Ég vaknaði upp við vondan draum í gær. Við vorum í umræðutíma í bókmenntafræði og allt í einu áttaði bekkurinn sig á því að það er próf á mánudaginn. Skyndilega varð bekkurinn samheldinn og við fórum að tala saman. Það hefur aldrei gerst fyrr og var á vissan hátt notalegt. Við deildum skelfingu okkar í sambandi við væntanlegt próf og trúðum hverju öðru fyrir því að við hefðum lítið sem ekkert lesið í norsku bókunum.
Svo hófst tíminn, ég var sérstaklega undirbúin og þurfti því að tala mikið. Ég fylltist öryggiskennd í þessum hópi sem nú ríkti áður óþekkt samheldni. Ég talaði því af miklum móð og fannst ég vissulega gáfuleg. Hvert orð var vandlega úthugsað, hver pæling djúp, já ég var á góðri siglingu. Við Svava Jakobsdóttir vorum sem eitt þangað til........
.... skellurinn kom. Ég ætlaði að segja: ,,...og Teddi var náttúrulega maðurinn í gráa jakkanum..." en mismælti mig herfilega. Ég blandaði saman grái og maðurinn og út kom: ,,... og Teddi var náttúrulega grað...."
Þau ætluðu aldrei að hætta að hlæja.