þriðjudagur, október 31, 2006

Ég vaknaði upp við vondan draum í gær. Við vorum í umræðutíma í bókmenntafræði og allt í einu áttaði bekkurinn sig á því að það er próf á mánudaginn. Skyndilega varð bekkurinn samheldinn og við fórum að tala saman. Það hefur aldrei gerst fyrr og var á vissan hátt notalegt. Við deildum skelfingu okkar í sambandi við væntanlegt próf og trúðum hverju öðru fyrir því að við hefðum lítið sem ekkert lesið í norsku bókunum.

Svo hófst tíminn, ég var sérstaklega undirbúin og þurfti því að tala mikið. Ég fylltist öryggiskennd í þessum hópi sem nú ríkti áður óþekkt samheldni. Ég talaði því af miklum móð og fannst ég vissulega gáfuleg. Hvert orð var vandlega úthugsað, hver pæling djúp, já ég var á góðri siglingu. Við Svava Jakobsdóttir vorum sem eitt þangað til........
.... skellurinn kom. Ég ætlaði að segja: ,,...og Teddi var náttúrulega maðurinn í gráa jakkanum..." en mismælti mig herfilega. Ég blandaði saman grái og maðurinn og út kom: ,,... og Teddi var náttúrulega grað...."

Þau ætluðu aldrei að hætta að hlæja.

fimmtudagur, október 26, 2006

Þá er ég farin að fá póst aftur. Var ekki búin að fá póst í tvær vikur og grunaði mig elskulega nágranna mína. Blessað fólkið á það til að taka dagblöðin okkar. Í þetta skipti voru þau samt saklaus. Líklega var nýr bréfberi hjá póstinum og hann einfaldlega nennti ekki að athuga hvort það væri kjallari á húsinu. Því voru öll bréf til okkar endursend. En nú er ég búin að tala við póstinn og fékk ég því bréf í dag. Vona bara að það verði ekki meiri vesen.

Nágrannarnir eru þó búnir að fá lánaðar nærbuxur hjá Styrmi. Þeir gleymdu þó alveg að spyrja um leyfi. Voru samt ekki gáfaðri en svo að þeir hengdu þær upp með öðrum þvotti sem þeir eiga. Verði þeim af því, Styrmir vill þær ekki aftur af einhverjum ástæðum.

Ég er búin að sjá Mýrina eins og flestir Íslendingar. Ég hins vegar held alveg vatni yfir þessari mynd þó flestir geri það ekki. Vissulega var myndin góð og margt gott um hana að segja. Baltasar hefur ákveðið að fylgja bókinni ekki alveg sem er allt í lagi. Ég á reyndar bágt með að skilja hvers vegna allir í myndinni heita sama nafni og í bókinni nema einn. Ef ég man rétt heitir sá sem ber nafnið Örn í myndinni Einar í bókinni. Ef einhver veit svarið má sá hinn sami gjarnan fræða mig.
Ég ætla ekki að fara út í myndina í smáatriðum, það eru ekki allir búnir að sjá. Get samt ekki orða bundist yfir hörmulegri frammistöðu Ólafíu Hrannar í hlutverki Elínborgar. Ég skil ekki þetta val. Hún Elínborg er sko ekki svona drusluleg, betur til höfð. En það er bara brot af hörmunginni, manneskjan lék svo illa að ég fékk alltaf hroll þegar hún byrjaði að tala.

Nóg af neikvæðni í bili. Heyrst hefur að leikklúbburinn Saga verði allur fyrir sunnan um helgina. Það þýðir vissulega partý. Ég þarf samt að læra svo mikið. Ætli ég taki þá ekki bara svona light djamm.

sunnudagur, október 22, 2006

Alvöru helgi. Ég afsannaði að ég væri of gömul til að djamma með stæl. Tilefnið var auðvitað afmæli Ástu hinnar síungu og hófst fjörið í húsi hennar. Þar var nóg af skemmtilegu fólki og svakalega góð bolla. Eftir að við Andri höfðum skipst á að kenna fólkinu leiklistarleiki og allir höfðu hellt í sig var haldið niður í bæ. Það var svona meiri háttar gaman. Vorum allan tímann á Celtic og smökkuðum alls konar drykki í boði ýmissa aðila. Þar var heilinn einna ljótastur. Þegar við Mimmi vorum að labba heim samferða hinni kátu Ger, áttuðum við okkur á því að klukkan væri að verða hálf sjö. Sofnuðum því ekki fyrr en um sjö og því erfitt að vakna daginn eftir. Takk allir samdjammarar fyrir snilldardjamm.

