föstudagur, september 28, 2007

Bloggandinn ekki alveg yfir mér þessa dagana enda er svo mikið að gera í lærdómnum. Eða hvað, Heroes, Prison break og Grey's Anatomy voru að byrja aftur. Búin að horfa bæði á Heroes og Prison break og er bara mjög ánægð. Held að þessi sería af PB verði mun betri en önnur sería, svo stendur Scofield alltaf fyrir sínu:)

Í kvöld ætlum við stelpurnar að hittast hjá Ástu til að fagna komu Soffíu og ætlar Ásta að töfra fram dýrindis máltíð handa okkur. Ég býst ekki við neinu minna en humar í forrétt, nautasteik í aðalrétt og créme brulée í eftirrétt;) Engin pressa eða neitt svoleiðis Ásta mín.

Að öðru leyt verður helginni eytt í lærdóm og í mesta lagi að horfa á Grey's og kannski Private Practice, systurþátt Grey's. Ég geri samt meira en að horfa á sjónvarp, t.d. læt ég mig dreyma um utanlandsferðir. Ég finn hvernig sporin verða þyngri og hugurinn svartari því lengur sem ég fresta þessari lífsnauðsyn. Spurning hvort maður ætti að skella sér í byrjun janúar. En hvert? Mig langar mikið til Edinborgar og Danmerkur því þar er fólkið mitt. En einnig langar mig að fara á nýjan stað, þá koma t.d. til greina Noregur og Finnland því þar eru Iva og Malena sem myndu að ég vona veita mér gistingu.

Sakna svo sætu strákanna minna:*



fimmtudagur, september 20, 2007

Viðskiptafræðingurinn leit ánægður í spegilinn. Hárið hafði ekki haggast eftir langan vinnudaginn og engin þreytumerki voru sjáanleg. Hann strauk ósýnilegt rykkorn af teinóttum jakkafötunum sem hefðu getað verið sérsaumuð á hann. Hann var að bíða eftir síðustu viðskiptavinum dagsins, átti von á ungu pari og bjóst við góðum árangri. Hann heyrði í bíl og ákvað eftir andartakshik að bæta aðeins á rándýran rakspírann.

Unga parið steig út úr bílnum, hún pínu pirruð eins og alltaf þegar þau voru að verða sein, hann sallarólegur. ,,Mundu að við viljum bara þessa tryggingu og ekkert annað" urraði hún á unnustann sem jánkaði með semingi. Hún var pirruð af því það hefði verið erfitt að finna þetta hús, lengst út í Kópavogi og svo nennti hún þessu varla. Maðurinn hafði bara hringt svo oft og svo vissi hún vel að það væri betra að tryggja sig.
Upp tröppurnar fóru þau, ekkert lyftukjaftæði þar til þau komu á efstu hæð. Þau börðu að dyrum og var boðið inn með það sama. Hún átti bágt með sig, viðskiptafræðingurinn angaði af væmnum rakspíra og hárið var greitt aftur með slatta af geli. Örugglega hart ef maður kemur við það hugsaði hún með hryllingi. Handtak viðskiptafræðingsins var laust og slepjulegt eins og maðurinn sjálfur. Hún treysti honum varlega.
Þau fengu sér sæti. ,,Jæja gott fólk" byrjaði hann úberhress ,,ég ætla að byrja á að láta ykkur fá nafnspjaldið mitt, þá sjáið þið að ég er traustsins verður." Hún leit á spjaldið, maðurinn hét Trausti, hún fann kjánahrollinn hríslast um sig meðan viðskiptafræðingurinn hló að eigin fyndni.
Hún hlustaði með öðru eyranu á viðskiptafræðinginn lýsa fyrir þeim að þau væru ungt par, ekki lengur undir verndarvæng mömmu og pabba og þyrftu að fara að tryggja sig. Hún gat þó ekki stillt sig um að sparka í unnustann undir borðið því hún var að springa úr hlátri. Viðskiptafræðingurinn átti son, já fæddan '86 alveg eins og unnustinn, merkileg tilviljun. Hún sá ekki betur en að unnustinn ætlaði að gleypa við kjaftæðinu í manninum og ákvað að blanda sér í umræður um viðbótarlífeyrissparnað.

Viðskiptafræðingurinn var í ham. Þetta gekk mjög vel, hann sá ekki betur en að strákurinn væri til í allan pakkann. Best að einbeita sér bara að honum, það segir sig líka sjálft að kvenfólk hefur ekkert vit á viðskiptum. Enda var stelpan ósköp litlaus greyið, hárið í óreiðu og á flatbotna skóm. Jæja, best að snúa sér að líftryggingunni..... Andskoti var stelpan þrjósk, sama hvað hann reyndi að útskýra fyrir henni að foreldrar hennar myndu ekki vilja borga námslánin hennar ef hún dæi lét hún ekki undan. ,,Ætli þau hefðu ekki um annað að hugsa undir þeim kringumstæðum" var svarið.
Hann skipti yfir í aðra sálma ,,Hvað eruði að læra krakkar?" ,,Sagnfræði" sagði strákurinn, ,,íslensk fræði" sagði stúlkan og horfði beint í augu hans. Jesús minn hugsaði hann, það er ekki nema von að þau stigi ekki í vitið, sérstaklega stúlkan. Hann teygði sig í Versage glerugun sem alltaf vöktu aðdáun, leit ekki á stúlkuna en af kurteisi sagði hann ,,já þú verður kennari" Hann snéri sér aftur að stráknum og ræddu þeir möguleika sagnfræðimenntunar fram og aftur.

