laugardagur, janúar 15, 2005

Það er komin helgi og aldrei þessu vant eyddi ég ekki föstudagskvöldinu í nammiát og sjónvarpsgláp, heldur fór ég út á lífið í góðra vina hópi. Það var virkilega skemmtilegt að komast út og fórum við íslensku fljóðin á Vodka bar, að ég held, ég hef ekki haft fyrir því að leggja á minnið nöfnin á skemmtistöðunum. Þar hittum við Richard og heilan helling af vinum hans. Þeir voru að sjálfsögðu spenntir fyrir þessu fagra kvenfólki og fylgdu okkur allt kvöldið. Ég komst að því að skoskir strákar eru ekki svo mikið skárri en þeir íslensku. Einn þeirra tók sér það bessaleyfi að strjúka yfir hárið á mér með mikilli aðdáun og vakti það ekki mikla lukku.
Eitthvað græddum við þó á þessum strákafans þar sem þeir voru duglegir að borga drykkina. Ég eyddi ekki nema 4, 5 pundum og þá keypti ég drykki fyrir mig, Richard, Evu og Soffíu, veifaði stúdentakortinu góða og fékk þennan líka afslátt. Við þræddum nokkra staði, dönsuðum og skemmtum okkur hið besta þar til veskinu hennar Evu var stolið, það er ekki gaman að lenda í því en sem betur fer var Eva með bæði símann og myndavélina í vasanum. Við fórum svo út og ætluðum í partý heima hjá Richard. Stelpurnar komu svo ekkert þar sem þær fundu einhverja Íra og Ástrala, ég beið eftir þeim heima hjá Richard og horfði á MTV og spjallaði aðeins við hann. Fínn náungi og sem betur fer ber virðingu fyrir því að ég sé lofuð, engin reynaviðsla í gangi. Þegar var orðið útséð um að stelpurnar kæmi pantaði ég mér leigubíl og hélt heim á leið. Þangað var ég svo komin um 6 í morgun og vaknaði svo níu við alveg eiturhressan Kjartan. Gat því miður ekki sofnað aftur þó þau færu út. Svo komu þau heim með fiðrildahárskraut handa mér, því Kjartan hafði sagt mömmu sinni að mig langaði í svoleiðis:)

Þessi vika var líka alveg ágæt. Ég var mikið með Sæmsa og Kjartan og gekk það svona upp og ofan. En þeir komu mér á óvart þegar þeir fóru að keppast um hvor gæti verið betri við mig. Ansi skemmtilegt verð ég að segja og sama kvöld kláruðu Helga og Sæmsi bæði matinn sinn sem hefur aldrei gerst fyrr.
Á fimmtudagskvöldið vorum við með íslenska ýsu í matinn, keypt í Marks & Spencer, gaman að segja frá því.
Ég er einnig búin að fá leyfi hjá Ingibjörgu til að fara til London þegar Brynja og Ásta verða þar, svo stelpur, hlakka til að sjá ykkur! Ingibjörg benti mér á að það gæti verið sniðugra fyrir mig að taka lestina, kanna það...