miðvikudagur, júní 29, 2005

Þá eru mamma, pabbi og Sindri farin. Það virðist sem þetta ætli engan enda að taka. Allir að yfirgefa mig, það er örstutt í að Malena fari líka. Nú er illt í efni.
Það var nú ansi ljúft að hafa þau gömlu og þann litla. Dagsferðin í Hálöndin var mjög fín, fyrir utan ákveðna hamborgara sem mamma og Sindri fengu sér. Svo rústaði ég þeim öllum í keilu, eða svona óbeint, pabbi vann afþví að hann svindlaði auðvitað. Við prófuðum ýmsa veitingastaði og vorum yfirleitt mjög heppin, veðrið líka búið að vera mjög gott.
Ég er nokkuð viss um að ég sé gleymd hérna úti, hvorki tölvupósti, bréfum né sms-um rignir inn. Hvað þá hringingum. Ömmur muna þó eftir mér:)
Á döfinni: Vika í að Malena fari:( Tvær vikur í að Styrmir komi. Rúmar tvær vikur í að Harry Potter komi út. 3 vikur í að ég fari til Danmerkur og takið eftir.... 5 vikur í að ég komi heim!!

laugardagur, júní 25, 2005

U2. Þeir eru langbestir. Tónleikarnir voru magnaðir, hreinlega bara ólýsanlegir. Þvílík gæði, ljósin, tónlistin, söngurinn, allt eitt stórt VÁ. Ég var líka á mjög heppilegum stað, frekar framarlega svo ég sá vel, það var gott að þessar örfáu hræður sem voru þarna voru ekki að flækjast fyrir mér, eða um 50.000 manns. Þeir tóku öll lögin sem ég var að vonast eftir að heyra og meira til. Spiluðu í tvo og hálfan tíma án þess að taka pásu og var fullur kraftur í þeim. Lenti reyndar í allskonar veseni með að komast til og frá tónleikum en segi kannski frá því síðar. Allavega, fullkomnir tónleikar, svo var veðrið líka gott:)

Nú er Styrmir farinn aftur, þetta var bara stutt stopp hjá honum núna þar sem að hann kemur aftur í júlí, við erum að fara á ættarmót þá, hjá hans ætt. Hinsvegar er gamla fólkið hér núna ásamt litla bróður og við erum búin að bralla ýmislegt, fórum í opnum strætó með leiðsögumanni að skoða borgina og fórum líka á draugalegan stað þar sem maður fræddist um mestu glæpamenn borgarinnar og lét aðeins hræða sig. Einnig erum við aðeins búin að kíkja í búðir, risaútsalan hjá HMV hefur vakið mikla gleði hjá Si.
Í dag ætlum við svo að skoða kastalann og Royal mile og á morgun eru það hálöndin. Þar á meðal annars að kíkja á Loch ness skrímslið, hálandahöfðingjann og stað sem var notaður í Harry Potter 3 myndinni. Já og svo á að skoða umhverfið líka. Mér líður eins og túrista...

föstudagur, júní 17, 2005

Hún Eva er bara farin, ég hreinlega trúi því ekki. Eins og ég reyndi nú að freista hennar mikið að vera áfram en svona er lífið. Það var sko ekki auðvelt að kveðja dúlluna mína. Við erum búnar að koma okkur upp ákaflega furðulegum, goggandi einkahúmor sem inniheldur meðal annars Hugggharann og ákveðna kryddjurt. Nú er engin til að hlæja með að þeim bröndurum. Það verða ekki fleiri kvöld fyrir framan breiðtjaldið, verslunarferðir, djamm og fleira. Ég sakna þín Eva mín, þú ert frábær. Eva ætlar meira að segja að senda mér handskrifað bréf því hún veit hvernig það er að vera í útlöndum og fá aldrei bréf. (Já þetta er skot á ykkur öll)
Gærdagurinn fór í að sakna Evu og ímynda sér hversu vel allir samstúdentar mínir væru að skemmta sér á ríjúníoinu. Ég hélt að enginn hefði saknað mín, ég hafði rangt fyrir mér. Hildigunnur mín heittelskaða reyndi að hringja í mig, ég var því miður sofandi en það var gaman að sjá að einhver hafi munað eftir manni:)

Að skemmtilegri hlutum. Það eru tveir klukkutímar í að Styrmir komi:) 5 dagar í mömmu, pabba og ponsulitla bróður;)
Að lokum: Til hamingju með útskriftina elsku Ragnheiður og Hrönn.

mánudagur, júní 13, 2005

Loksins er ég að ná mér eftir veikindi með langvarandi kvefi og hósta. Þótti þetta lítil skemmtun og gat til dæmis ekki farið út um síðustu helgi með blessuðu fólkinu mínu. Ég bætti úr því um þessa helgi, byrjaði á að fara í bíó á föstudagskvöldið með fólkinu úr skólanum mínum. Við reyndar skruppum fyrst á pöbb í smá stund og svo fórum við að sjá Sin city. Eftir það var haldið aftur á pöbb og talað um heima og geima, ansi gaman. Um hálfeitt áttuðum við okkur á því að við vorum farin að finna til svengdar svo við fórum á indverskan veitingastað og fengum okkur að borða, það var mjög kósí og svolítið undarlegt að vera á veitingastað að nóttu til.
Á laugardaginn fórum við Eva í bæinn í steikjandi hita og gekk það nú ansi illa þar sem við fundum ekkert sem við vorum að leita að. Eva var svolítið stressuð þar sem verslunartími hennar er að renna út. Hún á aðeins eftir að vera hér í þrjá daga, ótrúlegt. Ég hef reynt að útskýra fyrir henni að það sé ekkert vit í að fara fyrr en ég fer en hún virðist ekki samþykk. Kannski hatar hún mig, snökt, snökt;) Um kvöldið fórum við að heimsækja Önnu Vigdísi og stelpukrútturnar hennar, Eva þurfti að kveðja. Svo var haldið til Richards þar sem ætlunin var að djamma, síðasta tækifæri Evu. Við Eva vorum nú ekki sáttar við kvöldið, hún átti skilið miklu betra kvöld en svona er þetta bara þegar sumir eru fúlir og aðrir of drukknir. Við Eva gáfumst því upp og fórum bara heim um tvö.

