miðvikudagur, apríl 27, 2005

Það leið ekki yfir mig þegar ég hóf upp mína titrandi rödd í söngnum í gær. Mikið var þetta samt erfitt. Ég ákvað að syngja Maístjörnuna og tókst það alls ekki illa. Justin vildi að ég reyndi að túlka fyrir þau með því að setja tilfinningar í röddina því þau skildu vitanlega ekki textann. Mér virtist takast ágætlega að fara að bón hans þar sem að hann sagði að þetta hefði verið frábært og það væri svo mikil grace yfir þessu hjá mér. Já já þegar uppi er staðið var þetta bara skemmtilegt, við fórum öll á barinn á eftir og ræddum um flutning hvers annars.

Síðasta helgi reyndist hreint ágæt, ég og Malena vorum einstaklega hjálplegar heima hjá Richard, ísskápurinn hans var yfirfullur svo að við vorum duglegar að hjálpa honum að tæma hann;) Ég var einnig svo heppin að hitta foreldra Evu sem voru hér í heimsókn og reyndust þau vera vænsta fólk.

En jæja núna ætla ég að fara að koma mér því elsku bestu Ger og Lugure eru að fara að lenda. Það verður án efa skemmtilegt að hafa þær í heimsókn, myndavélin skal brúkuð sem aldrei fyrr:) Habbý var svo elskuleg að lána okkur húsið sitt um helgina þar sem hún og fjölskylda hennar verða í burtu, þetta verður frábært.
Ætla að enda þetta á enn einum gullmolanum frá Kjartani "Auður þessi hundur getur ekki pissað ve hann er ekki með typpi og ekki með brjóst."

laugardagur, apríl 23, 2005

Síðastliðin vika er búin að vera full af undarlegum atburðum. Að minnsta kosti er ég ekki vön að sjá hund á stærð við hross, lögreglumann á hesti á rólegu brokki í götunni minni og þurfa að hlusta á ævisögu eldri konu. Og ekki hefur vikan heldur verið alveg laus við ástarjátningar og bónorð. Þannig er mál með vexti að Sæmsi labbaði upp að mér þegar ég var að ná í Kjartan á leikskólann og sagði "I love you and I wanna marry you." Að hans mati er þetta þá allt ákveðið og þegar ég var að passa hann um síðustu helgi neitaði hann algjörlega að sofna nema ég svæfi upp í hjá honum.
Malena var svo elskuleg að passa með mér þetta kvöld og eftir að Habbý kom heim fórum við út á lífið. Þar vorum við vitanlega ekki látnar í friði og tjáði mér ungur maður að ég væri ástin í lífi hans og hann hefði verið að leita að mér alla ævi. Ég sendi honum milt augnráð með þeim skilaboðum að hann ætti að láta mig í friði ef hann vildi halda lífi. Það er greinilegt að æfingar okkar Malenu á skoskum framburði skilaði árangri því allir héldu að við værum frá Skotlandi eða Írlandi. Það gekk einn svo langt að trúa alls ekki að ég væri frá Íslandi og var honum sagt á afar kurteislegan hátt að bíta í sig.

Skólinn byrjði loksins aftur á mánudaginn og þvílík sorg. Við ætlum að setja upp leikrit í alvöru leikhúsi á Edinborgarhátíðinni og hvar verð ég? Nema auðvitað á Íslandi, bömmer. Núna er ég bæði með Justin og Crispin í leiklist og kom Justin með þá "skemmtilegu" hugmynd að við eigum að standa upp og syngja einsöng fyrir framan alla í næsta tíma. Tilhugsunin ein er nóg til að allt blóð hverfi úr líkama mínum og svimi geri vart við sig. Veit ekki hvað ég á að syngja nema að ég ætla að velja eitthvað íslenskt, hugmyndir? Helst eitthvað auðvelt þar sem ég á eftir að verða örlítið stressuð. Eins og þetta sé ekki nóg þá eru 9 hættir í skólanum og þar á meðal Dana. Við ætluðum að vera með samlestur á sýningunni okkar 14. maí en nú er það ekki hægt. Justin ákvað þá að ég ætti að vera með Darren sem missti líka félaga sinn en ég þarf að gera það sem þau ætluðu að gera. Því þarf ég að lesa Shakespeare leikrit fyrir næsta tíma og svo þarf ég að læra allt mitt, skilja þetta allt saman og læra að skilja og þekkja karakterinn minn, sumsé ég er dauðadæmd.

