miðvikudagur, mars 16, 2005

Ég er komin aftur í samband við netheiminn. Já og svo er ég komin í símasamband líka, nýja númerið er 0044 131 4660474. Það er margt búið að gerast á liðinni viku. Þar ber fyrst að nefna þann sorgarviðburð að Johanna yfirgaf okkur. Ég, hún, Eva og Malena fórum út síðasta kvöldið og var mjög erfitt að kveðja hana. Hún stefnir samt að því að koma í heimsókn í sumar og svo ákváðum við að hún og Malena komi í heimsókn til Íslands og ég og Eva til Finnlands. Malena er líklega komin með vinnu hér, svo að hún er örugglega ekki að fara heim strax sem betur fer.

Flutningarnir tókust ágætlega. Reyndar kom flutningabíllinn 2. tímum of snemma svo við Ingibjörg vorum ekki alveg búnar að pakka. Það var því svolítið stress í gangi en þetta tókst þó hjá okkur. Svo var húsgögnum og kössum staflað í nýja húsinu og við fórum til Habbýar. Við vorum öll svo þreytt og það var frábært að fá mat hjá Habbý og sofna svo. Daginn eftir fórum við svo hingað í Glenorchy og mér líður mjög vel hér. Herbergið mitt er æðislegt, arinn og fínheit. Það vantar bara gluggatjöld og fataskáp. Þessa stundina er ég búin að flokka í fötin ofan í buxnakassa of peysukassa, fyrir glugganum er lak. Svo er ég eins og prinsessa með sérbaðherbergi. Það er þvílíkur munaður og líklega það eina í húsinu sem er alveg tilbúið. Á neðri hæðinni er eldhúsið nánast tilbúið en annað ekki. Þetta verður rosalega fínt þegar búið er að setja gólf og mála. Þangað til lifum við í kössum.

Leiklist, já leiklist. Allt að gerast, hann Ævar minn er kominn í 18 manna hópinn í leiklistardeild LHÍ. Á þriðjudaginn fáum við svo að vita hvort eitthvað réttlæti sé í þessum heimi og hvort drengurinn komist ekki inn í skólann eins og mig dreymdi. Dreymdi reyndar að hann hefði verið með hæstu einkunn og ég hefði verið æpandi af gleði á götum Edinborgar. Hlakka svo til þegar hann er orðinn frægur og ég get farið að selja Séð og heyrt öll samtölin okkar. Já Ævar minn hvort sem við vorum á vistinni eða Bláu könnunni var ég alltaf með upptökutæki;)
Ég fór í skólann í gær og fyrradag og voru þetta síðustu tímarnir á þessari önn. Sem betur fer var ákveðið að fresta aftur sýningunni okkar. Eigum að fara með monalogana á sviði og bjóða áhorfendum. Það verður ekki fyrr en 14. mái svo við höfum nægan tíma til að vinna í þessu. Ef við hefðum gert það núna hefði það verið álíka misheppnað og ef frumsýningu Sweeney Todd hefði ekki verið frestað. Þeir sem komu að sýningunni vita hvað ég á við.
Til að slíta nýrri ömn fórum við á barinn bæði kvöldin. Á mánudaginn í boði Pam og í gærkvöldi voru það Chris og Mel sem buðu. Reyndar held ég að Mel hafi eitthvað séð eftir drykknum þar sem hann hellti honum yfir mig alla. Það var því ekki seinna vænna að koma sér heim því ég angaði eins og versti róni.
Það verður partý hjá okkur leiklistarpakki þann 26. mars og þemað er að vera persóna í kvikmynd. Ég vil endilega fá hugmyndir þar sem ég veit ekki hvað ég á að vera. Er búin að fá þrjár, þær eru; Pocahontas, Arven úr Lord of the rings og Lea prinsessa úr Star wars. Þar sem Styrmir verður hérna þegar partýið er þá þarf hann að vera eitthvað líka. Pam kom með hugmynd, Tarzan. Ég hélt ég ætlaði aldrei að hætta að hlæja, nei takk!

