miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Ég þakka fyrir skemmtileg komment á frásögnina af Runólfi. Gaman væri fyrir hann að vita hversu frægur hann er orðinn. Nokkrir vildu vita hvernig fór svo ég segi frá því í stuttu máli. Runólfur hafnaði umsókninni endanlega. Það eina sem stúlkan gæti gert er að kæra niðurstöðuna með tilheyrandi kostnaði. Það er líklega ekki þess virði þó að Runi hafi hafnað umsókninni á röngum forsendum, stúlkan vann nefnilega 6 mánuði af þessum 12. Runólfur gæti sennilega fundið fleiri glufur ef stúlkan hefði sig í að kæra. Það stoppaði hana þó ekki í að senda honum meinhæðið bréf þar sem hún krafðist skýringa á þessari afgreiðslu málsins. Runólfur hefur ekki svarað ennþá. Heyrst hefur að blóðþrýstingur hans hafi hækkað ískyggilega er hann fékk bréfið og hann hafi þurft að taka sér frí það sem eftir var dagsins.

Var að setja inn nýjar bumbumyndir og færslu í vefdagbókina á barnalandssíðunni. Er búin að setja hana efst í tenglana ykkur til yndisauka.

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Runólfur dustaði ósýnlilegt rykkorn af svörtum jakkafötunum. Hann var í ágætu skapi, hafði satt að segja ánægju af vinnu sinni. Hann andvarpaði ekki einu sinni þegar hann leit á blaðabunkann fyrir framan sig heldur kveikti í fyrsta vindli dagsins. Reykingarbannið gilti ekki á skrifstofunni hans. Hann tottaði feitan vindilinn og byrjaði á bunkanum. Dæmalaust er mikið til að aumingjum hugsaði hann er hann fletti í gegnum unsóknirnar. Fólk bara nennir ekki að vinna, sækir um atvinnuleysibætur og liggur svo í leti. Þarna voru nokkrir sem hann gat hafnað um leið, þeir uppfylltu ekki kröfurnar. Vellíðanin hríslaðist um hann enda markmiðið að hafna sem flestum umsóknum.
Skyndileg reiði greip hann þegar hann sá næstu umsókn. Pólverji, ekki nóg með að þeir flyttu inn í landið og tækju vinnuna frá heiðarlegu fólki heldur ætluðu þeir nú að fara að lifa á peningum þjóðarinnar. Runólfur sá rautt, hann gat ekki hafnað umsókninni strax það sá hann. Hann yrði að bera hana undir ráðið og finna glufu. Glufurnar voru margar og enginn þekkti þær betur en hann.
Hann þeytti umsókn Pólverjans frá sér, reyndi að róa sig.
Næsta umsókn, það hýrnaði yfir honum eftir því sem hann las meira. Þetta var stúlka, nemi ef svo mætti kalla þegar námið var íslenska. Maður græddi lítið á að kyrja ljóð og læra nöfn á löngu dauðum skáldum sem voru fyllibyttur upp til hópa. Hann hafði sannarlega komist af án þess svo mikið var víst. Metnaðarleysi stúlkunnar var algjört, sumarstarf á leikskóla, starf sem enginn tók að sér nema vera útlendingur eða hreinlega heimskur. Svo var stúlkan ólétt í þokkabót, hafði sennilega drukkið of mikið í einhverju partýinu. Þessir Hugvísindanemar eru ekki í skóla nema að nafninu til, líferni þeirra var umtalað.
Svo leikskólinn var lokaður í tvær vikur og hún fékk engin laun á meðan, en leiðinlegt. Ekki ætlaði hann að ýta undir metnaðarleysið, það yrði ekki erfitt að finna glufu í þessu máli. Hann ritaði bréf til stúlkunnar og sló um sig með því að vitna í lagagreinar hér og þar. Hann skrifaði að umsókn hennar yrði líklega hafnað, þetta væri svo stuttur tími sem hún væri atvinnulaus. Hann gaf henni 7 daga til að koma með mótmæli eins og venja var en var viss um þau yrðu engin, slíkt var sjáldgæft.

