miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Að vera leikari er góð skemmtun.. en það er líka það erfiðasta í heimi. Vorum öll hjá Justin í gær og hann fræddi okkur um ferlið frá byrjun, þvílíkt og annað eins. Maður byrjar á því að reyna að komast inn í skóla, þeir eru út um allt Bretland og verður maður vitanlega að punga út fyrir ferðakostnaðinum. Auk þess þarf maður að borga fyrir að fá að fara í prufu á hverjum stað. Að sjálfsögðu er ólíklegt að maður komist inn fyrsta árið svo ég tali nú ekki um ef maður er kona. Það vill svo skemmtilega til að þeirt taki inn færi konur en karlmenn. Ástæðan er sú að það eru miklu færri hlutverk fyrir konur, ætla ekki að fara nánar út í það þar sem það kemur mér bara í uppnám. Einnig getur verið að þeim finnist þú fullkomin en eru þegar komnir með þína týpu.
Ef maður er svo heppin að komast inn í skóla kannski á öðru eða þriðja ári taka við þrjú skemmtileg og erfið ár. Einnig er mjög dýrt að stunda nám við slíka skóla. Þegar maður útskrifast byrjar vinnan, skrifa og hringja í umboðsmenn og leikstjóra og bjóða þeim að koma og sjá mann, ef maður er heppin koma nokkrir. Svo er að ná sér í umboðsmann sem er mjög mikilvægt og hann reynir svo að úvega manni störf. En það þýðir ekki að treysta alfarið á umboðsmanninn. Það þarf stanslaust að vera hringja og skrifa og senda inn CV, sækja um hlutverk, bjóða fólki að koma og sjá sig. Neitanir eru mjög algengar, raunar svo algengar að flestir leikarar eiga nóg af þeim til að veggfóðra hús með.
Þó svo að leikari sem er að byrja eigi ekki krónu verður hann að standa í miklum fjárútlátum. T.d að skrá sig hjá fyrirtæki sem getur sagt honumallt um umboðsmenn svo leikarinn verði ekki prettaður. Það kostar vitanlega, einnig að borga öðru fyrirtæki sem gefur réttindi ef leikarinn verður fyrir meiðslum á tökustað. Annars er hann réttlaus og missir hlutverkið. Svo er það þriðja fyrirtækið sem sendir lista með nöfnum þeirra sem eru að fara að gera auglýsingar, myndir og fleira og fleira. Þetta kostar allt sitt en margborgar sig að sögn Justins. Vitanlega þarf leikarinn að fara í myndatöku til ljósmyndara til að láta fylgja með CV-inu sýnu og það er enginn smáaur sem fer í það.
Justin sagði að leikari sem segðist ekki leika í auglýsingum eða sápuóperum væri annaðhvort ótrúlega heimskur eða afskaplega frægur. Peningarnir liggja á þeim markaði. Fyrir eina auglýsingu getur leikari fengið nóg af peningum til að lifa af í rúmt ár. Sápur eru mjög vel borgaðar og regluleg vinna. Umboðsmenn og leikstjórar fá áhuga á þeim leikurum sem komast í sjónvarp því þar liggja peningarnir. Þar fór hugsjón mín, ég er sumsé ótrúlega heimsk því mér finnst það ekki hið minnsta virðingarvert að leika í auglýsingum og lélegum sápum.
Að fá verkefni er hægara sagt en gert, því er best að læra að dansa, syngja, spila á hljóðfæri, sitja hest, hvað sem manni dettur í hug til að auka líkur á að fá vinnu. Því staðreyndin er að eftir eitt ár eru 60% útskriftarnema búnir að gefast upp og farnir að gera eitthvað annað. Að þremur árum liðnum eru það 80%.
Leikhús gefa aldrei mikla peninga en eins og Crispin segir "Þetta snýst ekki um peningana heldur áhugann og innblásturinn. Líf leikarans er að ferðast um, flytja nokkrum sinnum á ári, sofa á gólfinu, allt fyrir listina."
Mig langar til að verða leikari:)

Ætli ég endi ekki á að þakka fyrir þær hamingjuóskir sem mér bárust í gær í tilefni þess að við Styrmir erum búin að vera trúlofuð í eitt ár:) Chris var svo elskulegur að bjóða mér á pöbbinn í gærkvöldi til að fagna, skál!