mánudagur, janúar 10, 2005

Þetta var ágætis helgi hjá mér. Það var gaman að hitta Evu aftur þó svo að hún sé nú búin að "svíkja" mig. Hún er komin með nýjan vin (aumingja Jonas) sem býr í næsta húsi svo það er spurning hvort hún hafi tíma fyrir mig í framtíðinni. Hafrún og George (fólkið sem hún býr hjá) er að minnsta kosti búið að gera sitt besta til að halda mér frá til þess að leyfa hinni nýju ást að blómstra. Engu að síður var það ég sem gisti hjá Evu á föstudagskvöldið og horfðum við á myndir á breiðtjaldinu góða.
Laugardeginum eyddum við með Soffíu sem er líka komin aftur og fórum við á kaffihús og blöðruðum frá okkur allt vit. Síðan fórum við heim til Soffíu og horfðum á um það bil 50 myndbönd, það var verið að spila bestu lög allra tíma og margt skemmtilegt þar. Við gátum ekki stillt okkur um að syngja með á köflum. Svo fórum við Eva heim og vorum við samferða á strætóstöðina, hún með Johnny Depp í poka, hún keypti nefninlega dagatal með honum. Varð mér strax hugsað til frænku minnar og vinkonu, já Sessý mín, það ert þú:)

Á sunnudeginum rifjaði ég upp hvað það er gott að liggja í rúminu og hreiðraði um mig til eitt. Síðan ætlaði ég með Malenu í bíó klukkan fjögur en það endaði á því að við settumst inn á veitingastað og fengum okkur hvítlauksbrauð og kók. Svo var blaðrað og blaðrað og þótti mér það mjög gaman. Ástin virðist blómstra hér í Edinborg þessa dagana því hún er líka komin með vonbiðil. Í gærkvöldi vorum við með matarboð þar sem vinafólk Ingibjargar og Kristjáns kom og var tilefnið trúlofun þeirra, ( Allt svo vinafólksins) skál.
Síðan er það bara skóli í kvöld. Held að við þurfum ekki að gera neitt nema að hlusta á fyrirlestra. Ég reyndar gerði ekki minn. Ég sagði meira að segja Anne fyrir jól að ég myndi ekki hafa tíma. Það reyndist rétt. Spurning hvort maður ætti ekki að reyna að gera hina heimavinnuna, geisp.

Pirringur helgarinnar var að vera alltaf blaut í fæturnar, á sumsé ekki vatnshelda skó. Gleði helgarinnar var að Mimmi nennti að hlusta á mig blaðra í símann í fleiri tíma, meðal annars um bókina sem ég var að lesa þó að hann væri að fara að sofa. Gleði vikunnar: Ef að Eva drepur mig ekki þegar hún sér þessa færslu...