þriðjudagur, júní 27, 2006

Ég er misskilin rithöfundur. Það er auðvitað fínt, betra en að vera dáður rithöfundur sem er ekki eins dramatískt. Ég sumsé fékk nokkur viðbrögð við sögunni minni sem ég birti í síðustu færslu. Flestir virtust halda að ég væri að skrifa þunglyndislega frásögn um sjálfa mig. Sú var ekki raunin. Það eina sem ég á sameiginlegt með stúlkunni í sögunni er fótbrotið. (Ég er ekki með opið beinbrot samt) Það má því kannski segja að fótbrotið hafi verið ástæðan fyrir því að skáldsakapargyðjan vitjaði mín. Því miður er ég misskilin eins og ég sagði áðan, "andvarp...."

Snúum okkur að öðru. Ég er vissulega enn fótbrotin, en er búin að vera að tylla í fótinn í viku núna. Í gær fór ég í aðra myndatöku sem ég ætti að fá út úr á morgun. Eins gott að ég fái góðar fréttir. Vil fara að losna við hækjurnar og stíga í fótinn, það eru bara níu dagar í Búlgaríu.
Er búin að vera ansi dugleg að mæta í vinnuna. Fer samt alltaf bara 4 tíma á dag. Ég er ótrúlega léleg í að plasta bækur og nota hvert tækifæri til að stelast inn til barnanna. Þau eru afskaplega góð við mig, opna fyrir mig hurðir og klappa fætinum og svona:)
Styrmir útskrifaður og ég mætti ekki í útskriftina sjálfa. Hefði verið aðeins og mikið fyrir fótinn minn. En við vorum með fína veislu hjá tengdó og svo var það höllin um kvöldið. Hesta Jóiiiiii, bara gaman.
Allir í útlöndum, búið að vera frekar einmannalegt á Akureyri. Þakka fyrir HM, hef horft á þetta á hinum ýmsu stöðum. Áfram Portúgal!
Í kvöld komu sætustu frænkur í heimi, þær Hanna Karin og Hildur Heba til landsins, foreldrar þeirra komu auðvitað líka. Stefni á að hitta þær í fyrramálið, hlakka svo til:)

