fimmtudagur, júlí 28, 2005

Ég er komin aftur. Hefði samt alveg verið til í að vera mikið lengur, þetta voru bara 3 dagar.
Byrjaði á að fara til Svövu og Kims sem að náðu í mig á flugvöllinn þessar elskur. Húsið þeirra er ekkert smá flott, þau keyptu það ekki alls fyrir löngu og eru búin að gera það upp, með virkilegu góðum árangri.
Við áttum notalega tvo daga og þrjú kvöld, fórum ekki mikið út úr húsinu en vorum dugleg að spila og það var virkilega gaman. Svava var svo ánægð með mig að ég held að hún sé að hugsa um að ráða mig sem au pair;)
Í nýja húsinu er hvorki meira né minna en bar og pool borð og eyddum við eins og einu kvöldi þar, ekki slæmt. Það var svo leiðinlegt að fara, við Svava erum alltaf jafn góðar vinkonur, búnar að þekkjast í 14 ár og við getum ekki hugsað okkur annað en að hittast á hverju ári. Bæði Svava og Kim voru að reyna að fá mig til að flytja til Danmerkur en í bili er það Íslandið sem heillar mig. Laxi og Kim, þakka ykkur fyrir þennan góða tíma, frábæra mat og skemmtunina, sjáumst fljótt:*

Eftir að ég kvaddi þau skötuhjú var komin tími til að taka lestina til Horsens þar sem býr ekki ómerkara fólk en Hemmi, föðurbróðir minn (alltaf jafn asnalegt orð yfir svo ungan mann), Freyja og sætu stelpurnar þeirra Hanna og Hildur. Þau reyndust búa við fallega og mjög barnvæna götu. Þrátt fyrir að bærinn sé stór á íslenska vísu finnur maður ekki fyrir því í götunni þeirra. Frá einni hlið er útsýnið eins og maður sé komin út í sveit, virkilega notalegt.
Ég var þriðji næturgesturinn hjá þeim en það reddaðist allt, ég svaf inni hjá Hönnu og segir mér svo hugur að hún hafi ekki verið ósátt við það. Við lékum alllan daginn, fórum í mömmó, lituðum, pússluðum, lásum og fórum á róló. Mér fannst ég ekkert svo ryðguð í stelpuleikjunum þrátt fyrir allt. Hildur fékk ekki eins mikið að vera með okkur þar sem sumir vildu fá athygli;) Gat þó aðeins spjallað við litlu rúsínuna.
Um kvöldið fékk ég að bursta tennurnar í Hönnu, lesa og syngja fyrir hana og hún fékk að sofa upp í hjá mér. Það gekkk samt erfiðlega að sofna þar sem að hún var svo spennt að bíða eftir að ég kæmi.
Um morgunin þurfti ég svo að vakna eldsnemma til að taka lestina. Um leið og ég reisti höfuðið frá koddanum spratt Hanna upp, hún vildi sko koma með pabba sínum að keyra mig á lestarstöðina. Svo þurfti ég að kveðja eftir aðeins einn dag, alltof stutt samvera og ég á ekki eftir að sjá þau aftur fyrr en eftir ár, sem er þyngra en tárum taki. Ég þakka þeim fyrir mig og góðar móttökur, sérstaklega Hönnu sem var ékki óspör á knúsin.

En já góðir hálsar, það er komin dagsetning á heimkomuteitið ógurlega. Mun það haldast 6. ágúst (ég á virkilega eftir að sakna þín þar Hildí) og ég vona að allir sjái sér fært að mæta. Tími verður auglýstur síðar.
Talandi um teiti, fólkið í skólanum er að skipuleggja út að borða og djamma á föstudagskvöldið svona kveðjuathöfn fyrir mig, Það verður mjög ágætt, ég hef ekki svo mikið að gera hérna, þar sem allir hafa yfirgefið mig.
Að lokum: Orðspor mitt spyrst út hratt, ég hef verið beðin að passa þrjú ókunn börn (elsta 4. ára) hjá fjölskyldu sem ég þekki ekkert, Sarah á neðri hæðinni mælti svo gríðarlega með mér. Þó mér þyki börn yndisleg var ég eiginlega fegin að þetta er á föstudagskvöldið svo ég get ekki passað. Þrjú alveg ókunn börn yfir nótt finnst mér fullmikið. En gott að vita að fólk sé ánægt með mig.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Hann Harry. Ég veit ekki hvað segja skal. Segja skal sem minnst þar sem það eru fáir búnir að lesa bókina. Kannski ætti ég að vara hina við, ekki lesa bókina, þið viljið ekki vita hvað gerist... En samt jú lesið bókina, mig vantar einhvern til að tala við um gang mála.

Á morgun, gott fólk mun ég halda á vit ævintýranna í Danaveldi. Þar mun ég finna eitt stykki frábæra vinkonu og kærasta hennar og mun dvelja hjá þeim þrjár nætur. Eftir það mun ég dvelja eina nótt hjá stórskemmtilegu frændfólki mínu, þar af 2. litlum, ljóshærðum prinsessum:) Mikið hlakka ég til.

Um síðustu helgi fór ég ásamt Mimma á ættarmótið góða og var mér ekki útskúfað, að ég held. Þótti mér það all undarlegt þar sem ég var svarti sauðurinn, dökkhærð og brúneygð innan um allt þetta ljóshærða og bláeygða fólk. Þetta var frábær helgi á mjög þægilegum litlum stað í Skotlandi í félagsksaps notalegs fólks.

Greyið litli Kjartan minn þurfti svo mikið að skæla í gær af því Mimmi var að fara og "kemur aldrei aftur" (nema við skreppum í heimsókn) Svo þegar hann var búin að jafna sig á því þurfti hann að skæla heilan helling í viðbót af því hann gerir sér grein fyrir að það er stutt í að ég fari. Í dag spurði hann svo hvort hann mætti ekki koma með til Danmerkur, litli snúllinn minn.