Á fimmtudaginn biðu mín skilaboð frá póstinum um að þeir hefðu komið með tvo pakka til mín. Það var enginn heima svo að þeir skildu eftir skilaboð með heimilisfangi og símanúmeri. Málið er að heimilisfangið er ekki til á korti og enginn kannast við það og það svarar aldrei neinn í símann. Ég er því vægast sagt pirruð á þessu máli og veit ekki hvernig ég á að nálgast þessa pakka.
Jæja best að fara að gera eitthvað. Ég fer út í kvöld þar sem Malena Mina Johanna varð tvítug á miðvikudaginn og við ætlum að fagna þeim atburði. Svo eru aðeins fjórir dagar þar til Gerí skerí og Lugure frændi koma til Edinborgar, ég hlakka svo til:)

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Dagarnir líða hér í Edinborg sem og annarstaðar. Við Kjartan erum alltaf jafn góðir vinir en litli kúturinn er orðinn hræddur um að missa mig. Hann kom inn í herbergi mitt einn daginn og skreið upp í rúm til mín. Svo hann horfði hann á mig stórum augum og þetta samtal fór fram:
K: (Sorgmæddri röddu) "Hvenær ferð þú Auður?"
A: (Flóttalega) "Fer hvert, hefur einhver verið að tala um það?"
K: "Þú ferð aftur til Íslands ve ég veit."
A: (Vandræðileg) "Ja jú en það er ekki strax, bara þegar sumarið er búið, hafðu ekki áhyggjur af því."
K: (Neðri vörin farin að skjálfa ískyggilega og nokkur tár skína í gegnum ásakandi augnaráðið) "Vilt þú ekki passa mig lengur?"
Mér leið eins og illmenni undan þessari yfirheyrslu en fullvissaði hann um að auðvitað vildi ég passa hann og svo eyddi ég talinu. Ef hann hefði haldið áfram lengur hefði ég líklega lofað að vera hér í tuttugu ár til að hann tæki gleði sína á ný.
Í gær vorum við svo að skoða myndir sem ég kom með að heiman. Kjartan skemmti sér býsna vel við að nafgreina þá sem hann þekkti en skyndilega stoppaði hann við mynd af mér og starði góða stund. Ég spurði hvort honum líkaði myndin og hann sagði: "Já, þú ett voða pretty."

Ég er að verða óþolinmóð að bíða eftir að skólinn byrji. Meira en heill mánuður í frí og ég hef ekki nýtt tímann nógu vel til að æfa mig. Er líka hrædd um að ég fái Justin sem kennara á þessari önn, hann er fínn en mér líkar bara mun betur við Crsispin. Ég tek frekar undir hans hugmyndir, Justin er svolítið undarlegur. En þetta kemur allt í ljós á mánudaginn, það verður gaman að hitta "krakkana" aftur.
Hún Sóla mín hringdi í mig í gær alveg óvænt. Það var alveg frábært að fá svona símtal og yndislegt að heyra í henni. Það eru nefninlega bara nokkrir sem hringja í mig reglulega og er ég mjög þakklát þeim aðilum. Málið er að ég býst aldrei við að heyra frá neinum öðrum. Svo Sóla mín, takk fyrir að hringja:*

Síðustu vikuna hef ég haft það ágætt. Um helgina eyddi ég föstudagskvöldinu hjá Soffíu og laugardagskvöldinu hjá Evu. Soffía og ég hlustuðum á júróvísjon á netinu, maður verður nú að vera inn. Erum þegar farnar að geta sungið með íslenska laginu;) Kvöldið með Evu fór nú bara í leti og svo kom hún Malena til okkar. Horfðum á myndir á breiðtjaldinu og átum nammi.
Svo höfum við Malena verið mikið saman síðustu daga. Erum alltaf að æfa okkur að vera með sem ýktastan skoskan framburð og finnst okkur við frekar sniðugar;) Erum líka duglegar í hlutverki fátæklinga. Við erum báðar auralausar um þessar mundir en við eyðum í nauðsynjar. Förum í Sainsburys og kaupum okkur súkkulaði á 30 kr íslenskar. Svo förum við á kaffihús og höngum þar, kaupum einn kaffibolla og erum ánægðar með lífið. Líður svolítið eins og fátækum námsmanni, eða jafnvel listamanni:)

Ég ætla að fara að hætta þessu, það bíða mín skyrtur til að strauja. Hrós gærdagsins fær Richard, því hann las bloggið mitt og skyldi eitthvað í því. En tvöfalt hrós fær Andri frændi minn, 12 ára, (næstum 13) fyrir þessa færslu. Ég hvet alla til að kíkja!