Eftir góðan hádegisverð settist hann ánægður við skrifborðið sitt. Hann laumaðist til að líta í spegil en hárið var enn óaðfinnanlega greitt yfir skallann svo hvergi sást votta fyrir honum. Hann andvarpaði ánægjulega, hneppti frá einni tölu á jakkafötunum og kveikti sér í vindli. Þegar hann opnaði tölvupóstinn sinn beið hans bréf frá stúlkunni. Hann varð æstur, hvernig dirfðist hún að mótmæla ákvörðun hans og svo nefndi hún að það væri fordæmi fyrir þessum bótum, á sama vinnustað. Hann barði í borðið í reiði sinni, hvaða fífl leysti hann af í sumarfríinu í fyrra. Hann mundi ekki nafnið en sá hálfviti hafði greinilega heimilað bætur. Svo stúlkan hélt að þetta yrði svona auðvelt, henni skjátlaðist. Með ofsa ritaði hann annað bréf, vitnaði í enn fleiri lagagreinar og heimtaði afrit af ráðningarsamningi, hún átti ekki rétt á bótum þar sem henni var ekki sagt upp. Hann strauk nokkra svitadropa sem læðst höfðu fram á ennið og hélt svo áfram vinnu sinni, málið var gleymt.

Nokkrum dögum síðar...
Runólfur var æfur, svitinn bogaði af honum og andlitið var rautt af reiði. Þessi stelpa hafði sent honum ráðningarsamning sinn og bréf frá yfirmanni þar sem stóð skýrt og greinilega að hún hafði ekki verið ráðin þann tíma sem leikskólinn var lokaður. Hann hafði haldið að málinu væri lokið, þetta var orðið persónulegt, bréf stúlkunnar voru full af hroka og svo hrakti hún röksemdir hans.
Hann reyndi að róa sig, þurrkaði svitann og lagði svo málið fyrir nefndina. Sem formaður hennar hafði hann auðvitað mest að segja. Í nefndinni auk hans sátu þrír karlmenn og hlýddu þeir nú á mál hans. Eftir að hafa skoðað ráðningarsamning stúlkunnar fram og aftur tók einn þeirra hikandi til máls. ,,Ég fæ ekki betur séð en að hún eigi rétt á bótunum, það er ekkert í samningnum sem bendir til annars." Runólfur nánast öskraði ,,Þá finnum við bara eitthvað annað en samninginn." Hinir litu undrandi hver á annan en höfðu vit á að þegja, yfirmaður þeirra var greinilega í uppnámi, hárið hafði losnað úr skorðum svo skein í skallann. Runólfur gat ekki hugsað skýrt, hann æddi fram og aftur, fór yfir allar glufur í huganum en fann ekkert. Allt í einu staðnæmdist hann, geðveikislegt glott læddist yfir varir hans. Undirmenn hans fylgdust spenntir með. ,,Ráðningarsamningurinn er frá því í maí, ekki satt?" byrjaði hann. Hinir kinkuðu kolli. ,,Þá uppfyllir hún ekki skilyrðin um að vera búin að vinna í 3 mánuði á síðustu 12 mánuðum." Hann kyngdi munnvatni ákafur og hélt svo áfram. ,,Frá maí-júlí eru bara 2 mánuðir svo hún á alls ekki rétt á bótum." Runólfur iðaði af gleði yfir þessari snilld og leit yfir hópinn. Hinir litu viðurkenningaraugum á hann en einn hugsaði sitt. Hvað ef stúlkan hefði unnið eitthvað síðasta sumar? Þá gat verið að hún næði þessum 3 mánuðum af 12. Hann íhugaði að segja eitthvað en hætti við er hann leit á yfirmann sinn. Með ofstæki í augum lyfti Runólfur stimplinum til að innsigla sigur sinn, hann fylltist trylltri ánægju af að horfa á svörtu stafina á hvítu blaðinu. HAFNAÐ

miðvikudagur, ágúst 13, 2008

Þá erum við búin að fara í 20 vikna sónarinn. Og krílið er..................................................................... kríli :) Þið verðið að bíða í sirka 19 vikur eftir að vita kynið, enn er tekið við ágiskunum. Skrifaði um sónarinn á nýju síðuna sem við vorum að búa til fyrir krílið :) Endilega kíkið http://barnaland.is/barn/77872/ (Athugið að það er stór stafur í byrjun lykilorðsins)

Læt samt fylgja eina mynd með :)
Aðrar óléttufréttir eru þær að bumban fer enn stækkandi.
Börnin á leikskólanum eru farin að tala mikið um krílið og fá að klappa bumbunni. Flestir eru voða spenntir og koma með sæt komment. Hins vegar er ég búin að fá tvö sem voru lítt vinsæl. Annað var: ,,Já rassinn hefur stækkað líka" og hitt var "Voðalega ertu orðin feit." Styrmir hló mjög af rassakommentinu sem hefndi sín mest á honum. Hann hefur eytt tíma sínum síðan í að reyna að sannfæra mig um að rassinn sé hinn lögulegasti en fær aðeins illt augnaráð að launum. Ætla að taka bumbumyndir við fyrsta tækifæri og er þá vissara að fara blíðum orðum um vaxtarlag mitt ;)