mánudagur, maí 30, 2005

Þá er liðin rúmlega vika síðan ég kom aftur til Edinborgar. Íslandsförin var bæði góð og erfið. Það var frábært að hitta alla mína yndislegu vini og ættingja. Ég náði að hitta alveg ótrúlega marga á þessum skamma tíma, skrapp meðal annars nokkrum sinnum í Menntaskólann og rifjaði upp gamla takta. Hafði ég lúmskt gaman af því verð ég að viðurkenna og deildi hreint áætri kennslustund með 2.A.
Því miður var tilgangur heimferðarinnar allt annað en skemmtilegur og að sjálfsögðu litaðist ferðin að því. Erfið jarðaför og mikil sorg sam ég gat þó deilt með ættingjum mínum. Við stóðum í þessu saman og það voru mörg knúsin sem við amma Nína skiptumst á. Það var gott að hafa allt þetta fólk í kringum sig og þessi samhugur var mér einstaklega mikilvægur. Vil ég nota tækifærið og þakka fyrir þá miklu hlýju og samúð sem mér og fjölskyldu minni hefur verið sýnd.

Tíminn á Íslandi leið ósköp hratt og fyrr en varir var ég komin aftur til Edinborgar með Kjartan minn í fangið. Ég fékk svo hlýjar móttökur hjá litla englinum að ég gat ekki annað en orðið mjög hrærð. Hann sagðist hafa saknað mín svo rosalega mikið og núna vill hann alltaf vera hjá mér. Hann hefur af því töluverðar áhyggjur að ég fari aftur en huggar sig með því að hann muni koma og búa hjá mér á Íslandi. Ég veit ekki hvaðan hann fékk þá flugu í höfuðið og enn síður veit ég hvernig ég á að útskýra fyrir honum að svo sé ekki.
Það var líka mjög gaman að hitta vini sína aftur og er ég búin að vera mikið með Evu, Soffíu og Malenu. Því miður mun Soffía yfirgefa Edinborg eftir 3 daga, Eva eftir 2 vikur og Malena eftir 5 vikur. Þetta er náttúrulega mjög leiðinlegt, ætla samt bara að hugsa um eina brottför í einu. Skrýtið að Soffía sé að fara, hún er fyrsta manneskjan sem ég kynntist hér, hún bjó á sama heimili og ég fyrstu vikuna. Það er búið að vera ómetanlegt að þekkja hana, hún tók mig upp á sína arma og kynnti mig fyrir vinum sínum. Við erum búnar að bralla margt skemmtilegt saman, þín verður sárt saknað Soffía mín.

Það eru fréttir úr skólanum. Justin og Crispin kennararnir mínir eru báðir hættir þar sem þeir fengu báðir vinnu við leikrit. Því fæ ég nýjan kennara í þessari viku sem er kona að nafni Rachel en Justin segir að hún sé mjög hæfileikarík. Anne kennarinn minn var ekki sátt þegar hún frétti að ég yrði ekki hér á Edinborgarhátíðinni þar sem skólinn minn verður með leikrit. Hún var sumsé með mig í huga fyrir ákveðið hlutverk. Ég viðurkenni að það er svolítið leiðinlegt að geta ekki tekið þátt í þessu sérstaklega þar sem ég missti af sýningunni okkar sem við höfðum æft fyrir í nokkra mánuði.
Ég er búin að vera ósköp áttavillt í sambandi við framtíðina. Hvað skal gera, hvar og hvenær? Það eina sem er komið á hreint er að ég og Styrmir erum komin með litla íbúð og ég er ósköp ánægð með það. Annars bauðst mér starf í dag, á leikskóla hér í borg...