mánudagur, júní 19, 2006

Hún kveinkaði sér heldur ekki núna. Sama hversu kvalin hún væri þá skyldi ekkert hljóð koma frá vörum hennar.
Hún var fótbrotin. Hafði dottið niður stiga. Atburðarásin hafði verið óraunveruleg. Eftir fallið hafði hún setið kyrr langa stund og starað á opið beinbrotið. Eins og skáldið, hugsaði hún. Ég er fótbrotin eins og skáldið. Hún fór að brjóta heilann, hvað gerði skáldið í þessum sporum. Hún reyndi ákaft að muna og í gegnum þoku hugsananna kom það loksins. Hún vissi hvað hún þyrfti að gera.
Hún beit tönnunum saman og byrjaði hægt að mjaka sér upp stigann. Kvalirnar voru nánast óbærilegar og myrkrið dansaði lokkandi fyrir augum hennar. Hún hvíldi sig eftir hvert þrep. Safnaði kröftum og hélt svo áfram, myrkrið kom nær og nær, loks náði það henni.
Hún hrökk upp við sársaukann. Það var eins og fóturinn á henni væri að brenna. Hún leit rugluð í kringum sig, það tók hana svolitla stund að átta sig á aðstæðum. Sólin skein inn um gluggann og blindaði hana. Fuglarnir sungu hamingjusamir á móti sólinni. Það hlytu að hafa liðið margir klukkutímar. Hafði hún sofnað? Hún hló með sjálfri sér. Vissi ekki afhverju hún hló, kannski afþví hún vildi ekki gráta. Hún neyddi sig til að horfa á fótinn sem var orðinn stokkbólginn, hvítt beinið glotti til hennar, brotið. Hún leit upp og sá að það voru mörg þrep eftir. Hún reyndi að finna eldmóðinn frá því kvöldið áður. Eftir stutta stund tókst það. Henni fannst hún verða eitt með skáldinu, saman tækist þeim þetta. Hún fór þrep fyrir þrep án þess að hvíla sig, einbeitingin var algjör.
Hún var komin upp. Hvað næst spurði hún sjálfa sig? Skáldið svaraði henni.
Heilluð gerði hún eins og það bað. Hún skreið fram í eldhúsið og náði í harðfisk. Nógu þjóðlegt, hugsaði hún. Það var aðeins erfiðara að ná í Vodkaflöskuna en hún gafst ekki upp. Hún hefði viljað eiga brennivín eins og skáldið en þetta yrði að duga. Hún skreið einbeitt í átt að rúminu. Augun voru blóðhlaupin og varirnar sprungnar og bólgnar. Það tók nokkrar tilraunir að komast upp í rúmið. Myrkrið kom aftur um leið og hún lagðist í hart rúmið. Hefur skáldið yfirgefið mig, var hennar síðasta hugsun.
Það var aftur komið kvöld. Hún var skraufþurr í munninum. Hún teygði sig eftir vodkaflöskunni og fékk sér góðan sopa. Hún gretti sig, vissi ekki hvort það væri út af vodkanu eða fætinum. Skáldið var komið aftur. Hún vissi að hún yrði að gera eins og skáldið. Liggja og bíða eftir að einhver myndi vitja hennar. Kannski fengi hún líka lungnabólgu og kannski myndi hún deyja. Hún brosti, skáldið myndi gæta hennar.
Hún teygði sig í náttborðsskúfuna og tók upp blýant og gamla stílabók. Á ögurstundu eru bestu ljóðin samin hugsaði hún. Kannski myndi hún semja meistaraverk. Eitthvað sem yrði getið í íslenskri bókmenntasögu. Hún fékk sér annan sopa úr flöskunni og reyndi að japla á harðfisknum. Hún hafði ekki krafta til að borða hann svo hún tók upp blýantinn áköf á svip. Henni hlyti að fara að detta eitthvað í hug.
Hún var að hlaupa. Hún hljóp á blómum skrýddu engi, hratt eins og vindurinn. Hún var vindurinn. Hún leit niður á fætur sína, báðir voru heilir. Hún hló hátt og innilega og hélt áfram að hlaupa. Hún þreyttist aldrei. Þetta var hamingjan, að hlaupa endalaust. Þetta ætlaði hún að skrifa um.
Bros lék um varir stúlkunnar í rúminu. Smá saman hvarf það og augun urðu kyrr undir augnlokunum. Að lokum hljóðnaði andardrátturinn.
Það ríkti algjör kyrrð.

mánudagur, júní 12, 2006

Fótbrotin í 8 daga og ekkert að lagast. Annars bara allt að gerast. Agg litla systir mín kemur á miðvikudaginn. Mikið hlakka ég til að sjá hana. Svo er það bara útskrift um helgina en ég er alveg úti að aka. Það er erfitt að baka einfættur skal ég segja ykkur. Verð að taka mig á.
Það er ekkert til að borða heima hjá mér. Er föst hérna, pabbi gamli stunginn af suður á bílnum og svona. Þetta er eflaust það óskýrasta og samhengislausasta sem ég hef skrifað á þetta blogg. En fótbrot fer svona með fólk hef ég heyrt.

Á miðvikudaginn ætla ég í vinnuna frá 10-14, það er að segja ef að einhver getur skutlað mér. Hlutverk mitt verður að plasta bækur og svona borðvinna. Ætla auðvitað að kíkja á krakkana líka og gera mitt besta til að knúsa þau. Hlakka til:)

Ég eyddi allri helginni með Sölku minni. Ég var að hjálpa henni í íslensku 303 þar sem hún féll í henni, enda útlendingur. Fyrst var ég hrædd um að ég yrði ekki að miklu gagni. Fjögur ár síðan ég var í þessum áfanga og kennarinn minn var hin ágæta fröken Hafberg. Sennilega með óhæfari kennurum landsins, enda virtist hún ekki kunna efnið sem skyldi. Engu að síður (þökk sé gáfum mínum;) var ég fljót að rifja upp og við lágum yfir þessu. Salka fór svo í prófið í morgun og hringdi í mig áðan með þær gleðifréttir að hún hefði náð. Ekki nóg með það, heldur hækkaði hún sig um 3 heila:) Auður íslenskukennari, held það bara!

