síðustu daga. Myndi nú ekki kalla veðrið það, en það er alltaf frekar mikill vindur sem er frekar leiðinlegt og Kjartan verður stundum voða hræddur. "Akkuðu eð þetta noise"? Ég svara því að þetta hafu verið vindurinn. "Ó ég hélt þetta vað scary monster"
Ég og Habbý hlógum líka mikið af Sæmsa í dag. Ég stóð nálægt sófanum sem hann sat í og allt í einu sló hann í afturendann á mér og sagði "Move your bottom" Habbý fannst hann einum of ungur, þriggja ára og byrjaður að slá í rassinn á stelpunum.

Gleði kvöldsins, hún Samara mín var að komast inn í stóran leiklistarskóla. Vonbrigði kvöldsins, Ainsley er hættur í skólanum. Allavega þessa önn því hann fékk vinnu í Glasgow.