mánudagur, febrúar 21, 2005

Ég skreið inn um dyrnar heima hjá mér um ellefu í gærkvöldi eftir alveg hreint magnaða Londonferð. Tvær 5 tíma lestarferðir voru alveg þess virði til að hitta stelpurnar frábæru. Ekki spillti sú staðreynd að ég skemmti mér svo vel bæði á miðvikudags og fimmtudagskvöld að mér fannst þetta eins og 4. daga helgi.

Ég og Malena eyddum miðvikudagskvöldinu á hinum víðfræga Loyds bar. Þar var líka þessi ágæti barþjónn að vinna. Sá blikkaði mig í sífellu og heimtaði að ég fengi mér tvöfaldan drykk í staðinn fyrir einfaldan. Svo lét hann mig borga fyrir einfaldan og bjórinn fékk ég nánast ókeypis. Hef ekki hugmynd um hvað var í gangi en Malena var á því að senda mig alltaf á barinn. Ég mátti ekki heyra á það minnst enda ekki ýkja hrifin af fleðurlátunum.
Kvöldið eftir var svo komin tími til að fara í leikhúsið og var Soffía fylgdarmaður minn. Það var alveg ótrúlega gaman þó svo að Jesús hafi sungið alltof hátt uppi. Soffía var reyndar fyrir vonbrigðum þar sem Júdas var veikur en sá er leikinn af síðustu júróvísjónstjörnu þeirra Breta. Það kom þó ekki að sök þar sem þessi Júdas var geislandi af leikgleði og krafti eins og reyndar allir leikararnir og ég var brosandi hringinn þegar ég kom út. Við Soffía fylgdum svo krökkunum úr skólanum á barinn. Ætluðum að vera í hálftíma en enduðum á að vera í tvo tíma spjallandi við Chris og Mel. Það var svo afskaplega gaman hjá okkur, ég fór meðal annars að slá um mig á þýsku og frönsku við Mel sem kann óvart bæði tungumálin betur en ég. Já Soffía mín, takk fyrir skemmtilegt kvöld.

Þá var komið að því. London var það heillirnar mínar og upp í lestina steig ég og drap tímann með því að æfa monaloginn minn sem ég á að flytja í þessari viku. Fólkið í lestinni horfði svolítið undarlega á mig en það er allt í lagi, leikarar eru skrítið fólk. Þegar ég kom tóku stelpurnar á móti mér með faðmlögum og truntuskap. Truntuskapur og ljótt orðbragð ásamt skítugu hári var einmitt þema ferðarinnar;) Við fórum út að borða strax og ég kom á Garfunkels sem ég mælti með. Ég var líka ansi ánægð með mig að þekkja til og sló um mig með fróðleik svo stelpunum þótti nóg um. Við tókum þetta kvöld bara rólega, Ásta greyið var eitthvað slöpp en við hinar blöðruðum langt fram á nótt.
Laugardagurinn fór svo í smá menningarlegaheit. Skoðuðum borgina og höllina og svona í kuldanum. Svo var eftir mikla leit og vesen haldið í Tesco og keypt svolitla mjólk. Loksins komumst við svo á McDonalds sem bar nafnið M í þessari ferð. Það var þvílík sæla að ég hef sjaldan vitað annað eins. Að því loknu var haldið á hótelið með mjólkina og við tókum okkur til á djammið. Engin af okkur fór í sturtu því sturturnar voru svo ógeðslegar. Svo var drukkið og spjallað og tekið fullt af asnalegum myndum. Við vorum komnar út klukkan 10 sem er þessi fíni tími í Bretlandi. Fórum að leita að ákjósanlegum stað til að skemmta okkur á og viti menn. Allt í einu rákumst karl nokkurn sem var með lista yfir ákjósanlega staði. Ég rak strax augun í eitt nafn, Zoo bar. Já þökk sé Tinnu og skemmtilegum lýsingum hennar á þessum bar þá ákváðum við að þetta væri málið. Og takk so mikket Tinna mín. Þetta var svo ólýsanlega gaman að það er ekki venjulegt. Tónlistin var frábær og við dönsuðum stanslaust í fjóra tíma. Svo var rosaleg þjónusta á klósettunum. Þarna var kona sem sá um að sprauta sápu á hendurnar manns og rétta manni bréfþurrkur og ég veit ekki hvað. Svo var hægt að sprauta á sig ilmvatni eða hárfroðu eða varalit og ég veit ekki hvað fyrir 50 pens. Þetta var svo gaman, Soffía okkar ákvað að ganga rollu í móðurstað í framtíðinni, sú ber nafnið Surtla. Það var Burger King á leiðinni heim og svo var sofið í þá fáu tíma sem eftir voru þar til við þurftum að tékka okkur út.
Já það var svolítið þreyta í okkur á sunnudeginum. Okkar fyrsta verk var auðvitað að fara á M-ið og var það ansi ljúft. Við vorum allar voðalega sætar þennan dag, Soffía með hárband til að það sæist minna hvað hárið á henni var skítugt, við hinar hefðum þurft eitthvað svipað. Við eyddum dágóðum tíma í bókabúð og HMV og enduðum á að setjast niður og fá okkur kók. Allan daginn sagði einhver af okkur "Oh, það var svo gaman í gær." og hinar tóku undir. Að lokum var komið að kveðjustund og voru stelpurnar svo elskulegar að fylgja mér á Kings cross. Ég var með djúpupokann minn í nesti, frábær afmælisgjöf frá stelpunum og þær hjálpuðu mér ekkert svo mikið að borða hann;) Þetta var bara frábær ferð og vil ég þakka stelpunum fyrir allt. Ástu fyrir að finnast allt sem ég sagði fyndið, Brynju fyrir að nenna að blaðra við mig endalaust og Soffíu fyrir að vera besti M vinur í heimi. Takk fyrir mig.

Beygla vikunnar er Eva, aftur, þar sem hún fékk óvart flensu og þurfti að vera viku lengur á Íslandi. Svo er það skóli í kvöld, best að koma sér í gírinn.