mánudagur, apríl 11, 2005

Það var aldrei ætlunin að hafa þessa síðu á persónulegu nótunum. Hún hefur þjónað tilgangi sínum hingað til, að segja frá því sem daga mína drífur fjarri heimabyggð.
Síðustu daga hefur aðeins eitt verið í huga mér. Lífið getur breyst á óskiljanlegan og sársaukafullan hátt á aðeins sekúndubroti. Sem betur fer breyttist líf mitt ekki þannig á laugardaginn. Styrmir, unnusti minn var farþegi í bíl sem fór út af veginum og velti marga hringi. Að lokum stoppaði hann á hvolfi. Hann Mimmi minn og hinir sem í bílnum voru sluppu ómeiddir. Þeir voru í bílbeltum og það bjargaði lífi þeirra. Ég er svo þakklát fyrir það að ekki skyldi fara verr og segja sjónarvottar að ótrúlegt sé að þeir hafi sloppið svona vel. Ég er þakklát fyrir að allir þeir hlutir sem hefðu getað farið úrskeiðis gerðu það ekki. Ég er þakklát Styrmi fyrir að hafa sett á sig beltið, eitt handtak sem við eigum öll að muna eftir. Þessvegna slapp hann með mar og smá eymsli. Það er sárt að geta ekki faðmað hann, fullvissað mig um að allt sé í lagi. En það sem hræðir mig mest og það sem ég á erfitt með að hætta að hugsa um er, hvað ef?

sunnudagur, apríl 10, 2005

Ég er loksins búin að setja inn MYNDIR. Þær eru hér til hliðar fyrir neðan gestabók. Þetta eru þær myndir sem ég hef tekið eftir áramót því hinar eru í tölvunni á Íslandi. Hér má meðal annars finna Londonarferð og afmælið mitt. Njótið vel elskurnar:)

föstudagur, apríl 08, 2005

Það eru 222 dagar síðan ég flutti til Edinborgar. Hélt kannski að ykkur langaði að vita það.

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Ég trúi ekki eigin óheppni. Newcastle var búið að vera á góðri siglingu, ekkert tap í síðustu níu leikjum og það voru 11 heimaleikir síðan þeir höfðu tapað. Ég var því í glimrandi góðu skapi þegar ég, Richard og Soffía keyrðum inn í Newcastle í sólina og 16 stiga hitann. Ég fór með Richard og stóð hjá honum meðan hann skráði okkur inn í Hilton hótel og brosti sakleysislega. Soffía beið fyrir utan þar sem áætlunin var að vera þrjú í tveggja manna herbergi. Svo var haldið á leikinn og við komum okkur fyrir í sætunum okkar eins og rúmir 50.000 aðrir. Eitt er víst, ég gleymi aldrei þeirri tilfinningu þegar þulurinn kynnti að númer níu væri kapteinn Shearer og allt trylltist af fögnuði. Mikið vildi ég ekki vera númer 10 í Newcastle, ekki gaman að koma beint á eftir goðinu.
Leikurinn byrjaði og ég sat þarna spennt og glöð í um 3 mínútur, Þá skoraði Aston Villa. Ég grét í hljóði en herti mig upp og horfði á leikinn og sá Newcastle næstum skora um það bil 20 sinnum. Aston Villa fengu ekki fleiri færi í fyrri hálfleik. Því miður tókst Newcasle ekki að skora í fyrri hálfleik og ekki í seinni hálfleik heldur. Seinni hálfleikur var ótrúlegur, er enn ekki búin að átta mig á þessu. Tvisvar áttu Newcastle að fá víti, það gerðist ekki. Einu sinni átti Aston Villa að fá víti en þeir fengu tvisvar og skoruðu í bæði skiptin. Newcastle missti mann útaf og svo... slagurinn. Ég trúði ekki mínum eigin augum, Bowyer réðst á Dyer (fyrir þá sem ekki vita eru þeir báðir í Newcastle) og sá síðarnefndi reyndi að verja sig í fyrstu. En þegar höggin héldu áfram fór hann að slá á móti. Leikmenn dróu þá í sundur, þar var Shearer fremstur í flokki auðvitað, og báðir fengu þeir rautt spjald. Newcastle voru þá orðnir átta gegn ellefu en ekki nýttu Villa menn sér það. Enda virtust þeir ófærir um spilamennsku, eitt skot að marki og svo víti. Stuðningsmenn Villa æptu á okkur Newcastle menn sigrihrósandi og ég fann fótboltabulluna vakna í mér. Hefði ekkert haft á móti því að rjúka í þá. Ég hélt þó aftur að mér og við fórum og fengum okkur kínverskan mat, Soffía og Richard gerðu sitt besta til að hughreysta mig.
Ég ákvað að láta huggast og við fórum í Tesco og keyptum okkur smá fordrykk, sigldum því næst inn á Hilton og komumst vandræðalaust þrjú inn í herbergið. Svo fórum við út á lífið, næturlífið í Newcastle er með því frægasta hér á Bretlandi og það var vægast sagt gaman hjá okkur. Við fórum á nokkra bari og klúbba, á flestum stöðum var verið að sýna leikinn og við skeggræddum við mann og annan um gang mála. Ég leit ógnandi í kringum mig öðru hverju, var einhver stuðningsamður Villa nálægt? Nei, það leit út fyrir að þeir hefðu allir hypjað sig heim. Enduðum á mjög skemmtilegum klúbbi, þar sem þeir voru með dansara við sum lögin, það var mjög flott og við Soffía misstum okkur aðeins á dansgólfinu, enda þóttum við án efa bera af;) Það spurði mig einhver hvort ég væri frá Skotlandi, ég varð afskapleg glöð þar sem framburðurinn hjá mér er ekkert skoskur því miður. Ég sagði auðvitað "Aye, aye."
Þegar staðurinn lokaði fórum við og fengum okkur pitsu og svo var ekki annað eftir en að smygla sér inn á hótel. Soffía fór fyrst, hún fékk annan lykilinn og komst inn með því að sýna hann. Svo fórum við Richard, ég setti vitanlega upp sakleysis svipinn og við flugum inn. Frábært kvöld:)
Daginn eftir skoðuðum við borgina sem er falleg í frábæru veðri og keyrðum svo heim. Þó ekki áður en ég hafði keypt mér peysu, svarta með bleikum ermum, á henni stendur Newcatle United. Féll alveg fyrir henni í Newcastle búðinni, maður styður sína menn þó illa gangi. Svipaðist um eftir Shearer, tilbúin að fá eiginhandaráritun en hann virðist ekki hafa verið á göngu í góða veðrinu. Í bakaleiðinni skruppum við smá stund í heimabæ Richards sem er lítill og fallegur.

