miðvikudagur, apríl 06, 2005

Ég trúi ekki eigin óheppni. Newcastle var búið að vera á góðri siglingu, ekkert tap í síðustu níu leikjum og það voru 11 heimaleikir síðan þeir höfðu tapað. Ég var því í glimrandi góðu skapi þegar ég, Richard og Soffía keyrðum inn í Newcastle í sólina og 16 stiga hitann. Ég fór með Richard og stóð hjá honum meðan hann skráði okkur inn í Hilton hótel og brosti sakleysislega. Soffía beið fyrir utan þar sem áætlunin var að vera þrjú í tveggja manna herbergi. Svo var haldið á leikinn og við komum okkur fyrir í sætunum okkar eins og rúmir 50.000 aðrir. Eitt er víst, ég gleymi aldrei þeirri tilfinningu þegar þulurinn kynnti að númer níu væri kapteinn Shearer og allt trylltist af fögnuði. Mikið vildi ég ekki vera númer 10 í Newcastle, ekki gaman að koma beint á eftir goðinu.
Leikurinn byrjaði og ég sat þarna spennt og glöð í um 3 mínútur, Þá skoraði Aston Villa. Ég grét í hljóði en herti mig upp og horfði á leikinn og sá Newcastle næstum skora um það bil 20 sinnum. Aston Villa fengu ekki fleiri færi í fyrri hálfleik. Því miður tókst Newcasle ekki að skora í fyrri hálfleik og ekki í seinni hálfleik heldur. Seinni hálfleikur var ótrúlegur, er enn ekki búin að átta mig á þessu. Tvisvar áttu Newcastle að fá víti, það gerðist ekki. Einu sinni átti Aston Villa að fá víti en þeir fengu tvisvar og skoruðu í bæði skiptin. Newcastle missti mann útaf og svo... slagurinn. Ég trúði ekki mínum eigin augum, Bowyer réðst á Dyer (fyrir þá sem ekki vita eru þeir báðir í Newcastle) og sá síðarnefndi reyndi að verja sig í fyrstu. En þegar höggin héldu áfram fór hann að slá á móti. Leikmenn dróu þá í sundur, þar var Shearer fremstur í flokki auðvitað, og báðir fengu þeir rautt spjald. Newcastle voru þá orðnir átta gegn ellefu en ekki nýttu Villa menn sér það. Enda virtust þeir ófærir um spilamennsku, eitt skot að marki og svo víti. Stuðningsmenn Villa æptu á okkur Newcastle menn sigrihrósandi og ég fann fótboltabulluna vakna í mér. Hefði ekkert haft á móti því að rjúka í þá. Ég hélt þó aftur að mér og við fórum og fengum okkur kínverskan mat, Soffía og Richard gerðu sitt besta til að hughreysta mig.
Ég ákvað að láta huggast og við fórum í Tesco og keyptum okkur smá fordrykk, sigldum því næst inn á Hilton og komumst vandræðalaust þrjú inn í herbergið. Svo fórum við út á lífið, næturlífið í Newcastle er með því frægasta hér á Bretlandi og það var vægast sagt gaman hjá okkur. Við fórum á nokkra bari og klúbba, á flestum stöðum var verið að sýna leikinn og við skeggræddum við mann og annan um gang mála. Ég leit ógnandi í kringum mig öðru hverju, var einhver stuðningsamður Villa nálægt? Nei, það leit út fyrir að þeir hefðu allir hypjað sig heim. Enduðum á mjög skemmtilegum klúbbi, þar sem þeir voru með dansara við sum lögin, það var mjög flott og við Soffía misstum okkur aðeins á dansgólfinu, enda þóttum við án efa bera af;) Það spurði mig einhver hvort ég væri frá Skotlandi, ég varð afskapleg glöð þar sem framburðurinn hjá mér er ekkert skoskur því miður. Ég sagði auðvitað "Aye, aye."
Þegar staðurinn lokaði fórum við og fengum okkur pitsu og svo var ekki annað eftir en að smygla sér inn á hótel. Soffía fór fyrst, hún fékk annan lykilinn og komst inn með því að sýna hann. Svo fórum við Richard, ég setti vitanlega upp sakleysis svipinn og við flugum inn. Frábært kvöld:)
Daginn eftir skoðuðum við borgina sem er falleg í frábæru veðri og keyrðum svo heim. Þó ekki áður en ég hafði keypt mér peysu, svarta með bleikum ermum, á henni stendur Newcatle United. Féll alveg fyrir henni í Newcastle búðinni, maður styður sína menn þó illa gangi. Svipaðist um eftir Shearer, tilbúin að fá eiginhandaráritun en hann virðist ekki hafa verið á göngu í góða veðrinu. Í bakaleiðinni skruppum við smá stund í heimabæ Richards sem er lítill og fallegur.

Ég nenni því miður ekki að skrifa langa grein um það sem á daga mína dreif í bloggleysinu. Það sem stendur upp úr er auðvitað að hann Mimmi minn var hér sem var náttúrulega best. Fyrri vikuna var ég frísk og við gerðum skemmtilega hluti eins og fara í Ghost tour, labba Royal mile, kíkja á pöbba og í bíó. Seinni vikuna var ég veik og aftur veik og aðeins meira veik og þá gerði ég ekkert nema liggja í rúminu sárkvalin. Missti til dæmis af partýinu í skólanum og svo ætluðum við Mimmi í dagsferð til Pitlochry sem ég komst ekki í. Var veik frá fimmtudeginum 24. mars til mánudagsins 4. apríl og var það afskaplega leiðinlegt en ég lét mig þó hafa það að fara til Newcastle enda farin að hressast. Svo þurfti bara Mimmi að fara sem Kjartan gat alls ekki skilið en gaf honum þó kveðjukort sem hann bjó til sjálfur. Svo er bara ekkert fyrir okkur Kjartan að gera nema að bíða eftir að hann komi aftur eftir þrjá mánuði.

Þann 18. mars var ansi merkilegur dagur. Þá varð litli bróðir minn 13 ára. Hugsa sér. Hann bauð vinum sínum í heimsókn og þar sem hann er í mínu herbergi meðan ég er úti fannst honum réttast að gera nokkrar breytingar. Hann tók því allar myndirnar mínar niður, já hann skammaðist sín fyrir myndir af sinni ástkæru systur og vinum hennar. Ég bara trúi þessu ekki. Gelgjan farin að segja til sín;)
Ég er í löngu páskafríi í skólanum, hann byrjar ekki aftur fyrr en 18. apríl. Ætti að nýta tímann til að æfa fyrir sýninguna.
Í dag eru nákvæmlega 3. vikur þar til elsku bestustu Inga og Lilja koma til mín. Hlakka svo til:)