Já það eru bara tveir dagar að hann Mimmi komi í heimsókn og eru ýmsir á heimilinu orðnir spenntir. Nefni engin nöfn. En þó að hann Kjartan sé að fara yfir um af spennu og gleði þá vill hann samt vera viss á sinni stöðu. Við vorum hjá Sæmsa í gær þegar Kjartan lagði skyndilega handlegginn yfir öxlina á mér og sagði mannalega: "Sæmsi, you know that I am Auður's boyfriend as well."

miðvikudagur, mars 09, 2005

Það er allt að gerast hér á Darnell Road, flutningabíllinn kemur í hádeginu á morgun og ekki seinna vænna en að hafa allt tilbúið. Ég er afsakplega þreytt enda búin að eyða öllum deginum í að pakka og pakka og jú einmitt pakka. Soffía og Eva komu í kvöld og hjálpuðu til og Habbý aðeins í dag, reyndar með þeim afleiðingum að hún braut tönn. Já flutningar eru ekki hættulausir.
Nýja íbúðin er því miður ekki tilbúin og gólfin koma ekki á fyrr en eftir þrjár vikur. Ég mun því búa í ferðatösku sem er afar skemmtilegt. Það getur meira að segja verið að við gistum hjá Habbý annað kvöld sökum þess að hlutirnir ganga frekar hægt fyrir sig. Ég hef ekki hugmynd um hvenær ég kemst næst í tölvu en það verður vonandi fljótlega. Síminn verður líklega tengdur á föstudaginn og ég læt þá, sem eru líklegir til að nýta sér það, vita hvert nýja númerið er með einum eða öðrum hætti. Góða nótt, síðasta nóttin á Darnell.

mánudagur, mars 07, 2005

Það fyrsta sem ég gerði þegar ég vaknaði var að fara á lhi.is til að athuga hvort að stórvinur minn og fyrrum bekkjarbróðir með meiru Ævar hefði komist áfram í leiklistardeild. Ég renndi yfir nöfnin 40 á ógnarhraða, reyndar svo miklum að ég sá nafnið hans hvergi í fyrstu. Ég trúði þessu ekki og renndi hægar yfir listann og þá sá ég nafnið. Ég andaði léttar og fann fyrir miklum fögnuði (Mig var reyndar búið að dreyma að hann kæmist áfram svo það var lítil ástæða til að örvænta.;) En til hamingju með þetta elsku Ævar og gangi þér vel á þrepi 2.
Þessi dagur er líka ansi merkilegur fyrir hana Hildigunni en kerlan er 21. árs í dag. Ég mun ekki vorkenna þér hið minnsta Hildigunnur þar sem þú munt alltaf vera ári yngri en ég. Njóttu dagsins elsku besta og borðaðu mikið af rjómakökum og slappaðu af:*
Svo er það hér ein stúlka í viðbót sem á mikið af hamingjuóskum skilið. Hún Soffía gerði sér lítið fyrir og hampaði 2. titlum í glímunni. Til hamingju með það:) Það er þó útlit fyrir að þær Ásta hafi fagnað þessu vel en sést það á athugasemdunum á síðustu færslu hjá mér. Aldrei að fara drukkin á netið stelpur;)

Það virðist sem ég sé að verða vinafá hér í borg. Johanna fer alfarin heim á fimmtudaginn. Hálfgert leiðindamál með fjöslskylduna sem hún er hjá, hún vildi nefninlega ekki fara alveg strax, en svona er þetta. Malena er svo búin að segja upp sinni vinnu enda hjá snarklikkaðri fjölskyldu. Hún vill ekki fara heim og er að reyna að finna sér íbúð og vinnu en ef það gengur ekki upp fer hún heim í apríl. Eftir því sem ég best veit fer Soffía í byrjun mái og Eva svo í júní. Við Eva ætluðum því að hitta Malenu og Johönnu á föstudagskvöldið en þegar við loksins komum okkur út voru þær svo þreyttar að þær voru farnar heim. Það endaði með því að við Eva hittum Chris úr skólanum og vin hans og var farið á Subway í west end og dansað. Þetta var fínt kvöld. Svo seinna um kvöldið kom nágranni Evu á svæðið og einhver ógeðslegur vinur hans. Eva fór svo með þeim heim en ég hélt heim á leið enda á leið að passa daginn eftir. Helgin fór svo bara í að passa og pakka niður, það eru bara fjórir dagar í flutninga. Jú og svo náði ég mér í leiðinda flensu um helgina og sökum þess fer ég ekki í skólann í kvöld.
Það er best að láta nýja heimilisfangið fylgja, við fáum einnig nýtt símanúmer og ég set það inn um leið og það kemur. Nýja heimilisfangið er: 6A Glenorchy Terrace
EH9 2DQ Edinburgh
Scotland

