Ég er komin aftur. Hefði samt alveg verið til í að vera mikið lengur, þetta voru bara 3 dagar.
Byrjaði á að fara til Svövu og Kims sem að náðu í mig á flugvöllinn þessar elskur. Húsið þeirra er ekkert smá flott, þau keyptu það ekki alls fyrir löngu og eru búin að gera það upp, með virkilegu góðum árangri.
Við áttum notalega tvo daga og þrjú kvöld, fórum ekki mikið út úr húsinu en vorum dugleg að spila og það var virkilega gaman. Svava var svo ánægð með mig að ég held að hún sé að hugsa um að ráða mig sem au pair;)
Í nýja húsinu er hvorki meira né minna en bar og pool borð og eyddum við eins og einu kvöldi þar, ekki slæmt. Það var svo leiðinlegt að fara, við Svava erum alltaf jafn góðar vinkonur, búnar að þekkjast í 14 ár og við getum ekki hugsað okkur annað en að hittast á hverju ári. Bæði Svava og Kim voru að reyna að fá mig til að flytja til Danmerkur en í bili er það Íslandið sem heillar mig. Laxi og Kim, þakka ykkur fyrir þennan góða tíma, frábæra mat og skemmtunina, sjáumst fljótt:*
Eftir að ég kvaddi þau skötuhjú var komin tími til að taka lestina til Horsens þar sem býr ekki ómerkara fólk en Hemmi, föðurbróðir minn (alltaf jafn asnalegt orð yfir svo ungan mann), Freyja og sætu stelpurnar þeirra Hanna og Hildur. Þau reyndust búa við fallega og mjög barnvæna götu. Þrátt fyrir að bærinn sé stór á íslenska vísu finnur maður ekki fyrir því í götunni þeirra. Frá einni hlið er útsýnið eins og maður sé komin út í sveit, virkilega notalegt.
Ég var þriðji næturgesturinn hjá þeim en það reddaðist allt, ég svaf inni hjá Hönnu og segir mér svo hugur að hún hafi ekki verið ósátt við það. Við lékum alllan daginn, fórum í mömmó, lituðum, pússluðum, lásum og fórum á róló. Mér fannst ég ekkert svo ryðguð í stelpuleikjunum þrátt fyrir allt. Hildur fékk ekki eins mikið að vera með okkur þar sem sumir vildu fá athygli;) Gat þó aðeins spjallað við litlu rúsínuna.
Um kvöldið fékk ég að bursta tennurnar í Hönnu, lesa og syngja fyrir hana og hún fékk að sofa upp í hjá mér. Það gekkk samt erfiðlega að sofna þar sem að hún var svo spennt að bíða eftir að ég kæmi.
Um morgunin þurfti ég svo að vakna eldsnemma til að taka lestina. Um leið og ég reisti höfuðið frá koddanum spratt Hanna upp, hún vildi sko koma með pabba sínum að keyra mig á lestarstöðina. Svo þurfti ég að kveðja eftir aðeins einn dag, alltof stutt samvera og ég á ekki eftir að sjá þau aftur fyrr en eftir ár, sem er þyngra en tárum taki. Ég þakka þeim fyrir mig og góðar móttökur, sérstaklega Hönnu sem var ékki óspör á knúsin.
En já góðir hálsar, það er komin dagsetning á heimkomuteitið ógurlega. Mun það haldast 6. ágúst (ég á virkilega eftir að sakna þín þar Hildí) og ég vona að allir sjái sér fært að mæta. Tími verður auglýstur síðar.
Talandi um teiti, fólkið í skólanum er að skipuleggja út að borða og djamma á föstudagskvöldið svona kveðjuathöfn fyrir mig, Það verður mjög ágætt, ég hef ekki svo mikið að gera hérna, þar sem allir hafa yfirgefið mig.
Að lokum: Orðspor mitt spyrst út hratt, ég hef verið beðin að passa þrjú ókunn börn (elsta 4. ára) hjá fjölskyldu sem ég þekki ekkert, Sarah á neðri hæðinni mælti svo gríðarlega með mér. Þó mér þyki börn yndisleg var ég eiginlega fegin að þetta er á föstudagskvöldið svo ég get ekki passað. Þrjú alveg ókunn börn yfir nótt finnst mér fullmikið. En gott að vita að fólk sé ánægt með mig.
<< Home