Fyrsti í afmæli er búinn. Fórum með allar gasblöðrurnar á leikskólann í gær, það var skrautlegt. Ekki má gleyma Spidermankökunni en Kjartan kom með afganginn af henni heim. Þvílíkan viðbjóð hef ég bara ekki smakkað, dísætt með væminni, blárri sykurhúð. En Sæmsa Palla fannst hún góð og heimtaði að það yrði geymd sneið handa honum. Ekki ætla ég að borða þetta, það er víst. Svo verður haldið upp á afmælið á sunnudaginn, þá fyllist húsið af æpandi krökkum, reyndar koma Eva og Soffía líka, spurning hvort þær séu í þeim hópi.
Stefnan er tekin í bíó í kvöld, á myndina Closer. Samferðakonur mínar verða; Malena, Johanna og Eva, svo mun ég halda heim til Evu og gista þar í nótt, það er að segja ef svo ólíklega vill til að enginn karlamaður verði í heimsókn;) Nei Eva mín, ég hætti ekki.
Gerði svolítið gáfulegt á miðvikudaginn. Þannig er mál með vexti að Kjartan á nokkrar skyrtur. Ég taldi því upplagt að klæða hann í eina þeirra, fann þessa líka fínu bláköflóttu skyrtu. Kjartan var líka ánægður með sig, fannst hann voða smart eins og hann orðaði það. Svo leið dagurinn og varð að kvöldi, Ingibjörg og Kristján komu heim og við fórum að borða. Allt í einu horfði Ingibjörg undarlega á mig og spurði hvort Kjartan hafi verið í þessari skyrtu í allan dag. Ég játti undrandi og spurði hvort það væri ekki í lagi. Þá sprakk hún úr hlátri, þetta var sumsé náttskyrta. Ég varð eins og auli en ákvað bara að hlæja með, Kjartani greyinu fannst þetta ekki eins fyndið.
<< Home