Skólinn minn er uppspretta eintómrar gleði. Í gærkvöldi áttum við þennan líka frábæra movement tíma með Crispin. Engar magaæfingar núna, nei. Hann byrjaði á að kenna okkur lag sem var ansi hreint ágætt og við sungum eins og englar. Svo áttum við öll að standa í hring og einn átti að byrja að búa til takt, hvernig sem hann vildi og hinir áttu að fylgja með. Allir máttu gera það sem þeir vildu, klappa, stappa, dansa, syngja, æpa og ég veit ekki hvað og hvað. Og maður þurfti ekki alltaf að vera að gera það sama. Þetta var svo gaman, allir slepptu sér og því vorum við hópur af hoppandi, klappandi og gólandi vitleysingum í um hálftíma. Crispin tímdi bara ekki að stoppa okkur.
Eftir þetta áttu allir að standa í hring og svo einn að fara í miðjuna, allir aðrir áttu að hvísla hrósyrðum af þeim sem var í miðjunni. Ég verð nú að segja að ég bara roðnaði svo mikið var hrósið en þetta var ekki slæmt fyrir sjálfsálitið;) Því miður var einn sem misnotaði þetta, að mínu mati, en það verður ekki farið nánar út í það hér.
Í dag áttum við svo að leika þær perónur sem við erum búin að fylgjast með undanfarinn mánuð. Þurftum fyrst að leika í 10 mín og sitja svo fyrir svörum í 20 mín, í karakter auðvitað. Minn karakter er kona sem selur pylsur á Pr.street. Hún virkar alltaf glaðleg og veitir góða þjónustu. Afganginn þurfti ég að skálda og ímyndunaraflið tók völdin. Ég ákvað að ég væri frá Manchester, missti foreldra mína 10 ára en átti eina systur. Ég hafði ekki efni á Háskóla en málaði svolítið, hafði hæfileika í þá átt. Var hrædd við að tengjast fólki en gifti mig samt 27 ára. Hann hélt auðvitað framhjá svo við skildum þegar ég var 31. Þá flutti ég til Edinborgar (systir mín býr þar sko) og hóf að selja pylsur. Er hætt að mála því eiginmaðurinn fyrrverandi dró úr mér kjark og þori ekki að eignast vini hvað þá karlkyns af ótta við að verða særð. Ég bjó þetta svona nokkurnveginn til á staðnum. Lést vera hress og ánægð og sjálfstæð en lét samt einmannaleikann skína í gegn. Crispin var alveg heillaður, hann var svo ánægður með mig, það var fínt, helling af hrósi tvo daga í röð:)
Á morgun ætlum við Eva með Kjartan í tækin í Pr. street Gardens. Hann verður eflaust glaður. Verð líka að segja frá því að við fórum yfir til Sæmsa Palla í dag og þeir voru virkilega góðir. Undur og stórmerki en þeir eiga hrós skilið fyrir það. Sæmsi getur samt ómögulega skilið að ég sé ekki mamma hans Kjartans. Hann kynnir mig alltaf sem Auður, Kjartans mamma.
Verð að ljúka þessu á kommenti sem ég fékk um daginn sem á eftir að gleðja foreldra mína og ömmu Auði. Ég hafði draslað aðeins til í herberginu mínu á sunnudegi. Var orðin svo þreytt á þessari röð og reglu og ópersónulegheitum. Svo labbaði ég fram og Ingibjörg sá inn og varð undrandi þar sem herbergið er alltaf eins og enginn búi þar. Þá sagði ég að mér fyndist pínu drasl bara heimilislegt. Habbý kom svo yfir og fékk að heyra þessa sögu. Hún varð hissa, sagði að hún hefði haldið að ég væri týpan sem þyrfti alltaf að hafa allt í röð og reglu. Ég kæmi svo vel fyrir, sniðugt!