þriðjudagur, febrúar 25, 2003

Í dag er mikill merkisdagur. Reyndar fannst mér þetta allra merkilegasti dagur ársins þegar ég var lítil, afmælisdagurinn minn. Ég bjóst alltaf við að fólk gæti séð að ég ætti afmæli þegar það liti á mig, svo augljóst var það. Enn þann dag í dag finnst mér þetta merkilegur dagur og núna á ég stórafmæli. Þó er ég búin að fá leið á bröndurum um elli, hrukkur og annað því um líkt sem er búið að rigna yfir mig.
Aðal stuðið var samt um helgina. Það var alveg afskaplega gaman. Fyrst hittumst við stúlkurnar hérna heima og borðuðum þennan fína mat sem afmælisbörnin elduðu. Svo var haldið niður á Amour og þar var mekeð stöð með skemmtilegu fólki, þar var dansað, sungið og farið í leiki. Haukur tók svo myndir af öllu saman, kannski set ég eitthvað af þeim hér síðar. Stelpurnar gáfu óvænta gjöf sem ég ætlaði mér að sleppa að skrifa um sökum tíðra heimsókna ættingja á þessa ágætu síðu. En þá er Hrönn þessi elska búin að kjafta frá í gestabókina svo ég legg til að amma lesi ekki næstu línur. Stúlkurnar höfðu sumsé leigt strippara. Sá ágæti drengur var með mér í grunnskóla og er ekki hærri en svo að hann náði mér og Ingu upp að höku. Sem betur fer fletti drengurinn sig ekki öllum klæðum en við grétum úr hlátri við aðfarir hans við að klæða sig úr fötunum. Æææææ!

Daginn eftir hélt ég svo upp á afmælið fyrir ættingja og var ég búin að sofa í um það bil fjóra tíma. Ég var svo þreytt að ég sofnaði næstum en það var allt í lagi því foreldrar mínir sáu alfarið um þessa veislu.
Ég er búin að fá fullt af gjöfum, sjónvarp, DVD spilara, peninga, skartgripi, blóm og bara alsskonar, það er svoo gaman að eiga afmæli.
Í kvöld ætlum við svo út að borða og í bíó:)
P.S. Allir á leikinn annað kvöld. Áfram Þór!

föstudagur, febrúar 21, 2003

Ég er í eyðu. Svo virðist sem stjórnendum þessa skóla hafi verið algjörlega ómögulegt að búa til heilsteyptar stundatöflur þetta árið. Algjörlega óskiljanlegt. Annars var ég í stjórnmálafræði og viti menn það var bara ekkert svo hræðilegt. Auðvitað var leiðinlegt að reyna að finna staðreyndir um hagnað Kárahnjúkavirkjunnar sem Landsvirkjun hefur spunnið upp en samstarfið gekk bara vel í dag. Enda er ég einkar þolinmóð manneskja með ljúfa lund.

Í gær fórum við gellerne svo með Ingu til að sjá hana gangast undir manndómsvígslu sína og einnig til að njóta góðs af aldri hennar. Ég og Inga reyndar stilltum okkar innkaupum í hóf sökum aldurs og þroska en hið sama er ekki að segja um Hildí , Soffíu og Brynju. Vegna þeirra var Inga með fulla körfu og miðaldra maður góndi á hana og sagði svo skelfingu lostinn "Ætlið þið að drekka þetta allt svona ungar." Við svöruðum einhverju gáfulegu og afgreiðslukonan tjáði okkur að þetta hefði verið öðruvísi á hennar yngri árum. "Þá var ekkert nema vodka, seisei já."
Eftir þessa ágætu ferð fór ég í vinnuna og mér til undrunar fékk ég engin undarleg augnaráð né var ég tekin eintali. Það fór meira segja svo að ég fékk að fara fyrr heim sem ekki hefur gerst mánuðum saman. Þvílík sæla. Það skemmdi ekki einusinn gleði mína að ég fékk einn perraviðskiptavin, sílspikaðan á fertugsaldri sem brosti smjaðursllega og starði á mig allan tíman meðan ég afgreiddi hann í eins miklum flýti og ég gat. Spurning hvort maður sé orðin parónojd.
Gærkvöldið endaði svo á Amour þar sem til umræðu var afmæli okkar Ingu svona til tilbreytingar. Kalli var eitthvað að velta fyrir hvað hann ætti að spila en þó gat hann lítið spjallað þar sem vinur okkar Kaninn með hattinn var mættur. Við höfum nú komist að því að maðurinn er rithöfundur sem býr á einhverju gistiheimili hér í bæ og er fastagestur á Amour. Eitthvað virðist maðurinn spenntur fyrir Kalla en Hildigunnur vill trúa að þetta sé einmanna sál í leit að vini.
Best að koma sér heim að eta víst maður er fastur í þessum eyðum. Urrr.