Ég hef verið dugleg að passa að undanförnu. Á neðri hæðin hjá okkur búa hjón sem eiga tvö börn, Be verður þriggja ára í ágúst og Boris er sjö mánaða. Þau eru svo sæt og yndisleg og við Kjartan leikum oft við þau úti í garði. Svo hef ég töluvert verið að passa hjá Habbý þar sem spurningunum rignir yfir mig. Bæði Sæmsi og Kjartan eru með Star wars á heilanum og þeir spyrja mig um það allan daginn. Það er erfitt fyrir þá að skilja söguþráðinn en þó ég reyni að útskýra fyrir þeim virðast þeir engu nær. Kjartan kom með þá fullyrðingu að Luke væri sterkari en pabbi minn en pabbi minn væri samt eldri. Um daginn var ég að reyna að koma Sæmsa í rúmið sem gekk mjög illa þar sem hann þurfti að spyrja svo mikið. Á endanum tókst það en þá tók hann að kalla til mín spurningar. Eftir að ég hafði svarað nokkrum gafst ég upp og sagðist ekki ætla að svara meira. Ég fór fram en heyrði þá allt í einu að Sæmsi var farinn að tala við sjálfan sig. Ég greindi ekki orðaskil af þessu muldri, það hljómaði, blablabla Darth Vader blablabla.
Við Kjartan höfum verið að bralla ýmislegt, fórum til dæmis út að borða með Evu á fimmtudagskvöldið sem var ekki slæmt. Kjartan var hæstánægður, enda fékk hann sér pitsu með ólívum.
Ég vaknaði rétt rúmlega sjö á laugardagsmorguninn við það að Kjartan stóð á miðju gólfinu hjá mér og var að pússa á sér neglurnar með naglaþjölinni minni:) Annars er hann veikur núna þessi elska, svo við erum bara heima í dag.

Í skólanum höldum við áfram með senurnar okkar. Ég er ekki alveg viss, en ég held að það séu bara tvær vikur eftir af skólanum.
Sorg vikunnar: Eva er að fara á fimmtudaginn, það er hrein illska og mikil sorg:(
Gleði vikunnar: Styrmir kemur á föstudaginn, það er svolítið síðan við Kjartan byrjuðum að telja dagana...:)

fimmtudagur, júní 02, 2005

Allt að gerast hér í landi Skotanna. Í þessum töluðu (skrifuðu) orðum ætti Soffía að vera í flugvélinni á leiðinni til Íslands. Ég fór með henni, Önnu Vigdísi og Guðnýju út að borða í gær á alveg hreint frábæran stað þar sem við fengum pitsu á stærð við fíl. Engin af okkur gerðist svo fræg að klára pitsuna. Eftir máltíðinni fórum við í Tesco þar sem keyptur var ís í boði Önnu Vigdísar. Við héldum heim með ísinn og horfðum á Eiginkonurnar aðþrengdu. Að því búnu var bara komið að því að kveðja Soffíu en við stefnum að því að hittast aftur í ágúst. Þá ætlar Richard kallinn að koma til Íslands og við gerum öll eitthvað sniðugt:)

Á þriðjudaginn hitti ég svo nýja kennara minn í skólanum, hana Rachel sem mér leist rosalega vel á. Hún er svona lítil og brosmild og algjör stuðbolti. Hún virtist líka mjög fær og veit alveg hvað hún er að tala um. Rachel tók strax upp þráðinn þar sem Justin hætti, vorum að vinna í senunum sem að hann lét okkur fá síðast. Ég er að gera eina með Pam og eina með May. Mjög skemmtilegar senur úr "Senubók leikarans." Eftir tímann tóku Darran og Pam mig á eintal og vildu vita hvað ég ætlaðist fyrir með framtíðina. Þegar þau heyrðu að ég væri ekkert sérstaklega að plana leiklist fóru þau að þrýsta á mig og töluðu alvarlega um að ég yrði að fara að minnsta kosti eitthvað lengra með þetta því að þeirra mati hef ég hæfileika. Gott og blessað að fá hrós svosem.
Ég má heldur ekki gleyma að okkur í skólanum var boðið að fara í prufur fyrir stuttmyndir, einar þrjár, en það var bara eitt kvenmannshlutverk í boði. Myndir þessar eru gerðar af atvinnufólki og verða sýndar um allan heim á litlum kvikmyndahátíðum. Leitað var af stelpu á aldrinum 18-24 ára í hlutverk ungarar, fallegrar snótar. Þar sem ég var sú eina á réttum aldri þrýstu samnemendur mínir mikið á mig en ég ætla ekki í þessa prufu. Ef svo ólíklega vildi til að ég fengi hlutverkið þá eru tökur á óheppilegum tíma svo ég verð að bíða lengur eftir því að slá í gegn;)

Ég er á leiðinni í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri í haust. Ég er því komin með íbúð og nám en bráðvantar vinnu. Veit einhver um eitthvað, vill einhver ráða mig? Það væri sérstaklega óvitlaust ef einhver vissi um eitthvað tengt leiklist eða fjölmiðlun..