Mig langar í bað, getur einhver skutlað mér?

föstudagur, júní 09, 2006

Mér leiðist. Næst þegar ég tek upp á að slasa mig ætla ég að heimta að fá að leggjast inn á sjúkrahús. Þá neyðist fólk til að koma að heimsækja mig á heimsóknartímum. Einnig finnst fólki það knúið til að koma með blóm og vikublöð til að stytta sjúklingnum stundirnar. Svo hefur maður herbergisfélaga og læknarnir og hjúkkurnar droppa reglulega við og heilsa upp á mann.

Svona í fullri alvöru er ég fegin því að vera ekki á sjúkrahúsi. Þá gæti ég til dæmis ekki horft á Prison break allan daginn (Er komin á þátt 14 Ævar) sem eru snilldar þættir. Svo fór ég út í gær, aðeins á Bláu könnuna og kvöldið áður kíkti ég á Karó með Margréti og Sunnu. Það var mjög fínt. Ég ætla líka út í kvöld, í matarboð til deildarstjórans míns. Það er erfitt og þreytandi að vera á ferðinni en mun skárra en að hanga heima.
Ég er alltaf að reyna að vera hetja, tek ekki eins mikið af verkjatöflum og læknirinn ráðlagði mér. Læt alltaf líða lengra og lengra á milli skammta. Maður verður svo sljór af þessu. Nenni ekki að skrifa um hvað allt er erfitt, til dæmis bara að fá sér vatnsglas.

Ég sakna svo barnanna minna á Pálmholti og svo sakna ég líka hans Kjartans míns. Ég skrifaði Ingibjörgu um daginn. Hér er brot úr tölvupóstinum... "Kjartan er mjög leiður yfir þessum fréttum - en létti þegar hann heyrði að fóturinn hefði ekki brotnað af og þetta myndi gróa aftur."
Hann er sætastur í heimi.

miðvikudagur, júní 07, 2006

LEIKLIST - Leikklúbburinn Saga

Einstakt leikhús

Núna

Höfundar: Leikhópurinn. Leikstjóri: Guðjón Þorsteinn Pálmarsson. Leikarar: Auður Stefánsdóttir, Kristjana Stefánsdóttir, Margrét Hannesdóttir, Salka Gústafsdóttir, Steinar Halldórsson, Sunna Björk Ragnarsdóttir,Vala Stefánsdóttir. Sýning 21. maí 2006

,,ÞAÐ hlustar aldrei neinn á mig - nema núna" sagði stelpan sem reið á vaðið í óvenjulegri leiksýningu Sögu á Akureyri nú á vordögum. Þegar ungt fólk fær tækifæri til þess að tjá sig í frjálsu og skapandi leiklistarstarfi heyrist oft þessi rödd, að það er ekki hlustað á ungt fólk. Undanfarin ár hefur Leikklúbburinn Saga á Akureyri fengist við spuna og frumsköpun í leiklistinni undir stjórn leikstjóra sem skilja hvaða eldur brennur í hjörtum þeirra sem eiga að erfa landið.