fimmtudagur, febrúar 20, 2003

Í dag ákvað ég að skrópa í stjórnmálafræði. Ég vaknaði og þá var rödd í höfði mér sem hvatti mig til að láta tímann framhjá mér fara. Maður skyldi halda að ástæðan væri leti en nei, ó nei. Ástæðan var sú að ég taldi mér ekki fært að mæta vegna þess að skoðanir eru skiptar í hópnum sem mér var plantað í. Aðallega á ég í miklum samstarförðuleikum við ónefndan bekkjarfélaga sem lét hinar ýmsustu setningar frá sér fara í síðasta tíma. Dæmi: "Já en eru Sjálfstæðismenn ekki gáfaðri en aðrir. Ég meina því þeir eiga meiri pening. Þú veist ég held að Kárahnjúkavirkjun sé málið víst að Sjálfstæðisflokkurinn segir það." Ég hélt ég myndi algerlega missa stjórn á skapi mínu en svona er þjóðfélagið í dag allir hugsa um sjálfan sig og þar verður ekki breyting á meðan fólk eins og þessi ónefndi bekkjarfélagi eru tiil staðar.
Ég mætti því í frönsku í morgun í algjörlega tilgangslausan tíma eins og svo oft áður. Ég gerðist svo kræf að fá leyfi til að sleppa næsta frönskutíma til að fara í fjölmiðlafræði. Þvílík sæla. Það hefði samt einnig verið gaman að sjá svipinn á monsieur fransklærer þegar hann sá að ég var stungin af en ég fæ þó þá ánægju að skýra honum frá því að ég sé með leyfilega fjarvist í 2x tíma á viku hjá honum.

Í dag fer ég svo að vinna. Ég hef beðið spennt eftir uppsagnarbréfi eftir síðustu skrif mín af vinnunni en það hefur ekki komið ennþá. Kannski kunna þau ekki við að reka mig nema í eigin persónu.
Í gær bökuðum við Inga handa bekkjarfélögunum og ætlum við að koma með köku handa þeim eftir hádegi. Við ætluðum að gera það í ensku en okkur til skelfingar er Hrefna veik og því er ég í þriggja klukkutíma eyðu. Annars erum við Ger að leggja lokahöndina á afmælisundirbúninginn og ekki laust við að það sé farið að gæta spennings hjá veislugestum sem og veisluhöldurum.

þriðjudagur, febrúar 18, 2003

Hún Inga mín á afmæli í dag. Viku á undan mér fyrir tuttugu árum ákvað hún að koma í heiminn okkur hinum til gæfu. Tuttugu ár er samt afar hár aldur og ekki nema vika þangað til ég hætti að vera nítján ára táningur og verð komin á þrítugsaldurinn, farin að skoða hrukkukrem með Ingu.
Við stúlkur höfum þó gert allt sem í okkar valdi stendur til að gera Ingu daginn sem ánægjulegastan og beina huga hennar frá aldri sínum. Ég held að hún hafi bara verið mjög ánægð með gjöfina frá mér:) svo fer Brynja með hana til spámiðils á eftir sem hefur verið draumur lengi. Á meðan munum við Hildigunnur leggja síðustu hönd á afmæliskökuna og kaupa blöðrur og nammi. Svo verður bara partý í Álfabyggðinni og vona ég að hávaðinn verði nægur til að trufla háttvirtan menntamálaráðherra sem býr eimitt í næsta húsi við Hildí og Soffíu.

