mánudagur, janúar 31, 2005

Það er vor í lofti í Edinborg, enda janúar að renna sitt skeið og hinn merki mánuður febrúar að ganga í garð. Lífið gengur sinn vanagang eftir að Styrmir fór, (í gær) ég fer í skólann í kvöld og verður það örugglega ekki leiðinlegt. Ég og Dana erum að fara að vinna að samlestri sem á að flytja eftir 3-4 vikur svo það er nóg að gera. Á miðvikudaginn hef ég þegar planað að hitta Malenu, aldrei að vita nema fleiri sláist í hópinn. Á föstudagskvöldið verður partý hjá Richard sem byrjar með Haggis boði fyrir útvalda. Ég ætla hinsvegar ekki fyrir mitt litla líf að fá mér, þeir sem mig þekkja vita hvað mér finnst um slátur!

Í liðinni viku hef ég afrekað markt skemmtilegt. Meðal annars fórum við Styrmir þrisvar í bíó, þar af einu sinni í Gold class, karlinn lét okkur samt óvart borga sama verð og fyrir venjulega miða;) Einnig fórum við að borða á uppáhalds veitingastaðinn okkar með "son" okkar. Fólk virtist halda að Kjartan væri okkar barn og fannst við voða sæt fjölskylda. Styrmir var að vísu 14 ára þegar Kjartan fæddist en það er annað mál. Við fórum ekkert á djammið en kíktum á pöbb á föstudagskvöldinu og svo kom Eva til okkar á laugardagskvöldið vopnuð bjór. Höfðum það aldeilis ágætt og náðu Styrmir og Eva vel saman, að minnsta kosti virðist hún ákaflega hnuggin á bloggsíðunni sinni yfir að hann sé farinn.
Ástæðan fyrir því að lítið var farið út á lífið, eða út yfirleitt að skoða, var sú að ég var lasin. Var langt frá því að vera upp á mitt besta fyrstu tvo dagana og sá Styrmir alfarið um Kjartan á milli þess sem hann hjúkraði mér. Ég stóð mig þó eins og hetja í barnaafmælinu á sunnudaginn, enda stórvön að sjá um barnaafmæli en lagðist í rúmið þegar gestirnir voru farnir. Ég lagaðist þó seinni part vikunnar svo lesendur geta þerrað þau tár sem ég efast ekki um að hafi verið komin fram vegna samúðar með mér.
Ég fór með Styrmi alla leið á flugvöllinn í gær, svolítið sniðugt þarna í Glasgow gat verið með honum alveg þangað til hann fór inn í vél, honum leiddist þá ekki á flugvellinum.

Kjartan greyið hefur alls ekki jafnað sig eftir að Styrmir fór, hann er alveg miður sín. Honum finnst að Styrmir eigi alltaf að vera hjá okkur og fór neðri vörin að titra þegar honum var tjáð að svo væri ekki. Þegar við lokuðum útidyrahurðinni henti Kjartan sér upp í rúm og andvarpaði af sorg. Svo kom Kristján að honum seinna um daginn umkringdum 4. bananahýðum. Ég hefði reyndar frekar lagst í súkkulaðið en Kjartan fór aðeins heilsusamlegri leið til að sefa sorg sína. Svo í morgun kom hann inn í herbergið mitt og spurði hvar Styrmir væri. Ég sagði honum að hann væri farinn, Kjartan ætti að vita það. Þá andvarpaði sá stutti og sagðist hafa vonað að þetta væri bara hræðilegur draumur. Eins og til að sannfæra sig fór hann að leita í sænginni, hvort Styrmir væri ekki að fela sig, þegar hann hafði leitað af sér allan grun lagðist hann hjá mér og tjáði mér að hann langaði til að gráta. Ég reyndi að hugga hann með því að Styrmir kæmi aftur en nei, Kjartan vildi sko að hann kæmi núna. Er uppiskroppa með hugmyndir til að hughreysta hann. Hinsvegar var Soffía mín svo góð að hugsa um mig í gær, gaf mér að borða, pitsu og kók og svo horfðum við á DVD og American Idol. Takk Soffía.

Ég er búin að fá afmælisgjöf frá mömmu og pabba sem eru lestarmiðar til London. Þetta er frábær gjöf, takk so mikket. Hlakka svo til, Ásta er búin að panta hótel, svo verður farið á söngleik og ég veit ekki hvað og hvað....