laugardagur, apríl 23, 2005

Síðastliðin vika er búin að vera full af undarlegum atburðum. Að minnsta kosti er ég ekki vön að sjá hund á stærð við hross, lögreglumann á hesti á rólegu brokki í götunni minni og þurfa að hlusta á ævisögu eldri konu. Og ekki hefur vikan heldur verið alveg laus við ástarjátningar og bónorð. Þannig er mál með vexti að Sæmsi labbaði upp að mér þegar ég var að ná í Kjartan á leikskólann og sagði "I love you and I wanna marry you." Að hans mati er þetta þá allt ákveðið og þegar ég var að passa hann um síðustu helgi neitaði hann algjörlega að sofna nema ég svæfi upp í hjá honum.
Malena var svo elskuleg að passa með mér þetta kvöld og eftir að Habbý kom heim fórum við út á lífið. Þar vorum við vitanlega ekki látnar í friði og tjáði mér ungur maður að ég væri ástin í lífi hans og hann hefði verið að leita að mér alla ævi. Ég sendi honum milt augnráð með þeim skilaboðum að hann ætti að láta mig í friði ef hann vildi halda lífi. Það er greinilegt að æfingar okkar Malenu á skoskum framburði skilaði árangri því allir héldu að við værum frá Skotlandi eða Írlandi. Það gekk einn svo langt að trúa alls ekki að ég væri frá Íslandi og var honum sagt á afar kurteislegan hátt að bíta í sig.

Skólinn byrjði loksins aftur á mánudaginn og þvílík sorg. Við ætlum að setja upp leikrit í alvöru leikhúsi á Edinborgarhátíðinni og hvar verð ég? Nema auðvitað á Íslandi, bömmer. Núna er ég bæði með Justin og Crispin í leiklist og kom Justin með þá "skemmtilegu" hugmynd að við eigum að standa upp og syngja einsöng fyrir framan alla í næsta tíma. Tilhugsunin ein er nóg til að allt blóð hverfi úr líkama mínum og svimi geri vart við sig. Veit ekki hvað ég á að syngja nema að ég ætla að velja eitthvað íslenskt, hugmyndir? Helst eitthvað auðvelt þar sem ég á eftir að verða örlítið stressuð. Eins og þetta sé ekki nóg þá eru 9 hættir í skólanum og þar á meðal Dana. Við ætluðum að vera með samlestur á sýningunni okkar 14. maí en nú er það ekki hægt. Justin ákvað þá að ég ætti að vera með Darren sem missti líka félaga sinn en ég þarf að gera það sem þau ætluðu að gera. Því þarf ég að lesa Shakespeare leikrit fyrir næsta tíma og svo þarf ég að læra allt mitt, skilja þetta allt saman og læra að skilja og þekkja karakterinn minn, sumsé ég er dauðadæmd.

Á fimmtudaginn biðu mín skilaboð frá póstinum um að þeir hefðu komið með tvo pakka til mín. Það var enginn heima svo að þeir skildu eftir skilaboð með heimilisfangi og símanúmeri. Málið er að heimilisfangið er ekki til á korti og enginn kannast við það og það svarar aldrei neinn í símann. Ég er því vægast sagt pirruð á þessu máli og veit ekki hvernig ég á að nálgast þessa pakka.
Jæja best að fara að gera eitthvað. Ég fer út í kvöld þar sem Malena Mina Johanna varð tvítug á miðvikudaginn og við ætlum að fagna þeim atburði. Svo eru aðeins fjórir dagar þar til Gerí skerí og Lugure frændi koma til Edinborgar, ég hlakka svo til:)