fimmtudagur, mars 03, 2005

Mig grunaði ekki að ég ætti eftir að hleypa af stað miklum umræðum í skólanum á þriðjudaginn. Það var þannig að hóparnir voru saman því kennararnir vildu fá álit hins kennarans á sínum hópi, alltsvo monalogunum þeirra. Þar af leiðandi var komið að Justin að láta í ljós skoðun sína á mínum monalog.
Mér fannst mér takast enn betur upp sem hún Elisabeth Bennet úr Hroka og Hleypidómum en síðast þar sem ég var orðin mjög örugg á textanum. Og Justin, hvað fannst honum? Jújú ég fékk hrós fyrir að vera skýrmælt og með mikla orku og svo framvegis en hann var ekki á sama máli og ég um hvernig Lissy leið. Þar sem þetta er senan þar sem Mr. Darcy bað hennar og gerði það á þann hátt að hann móðgaði hana auk þess sem hún hélt að hann væri afar slæm manneskja í þessum hluta sögunnar, gerði ég ráð fyrir að hún væri reið. Reið og sár og örlítið ringluð. Lissy er líka mjög svo sterk kona og alls ekki í takt við konur á þessum tíma. Justin hinsvegar hélt því fram að hún þráði Darcy og þessvegna myndi hún vera að daðra við hann um leið og hún segði þessi orð. Það sem hún segir meðal annars er að hún fyrirlíti hann og þó svo að tilfinningar hennar væru þannig að henni finndist hann þolanlegur myndi hún aldrei taka honum þar sem að hann eyðilagði hamingju systur hennar.
Justin lét því Chris vera Darcy og ég átti að sitja á stól á móti honum og sumsé fara með monaloginn aftur daðrandi. En áður en ég gat byrjað tók Samara til máls. Hún sakaði Justin um að vera karlrembu, um að skilja augljóslega ekki Lissy. Týpískur karlmaður að hennar mati að halda að þessi sterka kona væri uppfull að þrá þegar hún var í raun mjög reið. Uppfrá því brutust út miklar umræður um Elisabeth, allir höfðu sína skoðun og allir vildu sálgreina hana. Engin virtist á sama máli og Justin, Crispin reyndar sagði ekki neitt, sat bara og glotti. Það varð þó úr að ég gerði tilraun til að gera þetta eins og Justin vildi, það tókst ekki því ég lifði mig inn í hita augnabliksins og varð auðvitað æst og reið. Daður, þvílíkt og annað eins. Dæmi nú hver fyrir sig.

þriðjudagur, mars 01, 2005

Ég varð afskaplega svöng í skólanum í gær og ég stóð mig að því að hugsa um kjötbollur. Þetta var eitt af því besta sem ég fékk þegar ég var yngri og var minnsta mál að sporðrenna 10 stykkjum. Mér þykja bollurnar enn góðar og nú þegar eru liðnir um 7 mánuðir síðan ég hef innbyrgt þær er ég farin að sakna þeirra. Frá steiktum kjötbollum með brúnni sósu og soðnum með karrýsósu fór ég að hugsa um hakkbollurnar og fiskbollurnar sem hún móðir mín býr stundum til. Já ég sakna þessa alls og greinilegt að íslenska helgin var ekki nóg fyrir mig. Það er því engin lygi að segja að ég hafi ljómað í morgun þegar ég sá að búið var að taka mat kvöldsins úr frysti. Íslenskur saltfiskur er það heillirnar mínar, þvílík veislumáltíð.
Hef lært þá lexíu að varlega verður að fara í lakkrísinn fyrir þá sem eru óvanir. Kláraði pokann frá Evu á sunnudaginn og hélt ég væri að fá hjartaáfall þvílíkur var hjartslátturinn. Eva er að reyna að ljúga að mér að þetta hafi verið eitt kíló, ég trúi því vitanlega ekki, mesta lagi 300 gr.
Að öðru leyti fínt að frétta, allt á fullu vegna tilvonandi flutninga og ég er enn ekki búin að jafna mig í fætinum. Steinunn þú getur þó verið alveg róleg, ef þú meiðir mig einhvertíman fyrir slysni, mun ég í mesta lagi bölva í hljóði, síðan mun ég brosa sársaukafullu brosi og segja að allt sé í lagi. Mér er nefninlega hreint ekki illa við þig, því er akkúrat á hinn veginn farið:)