sunnudagur, mars 30, 2008

Á föstudagskvöldið var mikið um dýrðir á Eggertsgötunni. Úrslit í smásagnakeppni Mímis voru tilkynnt í smásagnateiti heima hjá mér og frumsýning á nýjasta tengdameðlimnum í vinahópnum heima hjá Brynju. Ég hljóp auðvitað upp við fyrsta tækifæri og reyndi að tæla stúlkurnar niður til mín sem gekk eftir. Ég er hæstánægð með tengdadótturina og vona að ég hafi ekki hrætt hana, svo áköf var ég að kynnast henni.

Já og ef einhver er forvitin að vita um smásagnakeppnina þá fékk ég viðurkenningu fyrir báðar sögurnar sem ég sendi inn. Dómnefnd veitti fjórum sögum viðurkenningu en raðaði þeim ekki í sæti. Mér skilst að tæpar 20 sögur hafi borist í keppnina og ég er afar hissa og ánægð með úrslitin. Sögurnar mínar heita "Að kryfja málið" og "Eins og skáldið" og eru töluvert ólíkar. Þeir sem vilja að lesa verða bara að bíða eftir útgáfu, segi svona. Ég er langt frá því að ofmetnast og framhaldið er algjörlega óráðið.
Þetta er þó vissulega mikil hvatning og í verðlaun hlaut ég: Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson, Söng steinasafnarans eftir Sjón, Eineygða köttinn Kisa og leyndarmálið eftir Hugleik Dagsson, Draumalandið eftir Andra Snæ Magnússon og Alkemistann eftir Paulo Coelho. Að auki útgáfurit Bókmenntafræðistofnunnar að eigin vali.

Komnar eru inn myndir frá kvöldinu á myndasíðuna. Einnig myndir frá MA stelpupartý sem haldið var á dögunum.

fimmtudagur, mars 27, 2008

Glöggir lesendur kunna að hafa tekið eftir því að ég er búin að koma mér upp myndasíðu. Ég á enn eftir að bæta ýmsu inn á síðuna og efast ekki um að lesendur séu andvaka af spenningi. Ég held að mér lítist vel á síðuna, helsti gallinn er að það er ekki hægt að kommenta á myndirnar án þess að koma sér upp sérstökum "account". Það verður svo að vera og æstir aðdáendur geta kommentað á bloggið hafi þeir eitthvað að segja.
Til þess að nálgast myndasíðuna farið þið í tenglana hér til hægri og ýtið á myndasíðan mín. Er þetta ekki bara ansi gott hjá mér?

Verð víst að fara að laga til, annað kvöld hýsi ég smásagnateiti en þá verður uppgjör í smásagnakeppni Mímis.

Ætla að enda þetta af smá upptöku af Kjartani sem ég tók daginn áður en ég flutti heim frá Edinborg. Hann söng fyrir mig Sofðu unga ástin mín en ruglaðist aðeins á textanum, bara krúttlegt;)Því miður varð myndavélin batteríislaus. Ætlaði að taka upp miklu meira til að eiga til minningar.
Vona að þetta virki, hef ekki hlaðið inn vídjói áður.


laugardagur, mars 22, 2008

Þann 10. mars fæddist þessi fallegi strákur í Edinborg. Þar með var Kjartan minn orðinn stóri bróðir. Sá litli er ansi líkur þeim stóra :) Hann ber nafnið Agnar Guðmundur.


Hér má sjá Kjartan með Agnar litla. Hann er ofboðslega stoltur og góður stóri bróðir. Ég get ekki beðið eftir að fara að heimsækja þau öllsömul og knúsa þá bræður:*

þriðjudagur, mars 18, 2008

Síðasta færsla var skrifuð á afmælisdaginn minn og því vel við hæfi að þessi sé skrifuð á afmæli litla bróður. Til hamingju Sindri minn með 16 ára afmælið. Ég á erfitt með að átta mig á þessum aldri hjá drengnum. Hann byrjar í framhaldsskóla í haust og ég ný skriðin upp úr menntaskóla (er það ekki?).

Sindri hefur gengið undir ýmsum nöfnum hjá mér í tímans rás, eins og; Litli Kútur, Kúddi, Si, Ormafés, Míní mí, Petit moi og það nýjasta: Spikhlunkur Fjelsted (Sem ég stytti í Spiki)
Sindri kippir sér ekkert upp við þetta og svarar öllum nöfnum, hann er alltaf jafn góður við stóru systur og svo erum við líka bestu vinir:) Ég beið lengi eftir honum og hef ég sjaldan upplifað jafn mikla gleði og þennan dag fyrir 16 árum. Þú ert besti bróðir í heimi.
Væmin ég veit, en það má svona stundum;)