Ég vil þakka kærlega fyrir allar þær hamingjuóskir sem ég fékk á afmælisadaginn. Ég veit fyrir víst að ég er ekki gleymd þó ég sé langt frá heimahögunum. Nokkrir gerðust svo góðir að minnast á mig í bloggfærslum föstudagsins og veitti Addi mér þann heiður að blogga einungis til heiðurs mér þann dag. Svo stoppaði síminn ekki, sms og hringingar auk allra kommentana á síðunni minni, takk allir:)
Dagurinn sjálfur var rólegur til að byrja með. Kjartan mundi að sjálfsögðu eftir deginum og gaf mér frábært afmæliskort sem hann hafði teiknað á sól og svo mig og Styrmi. Á leikskólanum reif Sæmsi mig út jakkanum til að sjá nýja bolinn sem ég fékk í afmælisgjöf, það var nefninlega prinsessubolur að hans mati. Hsbbý var svo með Kjartan allan daginn svo afmælisbarnið var bara í fríi eftir hádegi sem var ósköp ljúft. Um sexleytið kom Eva til mín, nýkomin frá Íslandinu og gaf hún mér stóran poka af lakkrís og appelsín, mikið var ég glöð. Eftir að við stöllur höfðum liðað á mér hárið og drukkið örlítið öl mér til heiðurs var kominn tími til að fara út að borða. Malena, Johanna og Soffía komu með og Malena og Johanna gáfu mér belgískt súkkulaði. Ég fékk mér pitsu og fékk afmæliskerti á hana, stungið ofan í ólívu, tók mynd af herlegheitunum en á því miður ekki tölvu til að setja myndirnar inn í. Eftir matinn var komin tími til að fara á Three Sisters og þar hittum við fyrir Richard og Linu (sem er fyrrum au pair og er í heimsókn hér) Richard gaf mér afmæliskort svo ég hafði nóg til að halda á en þótti það bara gaman. Ætlaði að hitta Chris úr skólanum mínum, frétti daginn eftir að hann kom á Three Sisters en fann mig ekki, það er því miður ekkert símasamband þar inni. Þegar Systurnar lokuðu klukkan 1. var stefnan tekin á Subway sem er ekki matssölustaður. Þar dönsuðum við meira og ég fékk einhverjar blikkandi rósir sökum þess að ég átti afmæli. Einnig ókeypis á barinn, þetta var því hið besta mál. Á endanum lokaði Subway líka og við fórum öll heim til Richards þar sem beið mín afmæliskaka, það var sko ekki slæmt að fá afmælisköku þarna undir morgun. Svo var bara komin tími fyrir afmælisbarnið með blikkandi blóm, súkkulaði og afmæliskort að koma sér heim.
Það tekur á að vera orðin gömul og var ég töluvert þreytt á laugardaginn. Reif mig á lappir og fór til Evu og Soffíu og lagðist þar í leti. Svo var komið að því að fara á íslenskt þorrablót og við Ingibjörg mættum hressar á svæðið. Mikið var gott að fá þennan íslenska mat, hangikjötið og harðfiskurinn rann ljúflega niður við íslenskt spjall. Nokkur atriði voru í boði svo sem óperusöngur og minni karla og kvenna. Minni kvenna var allt í lagi, ekkert meistarastykki en minni karla mjög lélegt þá aðallega vegna þess að flytjandinn var ómögulegur í framsögn. Að áti loknu var komið að fjöldasöng og þótti mér ekki leiðinlegt að gaula Danska lagið, Draum um Nínu og fleira. Eftir sönginn fagra fórum við gellurnar að dansa, ég, Eva, Soffía, Ingibjörg og Habbý við tónlist, Bubba, Stuðmanna og Pálma Gunnarssonar. Ég varð fyrir því óláni að lenda í fulla leiðinlega gaurnum á svæðinu. Sá ber nafnið Snorri og er mátulegt á hann að ég nafngreini hann. Hann var öllum til ama og endaði á því að traðka á hásinininni á mér. Nístandi sársauki fór um mig alla.
Auður: "Djöfuls andskotans helvítis, fjandinn hafi það." (öskrar í áttina að Snorra)
Snorri: (Þvoglumæltur og aulalegur) "Sorrý maður, heyrðu ég verð bara að dansa við þig, þú veist, bæta þér þetta upp."
Auður: (Við það að missa vitið af sársauka) Djöfuls aumingi, fjandans ógeð, dansa ekki við rudda." (Var að ná örlitlu af virðuleikanum aftur og haltraði til sætis.) Fór svo heim stuttu seinna með þeim Habbý og Ingibjörgu og vaknaði í morgun með bólgna hásin og finn ennþá til. Ef Snorri þessi verður einhvertíman fyrir því óláni að verða á vegi mínum aftur, þá ætla ég að stilla mér upp og sparka hnitmiðað og ákveðið beint í hásinina á honum af öllum krafti sem reið Auður býr yfir. Að því búnu ætla ég að hlæja lágt en illkvittið. Jæja nóg af ljúfum dagdraumum í bili, nú skal æfa monaloga og samlestra ef gera á vel í skólanum á morgun. Svo er ég að fara að passa hann Kjartan, þau eru á fullu að vinna í nýja húsinu sem við flytjum í eftir 10 daga.