Það er svo á laugardagskvöldið sem Ger og ég ætlum að halda upp á afmælið okkar á Amour og erum við búnar að bjóða fjölda manns. Þar á meðal bekknum eins og hann leggur sig. Þetta verður alveg stórskemmtilegt held ég og von að maður fái einhverjar gjafir.(Ég var að hugsa um að hleypa engum inn sem væri án gjafa en tillagan var felld) Annars veit ég aldrei hverju ég á að svara þegar fólk er að spyrja mig hvað mig langar í. "Bara eitthvað." segi ég hugmyndasnautt. Þannig að Hildigunnur mín.. Þú verður bara að finna upp á einhverju sjálf;)

Hildigunnur ætlar einmitt að vera svo elskuleg að hjálpa mér að troða linkum og gestabók inn á þessa bloggsíðu og jafnvel breyta útliti hennar í leiðinni. Hún aumkar sig yfir mig og ætlar að sýna mér inn í undraheim tækninnar. Kannski meira segja í dag eða morgun. Hver ætli verði fyrstur að skrifa í gestabókina?

sunnudagur, febrúar 16, 2003

Þvílík helgi! Og þá meina ég ekki að það hafi verið gaman. Um helgina var ég að vinna. Í vinnunni gerðist meðal annars þetta: Tveir gamlir og viðbjóðslegir kallar voru að atast í mér. Í fyrra skiptið var ég í hlutverki kerrutæknis (orð sem fundið var upp yfir kerrukrakka) og spurði einhvern karl hvort ég mætti taka kerru sem var nálægt honum. Kallinn leit á mig með glampa í augum og sagði "Já vænan og þú mátt gjarnan keyra mig í henni og svo getum við.." Hann sagði ekki meira en glotti ógurlega.Í huganum var ég búin að slá hann í gólfið og segja honum til syndana en mér tókst á undraverðan hátt að stöðva hnefann sem var komin á loft (Fyrsta reglan sem maður lærir sem heilalaus kassadama er að viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér. Því tókst mér með herkjum að brosa framan í kallinn og hlaupa burt með kerruna en reyndar skyldi ég kallinn eftir. Síðara skiptið var jafnvel enn verra. Ég var í hlutverki kassadömu og var að afgreiða. Til mín kom gamall kall með neftóbakstaumana lekandi niður eftir andlitinu, hárið var skítugt og það litla sem var eftir af því stóð upp í loftið. Hann keypti nokkrar neftóbaksdósir og þegar ég ætlaði að láta hann fá þær sagði hann eitthvað lágum rómi. Ég hélt að hann ætlaði að kaupa eitthvað meira og hallaði mér nær til að heyra hvað hann var að segja. Þá greip hann um háls mér með skítugum lúkunum og sagði "Flottir eyrnalokkar, má ég snerta þá" svo glotti hann svo skein í gular, brotnar tennurnar og mér lá við yfirliði af andremmu og uppköstum af neftóbakstaumunum sem nú voru farnir að leka upp í munninn á honum. Í huganum var ég búin að sparka hann niður, trampa ofan á honum og öskra á hann að láta mig í friði. Ég gerði ekkert svoleiðis, en í þetta skiptið var ótrúlega erfitt að fara eftir reglunni viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér. Þann lærdóm sem hægt er að draga af þessu er að heilalaus kassadama virkar sem segull á gamla perrakalla. Því mun meiri ástæða fyrir mig til að skipta um vinnu.

Já svo var júróvísjon í gær. Voða lítið um það að segja nema það var ömurlegt. Ekkert fór eins og ég vildi. Og miss "ég stend eins og ég sé með hest í klofinu".is fer í stóru keppnina. En þetta var val þjóðarinnar, stundum er ég alls ekki viss um að ég sé Íslendingur. Eftir júró kíkti ég í heilalaust kassastarfsmannapartý sem var alveg laust við menningarlegar samræður. Ég fylltist skelfingu og fór að velta fyrir mér hvort vinnufélagar mínir séu ekki að leika þegar þeir eru í vinnunni..

