fimmtudagur, mars 03, 2005

Mig grunaði ekki að ég ætti eftir að hleypa af stað miklum umræðum í skólanum á þriðjudaginn. Það var þannig að hóparnir voru saman því kennararnir vildu fá álit hins kennarans á sínum hópi, alltsvo monalogunum þeirra. Þar af leiðandi var komið að Justin að láta í ljós skoðun sína á mínum monalog.
Mér fannst mér takast enn betur upp sem hún Elisabeth Bennet úr Hroka og Hleypidómum en síðast þar sem ég var orðin mjög örugg á textanum. Og Justin, hvað fannst honum? Jújú ég fékk hrós fyrir að vera skýrmælt og með mikla orku og svo framvegis en hann var ekki á sama máli og ég um hvernig Lissy leið. Þar sem þetta er senan þar sem Mr. Darcy bað hennar og gerði það á þann hátt að hann móðgaði hana auk þess sem hún hélt að hann væri afar slæm manneskja í þessum hluta sögunnar, gerði ég ráð fyrir að hún væri reið. Reið og sár og örlítið ringluð. Lissy er líka mjög svo sterk kona og alls ekki í takt við konur á þessum tíma. Justin hinsvegar hélt því fram að hún þráði Darcy og þessvegna myndi hún vera að daðra við hann um leið og hún segði þessi orð. Það sem hún segir meðal annars er að hún fyrirlíti hann og þó svo að tilfinningar hennar væru þannig að henni finndist hann þolanlegur myndi hún aldrei taka honum þar sem að hann eyðilagði hamingju systur hennar.
Justin lét því Chris vera Darcy og ég átti að sitja á stól á móti honum og sumsé fara með monaloginn aftur daðrandi. En áður en ég gat byrjað tók Samara til máls. Hún sakaði Justin um að vera karlrembu, um að skilja augljóslega ekki Lissy. Týpískur karlmaður að hennar mati að halda að þessi sterka kona væri uppfull að þrá þegar hún var í raun mjög reið. Uppfrá því brutust út miklar umræður um Elisabeth, allir höfðu sína skoðun og allir vildu sálgreina hana. Engin virtist á sama máli og Justin, Crispin reyndar sagði ekki neitt, sat bara og glotti. Það varð þó úr að ég gerði tilraun til að gera þetta eins og Justin vildi, það tókst ekki því ég lifði mig inn í hita augnabliksins og varð auðvitað æst og reið. Daður, þvílíkt og annað eins. Dæmi nú hver fyrir sig.