Daginn eftir drifum við Inga okkur í gönguferð í góða veðrinu og enduðum á Vegmótum þar sem við fundum þessar líka sætu stelpur, Ástu og Brynju. Ekki varð mikið úr lærdómi þennan dag.
Þar af leiðandi lærði ég í allan dag og kvöld en gaf mér samt tíma til að fara á rómantískt stefnumót með Steinari Á næstu grösum. Verkefnavikan er loks búin og stóru verkefnunum lokið í bili. Það verður fínt að byrja aftur á venjulegum skóladegi.
Vonbrigði helgarinnar var listamaðurinn Bobba. Hún var ekki alveg að standa sig.

Þeir sem vilja sjá ósköpin geta kíkt hér
Þetta er reyndar myndasíða Ingu, svo fyrst koma myndir frá haustferð Hertz. Njótið vel:)

miðvikudagur, október 18, 2006

Eins og margir vita brá ég mér norður um helgina. Sú ferð var mjög góð og tókst mér að gera um það bil allt sem ég ætlaði mér, nema þá helst læra. Fimmtudeginum eyddi ég í heimsóknir auk þess sem ég fór út að borða með föður mínum og bróður. Að vísu var gamli eitthvað aumur í ökklanum eftir fótbolta og kveinkaði sér því ógurlega. Það vakti þó ekki mikla athygli því freku drykkjusvolarnir á næsta borði fengu óskipta athygli, með því að vera nógu andskoti leiðinlegir.

Ég vaknaði á föstudeginum að farast úr spennu. Það var komið að því að kíkja á Pálmholt. Það var svo frábært að hitta börnin aftur. Ég fékk líka að heyra alls konar sögur frá kennurunum. Einn hafði hlakkað meira til að sjá mig um jólin en að fá pakka, mörg töluðu oft um hvað ég væri alltaf fínt klædd, ein stúlkan spurði kennarann sinn hvort hann ætti ekki pils og fleira og fleira. Ég var þarna í rúmlega þrjá klukkutíma. Ég las fyrir börnin, lék við þau, hjálpaði þeim í útifötin, huggaði þau ef þau meiddu sig. Þau sögðu mér hvað þau hefðu saknað mín mikið og spurðu erfiðra spurninga. Til dæmis: "Afhverju ertu hætt? Þú átt ekki að fara í skóla, Ég vil ekki að þú sért í Reykjavík, Verðuru hjá okkur í sumar?" og hjartað á mér kramdist örlítið meira við hverja spurningu. Tveir gullmolar sögðu mér að þeir hefðu farið í Auðarleik. Þegar ég spurði nánar útskýrðu þeir að hann væri mjög skemmtilegur og að það væri til þess að þeir gleymdu mér aldrei. Nokkur tár féllu þegar ég loksins fór og mér leið svolítið eins og glæpamanni. Til að jafna mig á þessu öllu fór ég með bróður mínum í bakarí og kaffihús og loks í klippingu. Um kvöldið fórum við svo ásamt gamla í kjötsúpu til ömmu og afa, ekki slæmt. Þá var komið að því að leikklúbburinn Saga sameinaðist á ný. Reyndar gátu Margrét og Kristjana ekki verið með þar sem þær voru í Reykjavík en afgangurinn mætti. Við ákváðum að fara á Karó en viti menn. Það er orðið 20 ára aldurstakmark þar. Sunna ákvað þá að bjóða okkur heim til sín og við röltum af stað. Þegar komum að húsinu fór Sunna allt í einu að velta fyrir sér hvernig hún ætti að koma bróður sínum út sem og partýgestum hans. Upp kom sú hugmynd að Vala væri að koma út úr skápnum og væri í krísu en Vala var ekki tilbúin að fórna sér í það. Að lokum ákvað Vala að fara inn grenjandi og læsa sig inn á klósetti meðan við hin stæðum grafalvarleg á svipinn og bönkuðum á hurðina. Vala fór inn en við vorum enn í hláturskasti fyrir utan og tókst ekki að vera alvarleg. Allt í einu kom Vala til baka og sagði að það væri læst á klósettinu. Þá sprungum við algjörlega en Vala tók sig til og fór að gráta hástöfum. Við hin tókum okkur saman í andlitinu og gengum inn. Ég og Steinar þóttumst hugga Völu meðan Sunna talaði við bróður sinn. Bróðirinn tæmdi húsið á meðan Sunna sagði alvarleg í bragði að það væri ekki allt í lagi með Völu, á meðan stakk hún hvítvínsflösku í kæli. Bróðirinn var svolitla stund að fara svo við biðum hlæjandi inn í herbergi. Að lokum fór hann og Sunna sagði hátíðlega "Þetta er ástæðan fyrir að maður gengur í leikfélag" Kvöldið var svo mjög gott, Salka og vinkona hennar komu sem og vinur Steinars. Við sátum og spjölluðum og sötruðum hvítvín. Það kom í ljós að ekki hafa allir meðlimir Sögu setið auðum höndum í sumar:)