Hún fann að reiðin var að ná yfirhöndinni og beit sig í tunguna. Andskotinn að vera orðin svona þroskuð. Fyrir sirka tveimur árum hefði hún sagt nokkur vel valin orð og gengið út. Löngunin til að segja honum hvað henni fannst um viðskiptafræðinga var nánast óbærileg en hann var ekki þess virði. Í staðinn setti hún upp hæðnislegt bros og lyfti augabrúnum um leið og hún starði á viðskiptafræðinginn. Hann virtist ekki taka eftir neinu. Hún ákvað að stoppa þennan skrípaleik og sagði kuldalega ,,við tökum frístunda og innbús trygginguna fyrir 9000 krónur takk fyrir"

Viðskiptafræðingurinn sat svolitla stund eftir að þau voru farin og beit sig í vörina. Þetta var allt of lítil sala, hann sem ætlaði að kaupa heitapottinn í sumarbústaðinn um næstu mánaðamót. Það yrði ekkert úr því með þessu áframhaldi. Hann braut heilann í örfáar sekúndur í viðbót en lét svo undan. Þetta var hugvísindafólk ekki satt? Fólk sem vissi ekkert um stærðfræði eða bisness. Það er ekki eins og þau taki eftir neinu þó hann krossi við nokkrar tryggingar í viðbót. Þegar á heildina er litið var þetta þeim fyrir bestu. Hann gerði stóran kross við líftrygginguna, nú þyrftu foreldrarnir ekki að borga námslánin ef stúlkan yrði ekki langlíf. Auk þess fékk hann alltaf mikinn bónus fyrir líftryggingar.
Viðskiptafræðingurinn leit ánægður í spegilinn. Hárið hafði ekki haggast yfir daginn og allt eins og það átti að vera. Hann hagræddi Versage glerugunum og gekk út í sólskinið léttur í spori.

sunnudagur, september 09, 2007

Þá er skólinn byrjaður aftur og með honum vaknar bloggheimurinn til lífsins. Því er ekki seinna vænna að rita eins og eina færslu. Margt hefur á daga mína drifið, til dæmis er ég flutt á Eggertsgötuna og fékk þessa fínu nágranna í kaupbæti. Brynja býr í sömu blokk og ég og svo eru Lilja og Andri í blokkinni við hliðina á mér. Ég flutti svo sem ekki ein heldur tók ég Styrmi með enda ómögulegt að skilja greyið eftir með bjöllunum og háu leigunni á Víðimelnum.

Það er ágætt að byrja aftur í skólanum, hitta fólkið aftur og reyna að drekka í sig einhvern fróðleik. Þó verður að segjast að námskeiðin virðast ekki alltof spennandi, það er að segja skyldan, ég er mjög spennt fyrir valnámskeiðinu mínu. Ég ákvað svo að halda áframa að vinna á leikskólanum með skólanum. Það er því nóg að gera.

Helgin var mjög skemmtileg, fór og hitti nýnemana í íslenskunni á föstudagskvöldið á Celtic. Þangað komu þeir eftir ferskmannagönguna og vissulega helltust yfir mig minningar frá því í fyrra þegar ég var skelkaður nýnemi. Ásta sannfærði mig um að fara í gönguna, ég ætlaði ekki að þora. Auðvitað hafði Ásta rétt fyrir sér, þarna kynntist ég góðu fólki, má þar nefna hana Álfhildi sem sannarlega átti eftir að skemmta mér í tímum og fyrir próf:) Reyndar er hún að svíkja lit núna, hún er í fjölmiðlafræðinni en hefur samt ákveðið að sitja einn tíma í viku í forna málinu mér til heiðurs;)
Síðan má ekki gleyma að nefna glæsilegan nýnema en það er hún Þórunn sem hefur hafið nám í íslenskum fræðum.

Í gærkvöldi kíktum við Mimmi svo á nágranna okkar Lilju og Andra og héldum síðan öll í innflutningspartý til Ævars og Maríu. Hjúin eru flutt á Birkimelinn og leist okkur bara vel á íbúðina sem og gambísku kjötbökurnar. Sem minnir mig á það gott fólk að við Lilja ætlum að skipuleggja Sweeney Todd partý sem haldið verður í október/nóvember, fylgist spennt með. Þátt fyrir að kjötbökurnar hafi minnt mig á ST þá hef ég engar sannanir fyrir því að innihaldið í þeim hafi verið það sama og hjá Sweewney og Lovett. En góðar voru þær.....