Annars fékk Brynja snilldarhugmynd um daginn. Við stelpurnar höfðum verið að spila party & co (já ég vann) fyrr um kvöldið og fórum svo á Amour til tilbreytingar. Þá datt náttúrufræðibrautargellunni í hug að við myndum þróa svokallað diet duft. Auðvitað yrði þetta bara eitthvað duft, til dæmis súra duftið sem maður fékk sér á nammidögum þegar maður var lítill. En þetta snýst allt um markaðssetningu og við myndum auglýsa þetta þannig að þú mættir strá þessu yfir allt sem þú borðar og drekkur. Að hugsa sér, með því væri hægt að fá sér diet hamborgara og diet pitsu. Allar kellingarnar sem eru í megrun myndu kaupa duftið eins og skot og við myndum selja það dýrum dómum. Að hugsa sér hvað Brynja er sniðug ég sé fram á að vera orðin rík um leið og duftið kemur á markað..

sunnudagur, febrúar 09, 2003

Í dag hringdi ég alla leið til Danmerkur. Spjallaði við Svövu í allavega klukkutíma þökk sé þessu heimsfrelsisdóti sem ég keypti í Hagkaup. Ég er sumsé að reyna að skipuleggja væntanlega Danmerkurferð og það er aldrei að vita nema maður skelli sér á Hróarskeldu..
Gærkvöldið var hreint ágætt, ég, Brynja, Lilja og Heiða sátum á Amour í þrjá klukkutíma og borðuðum doritos og drukkum gos með diet klökum. Maður verður jú að hugsa um línurnar. Á Amour komu svo eitthvað af MA-ingum og fyrrum MA-ingum, þar á meðal Reginn sem kom til að kveðja. Ákvað hann að halda á vit spillingarinnar í höfuðborginni í dag.
Annars töpuðum við í Morfis sem er alveg grátlegt, mér skilst að FG-ingar hafi verið fullir (það er að segja stuðningsliðið þeirra) og eitthvað hafi verið gruggugt við úrslitin. Enda áttum við ræðumann kvölsdins, Emmi er víst mjög ósáttur og er að hugsa um að skjóta einhvern held ég.

Ég fór og kíkti á Þórsarana áðan, þetta var mjög skemmtilegur leikur, við vorum yfir allan tímann og svo voru allir að rífast svo mikið að ég bjóst við að dómarinn yrði fyrir árás. Svo varð ekki og við unnum ÍR með þriggja marka mun þrátt fyrir að þeir hafi verið í öðru sæti deildarinnar. Það var reyndar ekki eins gaman að Manchester skyldi bara gera jafntefli við nágranna sína en alveg viðunandi að Newcastle gerði jafntefli við Arsenal. Ágætis dagur hjá mínum liðum.

laugardagur, febrúar 08, 2003

Ég fór víst ekki í Sjallann í gær. Var frekar þreytt og stelpurnar voru að vinna. Enda fékk ég alveg næga útrás á fimmtudagskvöldið þegar ég kíkti í Álfabyggðina. Þar var verið að spila Party & co á fullu og var mikill æsingur í gangi. Hildigunnur hafði gripið til þess ráðs í hita leiksins að fækka fötum og mér til gæfu var mér plantað í liðið á móti henni. Skemmst er frá því að segja að mitt lið, skipað mér, Brynju og Soffíu bar sigur úr býtum og þó voru þær að tapa þegar ég mætti á svæðið. Þess má geta að títtnefnd Hildigunnur beitti lúalegum brögðum til að trufla einbeitingu míns liðs en með litlum árangri. Hefur Hildigunnur átt mjög erfitt með að sætta sig við tapið og lýgur hún blákalt um úrslitin á sinni eigin bloggsíðu.
Eftir þetta fórum við stöllur og Kalli á Amour þar sem meðal annars var rætt um tilvonandi afmæli okkar Ingu. Við sátum þarna í mesta sakleysi okkar þegar Kani með hatt og gítar kom og settist hjá okkur. Hann snéri sér umsvifalaust að Kalla og reyndi við hann allt kvöldið. Hann gerðist meira að segja svo kræfur að biðja um símanúmerið hans, Kalli var ekki alveg með á nótunum og gaf upp númerið án þess að blikna. Gaman væri að vita hvað hann á í vændum...

