mánudagur, maí 16, 2005

Minning

Lítil stúlka situr spennt fyrir framan sjónvarpið með föður sínum. Í sjónvarpinu er spjallþátturinn Eiríkur og gestur hans er Sæmundur Guðvinsson. Ég man vel eftir því hversu stolt ég var að sitja þarna og fylgjast með afa mínum. Afi Sæmundur var merkilegur maður og hef ég alltaf verið meðvituð um það. Ég las Sögu Leikfélags Akureyrar spjaldanna á milli því þar mátti finna umsagnir um verk sem afi hafði leikið í ásamt gagnrýni og myndum. Einnig las ég þær bækur sem hann hefur gefið út og við eigum til í bókahillunni.
Þegar ég eltist var ég svo lánsöm að komast að því að afi minn var merkilegur fyrir fleira en hæfileika sína. Hann var einstaklega góður maður og hlýr. Hann var mér svo miklu meira en afi því hann var jafnframt jafningi minn og trúnaðarvinur. Afi vildi allt fyrir mig gera,. Þegar ég kom til Reykjavíkur var heimili hans ávallt opið fyrir mér og var hann boðinn og búinn að keyra mig um allan bæ.
Ég flutti til Edinborgar fyrir ári síðan og hefur nánast ekki liðið sá dagur sem við afi höfum ekki heyrst á msn. Þar spjölluðum við um heima og geima, grín og alvöru og hann hafði einstakt lag á að stappa í mig stálinu þegar við átti. Hann studdi mig í einu og öllu og er mér óhætt að fullyrða að hann hafi verið minn dyggasti aðdáandi. Hann hrósaði mér fyrir skrif mín og hvað sem ég tók mér fyrir hendur, það var mér óendanlega mikils virði.
Þegar ég kom heim í jólalafrí var afi auðvitað mættur til að sækja mig á flugvöllinn og Nína amma með. Þau keyrðu mig svo á Reykjavíkurflugvöll og voru mætt þangað tveim vikum síðar til þess að ná í mig. Við amma borðuðum á heimili afa sama kvöld og er það mér ákaflega minnisstætt. Afi þjáðist sjálfur svo af tannpínu að hann kom engu niður en við amma borðuðum pitsu með bestu lyst. Þrátt fyrir tannpínuna var afi glaður þetta kvöld því honum þótti svo gaman að hafa bæði mig og Nínu hjá sér. Daginn eftir kvaddi ég hann því ferðinni var aftur heitið til Edinborgar. Mig grunaði ekki að þetta væri í hinsta sinn sem ég sæi afa minn því hann var aðeins 59 ára gamall og heilbrigður eftir því sem ég best vissi.
Mánuðirnir líðu úti í Edinborg og allt í einu var kominn maí. Aðeins einn mánuður í sextugs afmæli afa og ég var búin að ákveða hvað ég ætlaði að gefa honum. Engin orð geta lýst sorginni og áfallinu þegar ég fékk fréttirnar um að afi væri látinn. Missir minn og svo margra annarra er mikill. Söknuðurinn er sár og ég veit að hann mun aldrei hverfa. Að fara inn á msn er óhugsandi því að ég veit að afi er ekki þar og verður aldrei aftur. En ég á svo margar góðar minningar og þær tekur enginn frá mér. Þær lifa í hjarta mér, líkt og afi mun ávallt gera.