Loksins er ég að ná mér eftir veikindi með langvarandi kvefi og hósta. Þótti þetta lítil skemmtun og gat til dæmis ekki farið út um síðustu helgi með blessuðu fólkinu mínu. Ég bætti úr því um þessa helgi, byrjaði á að fara í bíó á föstudagskvöldið með fólkinu úr skólanum mínum. Við reyndar skruppum fyrst á pöbb í smá stund og svo fórum við að sjá Sin city. Eftir það var haldið aftur á pöbb og talað um heima og geima, ansi gaman. Um hálfeitt áttuðum við okkur á því að við vorum farin að finna til svengdar svo við fórum á indverskan veitingastað og fengum okkur að borða, það var mjög kósí og svolítið undarlegt að vera á veitingastað að nóttu til.
Á laugardaginn fórum við Eva í bæinn í steikjandi hita og gekk það nú ansi illa þar sem við fundum ekkert sem við vorum að leita að. Eva var svolítið stressuð þar sem verslunartími hennar er að renna út. Hún á aðeins eftir að vera hér í þrjá daga, ótrúlegt. Ég hef reynt að útskýra fyrir henni að það sé ekkert vit í að fara fyrr en ég fer en hún virðist ekki samþykk. Kannski hatar hún mig, snökt, snökt;) Um kvöldið fórum við að heimsækja Önnu Vigdísi og stelpukrútturnar hennar, Eva þurfti að kveðja. Svo var haldið til Richards þar sem ætlunin var að djamma, síðasta tækifæri Evu. Við Eva vorum nú ekki sáttar við kvöldið, hún átti skilið miklu betra kvöld en svona er þetta bara þegar sumir eru fúlir og aðrir of drukknir. Við Eva gáfumst því upp og fórum bara heim um tvö.
Ég hef verið dugleg að passa að undanförnu. Á neðri hæðin hjá okkur búa hjón sem eiga tvö börn, Be verður þriggja ára í ágúst og Boris er sjö mánaða. Þau eru svo sæt og yndisleg og við Kjartan leikum oft við þau úti í garði. Svo hef ég töluvert verið að passa hjá Habbý þar sem spurningunum rignir yfir mig. Bæði Sæmsi og Kjartan eru með Star wars á heilanum og þeir spyrja mig um það allan daginn. Það er erfitt fyrir þá að skilja söguþráðinn en þó ég reyni að útskýra fyrir þeim virðast þeir engu nær. Kjartan kom með þá fullyrðingu að Luke væri sterkari en pabbi minn en pabbi minn væri samt eldri. Um daginn var ég að reyna að koma Sæmsa í rúmið sem gekk mjög illa þar sem hann þurfti að spyrja svo mikið. Á endanum tókst það en þá tók hann að kalla til mín spurningar. Eftir að ég hafði svarað nokkrum gafst ég upp og sagðist ekki ætla að svara meira. Ég fór fram en heyrði þá allt í einu að Sæmsi var farinn að tala við sjálfan sig. Ég greindi ekki orðaskil af þessu muldri, það hljómaði, blablabla Darth Vader blablabla.
Við Kjartan höfum verið að bralla ýmislegt, fórum til dæmis út að borða með Evu á fimmtudagskvöldið sem var ekki slæmt. Kjartan var hæstánægður, enda fékk hann sér pitsu með ólívum.
Ég vaknaði rétt rúmlega sjö á laugardagsmorguninn við það að Kjartan stóð á miðju gólfinu hjá mér og var að pússa á sér neglurnar með naglaþjölinni minni:) Annars er hann veikur núna þessi elska, svo við erum bara heima í dag.
Í skólanum höldum við áfram með senurnar okkar. Ég er ekki alveg viss, en ég held að það séu bara tvær vikur eftir af skólanum.
Sorg vikunnar: Eva er að fara á fimmtudaginn, það er hrein illska og mikil sorg:(
Gleði vikunnar: Styrmir kemur á föstudaginn, það er svolítið síðan við Kjartan byrjuðum að telja dagana...:)
<< Home