fimmtudagur, júní 02, 2005

Allt að gerast hér í landi Skotanna. Í þessum töluðu (skrifuðu) orðum ætti Soffía að vera í flugvélinni á leiðinni til Íslands. Ég fór með henni, Önnu Vigdísi og Guðnýju út að borða í gær á alveg hreint frábæran stað þar sem við fengum pitsu á stærð við fíl. Engin af okkur gerðist svo fræg að klára pitsuna. Eftir máltíðinni fórum við í Tesco þar sem keyptur var ís í boði Önnu Vigdísar. Við héldum heim með ísinn og horfðum á Eiginkonurnar aðþrengdu. Að því búnu var bara komið að því að kveðja Soffíu en við stefnum að því að hittast aftur í ágúst. Þá ætlar Richard kallinn að koma til Íslands og við gerum öll eitthvað sniðugt:)

Á þriðjudaginn hitti ég svo nýja kennara minn í skólanum, hana Rachel sem mér leist rosalega vel á. Hún er svona lítil og brosmild og algjör stuðbolti. Hún virtist líka mjög fær og veit alveg hvað hún er að tala um. Rachel tók strax upp þráðinn þar sem Justin hætti, vorum að vinna í senunum sem að hann lét okkur fá síðast. Ég er að gera eina með Pam og eina með May. Mjög skemmtilegar senur úr "Senubók leikarans." Eftir tímann tóku Darran og Pam mig á eintal og vildu vita hvað ég ætlaðist fyrir með framtíðina. Þegar þau heyrðu að ég væri ekkert sérstaklega að plana leiklist fóru þau að þrýsta á mig og töluðu alvarlega um að ég yrði að fara að minnsta kosti eitthvað lengra með þetta því að þeirra mati hef ég hæfileika. Gott og blessað að fá hrós svosem.
Ég má heldur ekki gleyma að okkur í skólanum var boðið að fara í prufur fyrir stuttmyndir, einar þrjár, en það var bara eitt kvenmannshlutverk í boði. Myndir þessar eru gerðar af atvinnufólki og verða sýndar um allan heim á litlum kvikmyndahátíðum. Leitað var af stelpu á aldrinum 18-24 ára í hlutverk ungarar, fallegrar snótar. Þar sem ég var sú eina á réttum aldri þrýstu samnemendur mínir mikið á mig en ég ætla ekki í þessa prufu. Ef svo ólíklega vildi til að ég fengi hlutverkið þá eru tökur á óheppilegum tíma svo ég verð að bíða lengur eftir því að slá í gegn;)

Ég er á leiðinni í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri í haust. Ég er því komin með íbúð og nám en bráðvantar vinnu. Veit einhver um eitthvað, vill einhver ráða mig? Það væri sérstaklega óvitlaust ef einhver vissi um eitthvað tengt leiklist eða fjölmiðlun..