Á föstudagsmorgun hófum við Lilja svo aftur vikulegar spinningferðir okkar. Það var einkar ánægjulegt að vakna svona snemma og mætti ég tímanlega að vanda með bros á vör. Það var "skemmtilegt" að þó að við Lilja höfum ekki farið síðan í desember er enn verið að spila sömu lögin. Einhver ætti að tala við þennan ágæta dreng og útskýra fyrir honum afar vingjarnlega að ef hann fari ekki að breyta um lög eigi hann á hættu að verða fyrir líkamsmeiðingum.
Í dag fór ég svo 2x í Hagkaup með Ingu þar sem við gerðum stórinnkaup. Ástæðan fyrir að við fórum tvisvar var sú að önnur hvor okkar gleymdi veskinu í fyrra skiptið. (Hér verður ekki tekið fram hvor það var.)
Einnig fórum við í sund þar sem við syntum heilmikið og fórum svo í heita pottinn sem var yfirfullur af kærustupörum. Við hlupum því upp úr hið snarasta.
Í kvöld er svo tekin stefnan á aðal kaffihús bæjarins þar sem drekka á kaffi og viðhafa heimspekilegar samræður.


fimmtudagur, febrúar 06, 2003

Þá er skólinn byrjaður aftur mér til mikillar gleði. Ég ætla að taka Hildigunni mér til fyrirmyndar eins og oft áður og tileinka mér mikla jákvæðni og einlægan námsáhuga á þessari önn. Jafnframt mun ég mæta óaðfinnanlega, fylgjast með af brennandi ákafa í tímum og stunda heimavinnu af kappi. Þessa fyrstu skólaviku hef ég fylgt þessum markmiðum að miklu leyti, spurning þetta með að fylgjast með í tímum samt.
Þó var ekki einleikið að fá sínu fram á þeassri ágætu vorönn. Ákveðin tungumálakennari er ekki sáttur við að ég taki fjölmiðlafræði í stað tungumáls sem hann kennir og fleiri kennarar hafa verið neikvæðir. Ef þeir af einhverjum ástæðum slysast til að lesa þessar línur hef ég þetta að segja: "Vinsamlegast hættið að skipta ykkur af því sem kemur ykkur ekki við, þetta er það sem ÉG vil gera og ef ykkur líkar það ekki megið þið..." Ég held ég hafi ekki fleiri orð um þetta svo ég verði ekki tekin á teppið.

Eftir prófin hef ég hafið aftur hlutverk mitt sem heilalaus kassadama í ákveðinni verslun hér í bæ. Þar sem ég er afar þolinmóð manneskja veitist þetta mér einkar ánægjulegt starf. Aldrei hefur mig langað að fara ófögrum orðum yfir neitt tengt vinnunni og tel ég þetta afskaplega gefandi starf.
Sem betur fer á ég frí um helgina og aldrei að vita nema farið verði á Jet black Joe annað kvöld.
Svo er handboltinn að byrja aftur eftir sex vikna hlé ( vegna HM sem ekki verður talað meira um sökum þess að spá mín gekk ekki eftir) og mun ég vonast til að geta farið að sjá mína menn, en sökum vinnu hef ég ekkert komist á þessu tímabili.

Dagurinn í dag hefur verið hreint ágætur (engin þýska, ótrúlegt) og svo var frí í 2x ensku vegna bágs heilsufars Hrefnu og þótti bekknum það miður. Í stað þess að sofa í 4. tíma eyðunni fórum við Inga í ræktina af einskærum dugnaði. Eftir það fór ég svo í bakaríið með Ragnheiði og fengum við okkur sérrétt systrana það er að segja pitsuna okkar. Aumingja stúlkan sem afgreiddi okkur hélt á kortinu mínu og hafði ekki hugmynd um hvor okkar ætti það, ekki í fyrsta skipti sem það gerist.
Hildigunnur var með einhverjar hugmyndi í sambandi við kvöldið og aldrei að vita nema maður bralli eitthvað með stelpunum. En fyrst af öllu er það heimanámið ef fylgja á göfugum markmiðum.