Á föstudagskvöldið var mikið um dýrðir á Eggertsgötunni. Úrslit í smásagnakeppni Mímis voru tilkynnt í smásagnateiti heima hjá mér og frumsýning á nýjasta tengdameðlimnum í vinahópnum heima hjá Brynju. Ég hljóp auðvitað upp við fyrsta tækifæri og reyndi að tæla stúlkurnar niður til mín sem gekk eftir. Ég er hæstánægð með tengdadótturina og vona að ég hafi ekki hrætt hana, svo áköf var ég að kynnast henni.
Já og ef einhver er forvitin að vita um smásagnakeppnina þá fékk ég viðurkenningu fyrir báðar sögurnar sem ég sendi inn. Dómnefnd veitti fjórum sögum viðurkenningu en raðaði þeim ekki í sæti. Mér skilst að tæpar 20 sögur hafi borist í keppnina og ég er afar hissa og ánægð með úrslitin. Sögurnar mínar heita "Að kryfja málið" og "Eins og skáldið" og eru töluvert ólíkar. Þeir sem vilja að lesa verða bara að bíða eftir útgáfu, segi svona. Ég er langt frá því að ofmetnast og framhaldið er algjörlega óráðið.
Þetta er þó vissulega mikil hvatning og í verðlaun hlaut ég: Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson, Söng steinasafnarans eftir Sjón, Eineygða köttinn Kisa og leyndarmálið eftir Hugleik Dagsson, Draumalandið eftir Andra Snæ Magnússon og Alkemistann eftir Paulo Coelho. Að auki útgáfurit Bókmenntafræðistofnunnar að eigin vali.
Komnar eru inn myndir frá kvöldinu á myndasíðuna. Einnig myndir frá MA stelpupartý sem haldið var á dögunum.