Ég fór víst ekki í Sjallann í gær. Var frekar þreytt og stelpurnar voru að vinna. Enda fékk ég alveg næga útrás á fimmtudagskvöldið þegar ég kíkti í Álfabyggðina. Þar var verið að spila Party & co á fullu og var mikill æsingur í gangi. Hildigunnur hafði gripið til þess ráðs í hita leiksins að fækka fötum og mér til gæfu var mér plantað í liðið á móti henni. Skemmst er frá því að segja að mitt lið, skipað mér, Brynju og Soffíu bar sigur úr býtum og þó voru þær að tapa þegar ég mætti á svæðið. Þess má geta að títtnefnd Hildigunnur beitti lúalegum brögðum til að trufla einbeitingu míns liðs en með litlum árangri. Hefur Hildigunnur átt mjög erfitt með að sætta sig við tapið og lýgur hún blákalt um úrslitin á sinni eigin bloggsíðu.
Eftir þetta fórum við stöllur og Kalli á Amour þar sem meðal annars var rætt um tilvonandi afmæli okkar Ingu. Við sátum þarna í mesta sakleysi okkar þegar Kani með hatt og gítar kom og settist hjá okkur. Hann snéri sér umsvifalaust að Kalla og reyndi við hann allt kvöldið. Hann gerðist meira að segja svo kræfur að biðja um símanúmerið hans, Kalli var ekki alveg með á nótunum og gaf upp númerið án þess að blikna. Gaman væri að vita hvað hann á í vændum...
Á föstudagsmorgun hófum við Lilja svo aftur vikulegar spinningferðir okkar. Það var einkar ánægjulegt að vakna svona snemma og mætti ég tímanlega að vanda með bros á vör. Það var "skemmtilegt" að þó að við Lilja höfum ekki farið síðan í desember er enn verið að spila sömu lögin. Einhver ætti að tala við þennan ágæta dreng og útskýra fyrir honum afar vingjarnlega að ef hann fari ekki að breyta um lög eigi hann á hættu að verða fyrir líkamsmeiðingum.
Í dag fór ég svo 2x í Hagkaup með Ingu þar sem við gerðum stórinnkaup. Ástæðan fyrir að við fórum tvisvar var sú að önnur hvor okkar gleymdi veskinu í fyrra skiptið. (Hér verður ekki tekið fram hvor það var.)
Einnig fórum við í sund þar sem við syntum heilmikið og fórum svo í heita pottinn sem var yfirfullur af kærustupörum. Við hlupum því upp úr hið snarasta.
Í kvöld er svo tekin stefnan á aðal kaffihús bæjarins þar sem drekka á kaffi og viðhafa heimspekilegar samræður.
<< Home