þriðjudagur, febrúar 18, 2003

Hún Inga mín á afmæli í dag. Viku á undan mér fyrir tuttugu árum ákvað hún að koma í heiminn okkur hinum til gæfu. Tuttugu ár er samt afar hár aldur og ekki nema vika þangað til ég hætti að vera nítján ára táningur og verð komin á þrítugsaldurinn, farin að skoða hrukkukrem með Ingu.
Við stúlkur höfum þó gert allt sem í okkar valdi stendur til að gera Ingu daginn sem ánægjulegastan og beina huga hennar frá aldri sínum. Ég held að hún hafi bara verið mjög ánægð með gjöfina frá mér:) svo fer Brynja með hana til spámiðils á eftir sem hefur verið draumur lengi. Á meðan munum við Hildigunnur leggja síðustu hönd á afmæliskökuna og kaupa blöðrur og nammi. Svo verður bara partý í Álfabyggðinni og vona ég að hávaðinn verði nægur til að trufla háttvirtan menntamálaráðherra sem býr eimitt í næsta húsi við Hildí og Soffíu.

Það er svo á laugardagskvöldið sem Ger og ég ætlum að halda upp á afmælið okkar á Amour og erum við búnar að bjóða fjölda manns. Þar á meðal bekknum eins og hann leggur sig. Þetta verður alveg stórskemmtilegt held ég og von að maður fái einhverjar gjafir.(Ég var að hugsa um að hleypa engum inn sem væri án gjafa en tillagan var felld) Annars veit ég aldrei hverju ég á að svara þegar fólk er að spyrja mig hvað mig langar í. "Bara eitthvað." segi ég hugmyndasnautt. Þannig að Hildigunnur mín.. Þú verður bara að finna upp á einhverju sjálf;)

Hildigunnur ætlar einmitt að vera svo elskuleg að hjálpa mér að troða linkum og gestabók inn á þessa bloggsíðu og jafnvel breyta útliti hennar í leiðinni. Hún aumkar sig yfir mig og ætlar að sýna mér inn í undraheim tækninnar. Kannski meira segja í dag eða morgun. Hver ætli verði fyrstur að skrifa í gestabókina?