Með Guðjóni Þorsteini Pálmarssyni leikstjóra sögðu sjö krakkar einlægar sögur, beint frá hjartanu. Sögur þeirra létu engan ósnortinn og ég hló og táraðist á víxl. Núna var ekki hefðbundið leikhús en samt leikhús í sinni tærustu mynd: Leikarinn var einn með áhorfendum í svo pínulitlu rými að nær varð ekki komist. Krakkarnir töluðu beint til okkar af svo miklu öryggi að ætla mátti að þau væru þrælvön að koma fram sem leikarar og uppistandarar. En meira en helmingur hópsins var óvanur. Sumar af reynslusögunum voru sniðnar til, aðrar alveg sannar. Allar voru þær mjög áhugaverðar. Þau töluðu um samskipti og samskiptaleysi; um fyndin atvik; um sorg og ótta; um erfiða bernsku og um framtíðardrauma. Þarna kristallaðist í leiklistinni allt það sem mælir með því að nota hana sem uppeldis-, kennslu og meðferðartæki ásamt skemmtun og afþreyingu. Það var gott að vera í leikhúsinu þetta kvöld.

Hrund Ólafsdóttir

Tekið af mbl.is þann 07.06.06.

þriðjudagur, júní 06, 2006

Ég er fótbrotin. Það er mjög lítið spennandi skal ég segja ykkur. Ligg upp í rúmi með skál við hliðina á mér. Skálin er full af verkjatöflum. Hver hefði trúað því að það væri svona erfitt að ferðast um á hækjum? Mig verkjar orðið í heilbrigða fótinn og er með strengi í höndunum. Samt var ég liggjandi í rúminu í allan gærdag nema þegar ég þurfti nauðsynlega að hreyfa mig.
Hvernig fór ég svo að þessu? Það var svo misheppnað. Ég var á Kaffi Ak í góðra vina hópi og missteig mig með þeim árangri að ég hrundi í gólfið. Ég fann rosalega til en reyndi þó að jafna mig, settist niður og hélt að þetta hlyti að fara að lagast. Gerði svo máttleysislega tilraun til að fara að dansa aftur en sá svo að þetta gengi ekki. Fannar, sá heiðursmaður, reddaði mér fari heim og studdi mig upp að dyrum.
Þegar inn var komið gat ég ekki sofnað, var alveg hætt að geta stigið í fótinn og leist ekkert á blikuna. Tók leigubíl upp á slysó þar sem ansi geðvondur starfsmaður tók á móti mér. Bauð mér ekki hækjur eða neitt og ég hoppaði um á öðrum fæti, dauðþreytt og slösuð. Sú illgjarna hreytti í mig nokkrum spurningum, urraði á Styrmi og sendi mig heim. Sagði mér að koma í röntgen klukkan 10. Svo kom önnur sem var töluvert mannlegri. Hún lét á mig teygjusokk og verkjalyf svo ég gæti sofið. Enn var mér ekki boðið hækjur svo ég hélt áfram að hoppa. Tók leigubíl heim aftur og gat sofið í fjóra tíma áður en ég átti að mæta aftur á spítalann.

Það tók á móti mér vingjarnleg amma þegar ég mætti á slysó í seinna skiptið. Þetta var ekki amma mín þó hún sé vingjarnleg og vinni á spítalanum. Hún bauð mér strax hækjur eða hjólastól. Hetjan ósofna valdi auðvitað hækjurnar. Ég átti samt erfitt með að halda jafnvægi vegna þreytu. Nenni ekki að fara nánar út í þessa sjúkrahúsferð en fólk var almennt ekkert mjög mannlegt. Ég þarf að vera á hækjum í nokkrar vikur og vonlaust að ég komist í vinnu á næstunni. Mér er strax byrjað að leiðast og get aðeins huggað mig við allar heimsóknirnar sem ég á vonandi eftir að fá og símtölin. Ég vorkenni mér svolítið ég viðurkenni það. Ég á samt að geta stigið í fótinn þegar ég fer til Búlgaríu eftir mánuð en ég verð ekki orðin góð.
Nenni ekki að skrifa meira núna, ég hef svo mikið að gera. Ætla að fara að stara upp í loftið.

P.S. Ætli það sé ekki hægt að setja tjáningu 103 sem skyldufag í læknadeildina?