Ég nenni því miður ekki að skrifa langa grein um það sem á daga mína dreif í bloggleysinu. Það sem stendur upp úr er auðvitað að hann Mimmi minn var hér sem var náttúrulega best. Fyrri vikuna var ég frísk og við gerðum skemmtilega hluti eins og fara í Ghost tour, labba Royal mile, kíkja á pöbba og í bíó. Seinni vikuna var ég veik og aftur veik og aðeins meira veik og þá gerði ég ekkert nema liggja í rúminu sárkvalin. Missti til dæmis af partýinu í skólanum og svo ætluðum við Mimmi í dagsferð til Pitlochry sem ég komst ekki í. Var veik frá fimmtudeginum 24. mars til mánudagsins 4. apríl og var það afskaplega leiðinlegt en ég lét mig þó hafa það að fara til Newcastle enda farin að hressast. Svo þurfti bara Mimmi að fara sem Kjartan gat alls ekki skilið en gaf honum þó kveðjukort sem hann bjó til sjálfur. Svo er bara ekkert fyrir okkur Kjartan að gera nema að bíða eftir að hann komi aftur eftir þrjá mánuði.

Þann 18. mars var ansi merkilegur dagur. Þá varð litli bróðir minn 13 ára. Hugsa sér. Hann bauð vinum sínum í heimsókn og þar sem hann er í mínu herbergi meðan ég er úti fannst honum réttast að gera nokkrar breytingar. Hann tók því allar myndirnar mínar niður, já hann skammaðist sín fyrir myndir af sinni ástkæru systur og vinum hennar. Ég bara trúi þessu ekki. Gelgjan farin að segja til sín;)
Ég er í löngu páskafríi í skólanum, hann byrjar ekki aftur fyrr en 18. apríl. Ætti að nýta tímann til að æfa fyrir sýninguna.
Í dag eru nákvæmlega 3. vikur þar til elsku bestustu Inga og Lilja koma til mín. Hlakka svo til:)

laugardagur, apríl 02, 2005

Ég skulda lesendum þessarar síðu langt blogg, og það mun koma, bara ekki í dag... Því ég er að fara til Newcastle!! Ég legga af stað eftir 10 mínútur og eftir um 5 klukkutíma verð ég að horfa á ekki minni mann en Alan Shearer hlaupa eftir vellinum í peysu númer níu og vonandi að þrusa boltanum í netið. Hann er reyndar hættur við að hætta eftir þetta tímabil, en engu að síður er þetta líklega síðasta tækifærið mitt til að sjá hann. Reikna ekki með að eiga leið um Bretland á næsta ári. Samferðarmenn mínir verða Richard og Soffía. Richard ætlar að keyra og við ætlum að gista eina nótt í Newcastle. Það mun því gefast gott tækifæri til að kanna næturlíf borgarinnar, bara einn galli, ég er veik. En hvaða máli skiptir það, ég er að fara að sjá Newcastle spila. Áfram Shearer:)