Á laugardaginn kom Styrmir fljúgandi og ég horfði á helling af Andrésarþáttum. Um kvöldið fórum við í mat til tengdó í tilefni afmælis Örnu. Ég endaði svo kvöldið á bíóferð með Sunnu sem ætlar að koma í lok október. Svei mér þá ef það verða ekki allir meðlimir Sögu hér þá sem þýðir aðeins eitt. Partý gott fólk, þarf líka að fara halda eitt svoleiðis eftir að hafa frestaðð hinu. Svo keyrðum við bara suður á sunnudeginum og Steinar, þú ert mjög skemmtilegur ferðafélagi. Þið sem vissuð afhverju ég þurfti að fara norður (til að strekkja á spengunum) verðið eflaust glöð að heyra að þær eru farnar:)

Jæja, það er verkefnavika og ég er í vondum málum. Ljóðaritgerðin, hrollur...

miðvikudagur, október 11, 2006

Iss, ekki nenni ég að blogga þegar fólk nennir ekki að lesa. Þarna voru þið óheppnir lesendur góðir því ég luma á hnyttnum fróðleik, eða ekki.
Á morgun fer ég norður, heim.
Ég hlakka afskaplega mikið til.
Hitta kallana mína, Sindra og pabba.
Hitta börnin á Pálmholti, knúsa þau að kyssa.
Hitta vini og ættingja.
Ég er ömmustelpa, ég ræð bara ekkert við það.

fimmtudagur, október 05, 2006

Þá er það ákveðið, ekkert partý um helgina. Það er að segja ekki heima hjá mér. Fólk getur auðvitað ráðið því sjálft hvort það vill halda partý.
En til að helgin verði ekki glötuð ætla Lilja og Andri að koma í mat annað kvöld:) Ég efast ekki um að það verði mjög gaman hjá okkur og ætla ég að bjóða upp á króatískt hvítvín (sem ég vann í bingó.) Ég er ekki alvega búin að ákveða hvað á að vera í matinn samt. Svo ætlum við kannski að spila og viðhafa heimspekilegar samræður. Ég sé þetta alveg fyrir mér. Við Andri verðum í djúpum samræðum um íslenskt mál meðan Lilja og Mimmi horfa aðdáunar augum á okkur;)

Svo ætla ég bara að læra.

þriðjudagur, október 03, 2006

Þar sem síðasta færsla var svo niðurdrepandi ákvað ég að vera félagslynd seinni partinn af vikunni. Hef ég haldið þeirri iðju áfram þessa viku. Má þar nefna; Spilakvöld Lilju og Andra, mjög gaman, míní Sögu hitting, snilld, rómantíska ferð með kakó ásamt Ástu, Brynju og Styrmi, dásamlegt matarboð hjá Jónu frænku og skemmtilega kaffihúsaferð með Evu og Soffíu.
Í kvöld er ég svo að fara í kaffiboð til Ástu og á morgun ætla ég að horfa á nörda spila fótbolta.
Samt eru svo margir af mínum stórkostlegu vinum sem ég er að vanrækja að ég verð að bæta úr því.

Í dag er ég því ekki niðurdregin, ó nei! En ég er með eitt stórt SAMVISKUBIT. Það er svo mikið að læra og ég er svoooo langt á eftir að lesa. Já það er sannarlega erfitt að gera manni til hæfis.
Þá er gott að hafa kókópöffs. Kókópöffs er komið aftur með gamla góða bragðinu. Það er fullt af járni og skuggalega gott. Nú þarf ég aldrei að elda, kókópöffs í öll mál. Svo kosta núðlur í Bónus bara 4 krónur, hef þær stundum líka.
Ætli ég geti fengið borgað fyrir þessa auglýsingu?

Spurning dagsins er; Á ég er fresta innflutningspartýinu sem ég ætlaði að hafa um helgina? Það er ljóðaritgerð framundan og ég hef mjög fáa daga fyrir hana þar sem ég fer norður eftir rúma viku. Líf mitt er svo flókið.