P.S. Í neyðartilviki þá er ég með íslenska númerið mitt úti. Góða ferð ég..

mánudagur, júlí 11, 2005

Áhuginn á þessu heimkomupartýi virðist vera um það bil enginn. Sorry Lugure, það er útlit fyrir að við verðum bara tvær.
Það er svo heitt í Edinborg að það er ekki líft hér, Hitinn nálægt 30 stigum, steikjandi sól og logn. Meira að segja ég er farin að brúnast töluvert.
Síðasta vika er búin að vera ósköp einmannaleg því hún Malena mín fór. Það var svo leiðinlegt og erfitt en við skemmtum okkur ágætlega síðustu kvöldin. Fórum á pöbba og fengum enn frekari sönnun á því hvað Skotar eru misheppnaðir hösslerar, æ, æ. Malena ætlar að koma til mín í heimsókn næsta sumar, það verður frábært, hún er æði:)
Átti reyndar eitt skemmtilegt kvöld í vikunni. Fór í bíó með Pammie úr skólanum mínum og spjall á eftir. Það var mjög fínt, maður fann ekkert fyrir aldursmuninum, en hún er 12 árum eldri en ég. Ætli það sé svona að vera fullorðin...?
Styrmir kíkir við á miðvikudaginn og við förum á ættarmót um helgina. Já ég hlakka til, og nei hann kemur ekkert oft.

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Jæja, nú er mánuður í heimkomu og þessvegna ekki seinna vænna en að fara að setja dagsetningu á heimkomupartýið góða. Lugure, sá elskulegi frændi hefur aðal umsjón með þessu partýi og er það því í traustum höndum. Ég spyr, hvort hentar ykkur öllum betur, helgin 5-6 ágúst eða helgin 19-20 ágúst. Verið ófeimin við að segja ykkar skoðun, mun halda það þá helgi sem fleiri komast. Og ef þú ert að velta fyrir þér hvort þér sé boðið, þá geturu hætt því! Því auðvitað er þér boðið:)

sunnudagur, júlí 03, 2005

Börn, þau eru ósköp indæl. Ég veit varla hvað ég á við mig að gera því í dag er ég í fyrsta skipti í fríi síðan á miðvikudaginn. Var með Kjartan eins og venjulega á fimmtudaginn og aðeins Helgu og Sæmsa. Um kvöldið passaði ég Helgu og Sæmsa og daginn eftir var ég með þau öll þrjú, því Habbý og Simon fóru til London. Um morgunin var ég bara ein með Helgu, meðan strákarnir voru á leikskólanum. Habbý sagði mér að Helga hefði vaknað á fimmtudagsnóttina því hún hefði verið svo spennt fyrir að fá að vera ein með mér:) Við náðum svo í strákana klukkan 1. og ég reyndi að halda upp aga og reglu til klukkan 6. Þá kom Elsa (vinkona Habbýjar) að sækja Helgu því Helga gisti hjá henni. Ég fór með strákana heim til okkar Kjartans og var að passa þá til rúmlega miðnættis. (Kristján og Ingibjörg skruppu á Coldplay tónleika) Þeir voru bara örlítið óþekkir, kom þeim á endanum í rúmið.
Á laugardaginn var ég komin út um 8, var á leið að sækja Helgu til Elsu og passa hana þar til Simon kæmi heim. Ég var að verða komin út á strætóstöð þegar Ingibjörg hringdi, Sæmsi vildi sko vera hjá Auði sinni. Ég fór því til baka og við fórum svo að sækja Helgu og var ég með þau til rúmlega 2. Helga sagði pabba sínum að dagurinn með mér hefði verið besti dagur ævi sinnar. Og voru þau systkin ekki sátt með að ég væri að fara.
Þegar heim var komið fór ég í smá heimsókn til hjónanna niðri þar sem ég var að fara að passa baby Boris og Bea um kvöldið. Ég endaði á að vera í klukkutíma að leika við börnin en svo dreif ég mig upp og hafði tvo tíma fyrir sjálfa mig. Að því búnu fór ég niður aftur og passaði litlu krúttin. Þau eru svo sæt, Bea alltaf með puttann upp í sér og Boris nýbyrjaður að hjala. Þetta gekk svona líka vel, fékk Bea til að fara að sofa með því að segja henni að hugsa um Cinderellu, (lásum þá bók) að vísu heyrði ég hana tala við Cinderellu í svona hálftíma (þvílíkt sætt) áður en hún loksins sofnaði. Boris vaknaði bara einu sinni en sofnaði fljótt aftur eftir að ég gaf honum pela.
Sarah og Karl komu svo heim hálftvö og ég fór beint upp til mín að sofa. Vaknaði svo í dag og er enn að átta mig á því að ég sé í fríi. Ætla að nota daginn til að gera e-ð skemmtilegt með elsku Malenu minni sem er alveg að fara.

Þetta er svona helsta sem hefur á daga mína drifið. Ég fékk rosalega góðar móttökur hjá Kjartani sem knúsaði mig allan miðvikudaginn og sagðist hafa verið sondið leiðuð í fríinu sínu af því hann saknaði mín vosa mikið. Um kvöldið setti ég hann í rúmið og hann klessti litlu bollukinnina sína fast upp að minni kinn og knúsaði mig svo fast að ég hélt ég myndi kafna. "Ég saknaði þín líka Kjartan minn." sagði ég. "Ég saknaði þín meira." sagði hann. Aumingja litla hjartað mitt er alveg í klessu, það verður svooooo erfitt að fara frá þessu barni.