Hugsanir Auðar
Þeir sem kunna að meta hið skrifaða orð eru þeir sem kunna að meta hina sönnu list.
sunnudagur, júní 29, 2008
miðvikudagur, júní 25, 2008
Þessi mynd (sem ég stal af myndasíðu pabba öðru nafni afa gamla) var tekin þegar við skruppum norður á útskrift Örnu. Henni til heiðurs drógum við upp húfurnar og burstuðum af þeim rykið. Það var reyndar frekar tæpt að við kæmumst norður þar sem ég tók upp á að æla allan morguninn og þurfti heim úr vinnunni. Ég er náttúrulega orðin sérfræðingur í að æla og kann ýmis góð ráð.
Hér koma nokkur:
*Appelsínur í morgunmat, fínt að æla þeim.
*Taka skal rúsínur með í bíó.
*Legðu vatnsbrúsa aldrei frá þér.
*Bannaðu kærastanum að nota rakspíra eða annan óþverra.
*Forðastu kerlingar sem anga að ilmvatni.
*Ef ætlunin er að æla í vaskinn vertu þá viss um að það komi ekki upp um niðurfallið!
*Þegar þú ert úti og átt eftir nokkur skref heim skaltu syngja í huganum, þannig má fresta ælunni um þessa dýrmætu aukamínútu.
*Ekki vinna á leikskóla þar sem börn nota bleyjur.
*Fyrir fleiri ráð má slá á þráðinn.
Langar að þakka kærlega fyrir allar hamingjuóskirnar og fallegu kommentin í síðustu færslu. Nokkuð skiptar skoðanir eru á kyni barnsins en ljóst er að einhverjir hafa rétt fyrir sér. Við höfum enn rúman mánuð til þess að ákveða hvort við viljum vita kynið.
Við vorum svo heppin að ná miða á Damien Rice á NASA þann 24. júlí (afmælisdag Styrmis) en það seldist upp á fimmtán mínútum. Ég er mjög sátt, enda kappinn í miklu uppáhaldi. Annars áttum við 5 ára sambandsafmæli um daginnn (ég og Styrmir allt svo , ekki Damien) og ákvað Styrmir að baka vöfflur í tilefni þess. Sem betur fer féll hann frá þeirri hugmynd að færa mér þær sem morgunmat í rúmið og voru þær í kaffinu í staðinn. Með smá leiðbeiningum tókst þetta ansi vel. Um kvöldið bauð ég í bíó og var Narnía fyrir valinu. Myndin er ágætt en á ekkert í bókina.
Án þess að vilja enda á leiðinlegu nótunum langar mig að taka fram að ég hef ekki húmor fyrir heilalausum og óþroskuðum kommentum. Má ef til vill kenna um óléttuviðkvæmni en hingað til hafði ég aldrei eytt kommenti. Vissulega ríkir tjáningafrelsi og mega lesendur skrifa það sem þeim dettur í hug en þegar "húmorinn" beinist á ömurlegan hátt að ófæddu barni mínu er mér hins vegar ekki skemmt og eyði ég slíkum kommentum tafarlaust.
Fyrst ég er farin að tala um leiðinlega hluti þá er EM stór vonbrigði. Gæti eytt löngum tíma í að baktala Þjóðverja, hinn ofmetna Ballack og svo hinn ömurlega Schweinsteiger. Nenni því bara ekki núna.
Sumarfrí eftir rúmar tvær vikur, vúhú :)
föstudagur, júní 13, 2008
Ég hef sjaldan séð neitt jafn fallegt og krílið mitt sem spriklaði og fór í kollhnís fyrir okkur foreldrana í sónar í dag. Jafnvel þó myndirnar séu pínu geimverulegar tel ég afar líklegt að barnið sé lifandi eftirmynd mín en hvað finnst ykkur? Stráka eða stelpulegur vangasvipur? ;)
Vangasvipurinn og bumban:)
Hér má sjá bæði fót og hönd, krílið baðar út öllum öngum.
Svolítið krumpað kríli að sprikla
mánudagur, júní 09, 2008
Ég er hrædd um Sóla mín að það hafi ekki verið gríðarlegur kynþokki minn sem vakti öfund aðstoðarkennarans. Ég er nokkuð viss um að hann sé karlkyns og auk þess tel ég að komment hans hafi ekki verið persónuleg. Hann veit sennilega ekki einu sinni hver ég er. Því hlýtur að leynast önnur skýring á gáfulegum athugasemdunum. Látum svo þessu máli lokið.
Þessa dagana kemst fátt annað að en EM. Ég vorkenni ekki hið minnsta þeim kellingum og aumingjum sem kunna ekki að meta þessa miklu veislu. Pakkið hlýtur að geta skipt yfir á Skjá einn eða farið út að spila blak. (Þeir sem þekkja mig vita allt um álit mitt á blaki og gera sér því grein fyrir að hér er um tvöfalda móðgun að ræða. Kann þó að vera að ekki leynist mikil alvara að baki þessum orðum og því geta lesendur þurrkað tárin)
Mitt lið er að sjálfsögðu Portúgal eins og undanfarin ár þrátt fyrir að Figo, sú mikla hetja, sé hættur. Ég hef líka alltaf haft gaman að Hollandi og var unun að horfa á þá áðan spila Ítalana upp úr skónum.
Ég ætla að spá Portúgal þriðja sæti en vona auðvitað að með leikgleði sinni og skemmtilegri spilamennsu fari þeir alla leið :)