miðvikudagur, mars 05, 2003

Mikið hef ég vanrækt þessa síðu að undanförnu. Ástæðan er sú að þegar maður er orðin tvítugur er afskaplega mikið að gera auk þess sem minnið er farið að reskjast. Á daga mína hefur drifið margt og með auknum þroska hefur lífsýn mín breyst. Þar má nefna: Aukin þreyta á morgnana sökum aldurs, afskaplega litla þolinmæði gagnvart fólki sem er ekki það heppið að hafa sömu skoðanir og ég og sérstakur pirringur á sumum bekkjarfélögum sem oftar en ekki láta út úr sér hluti sem geta fengið mig til að grípa til ofbeldis. Út í það verður ekki farið nánar á síðu þessari.
Í gær gerði ég afar áhugavert verkefni í fjölmiðlafræði með Hildigunni og Örnu. Þar áttum við að mæla Morgunblaðið eins og það leggur sig og skrá niðurstöðurnar í fersentimetrum og prósentum auk þess sem við gerðum skífurit. Þetta var því hreinlega stærðfræði og gátum við stöllur ekki séð hinn göfga tilgang með þessu verkefni. Þó fer þetta batnandi því næst eigum við að skrifa blaðagrein og efnið er að eigin vali. Ég er ekki enn búin að ákveða hvaða verðuga málefni ég mun rita um og allar hugmyndir eru vel þegnar. Tillögur má skrifa í gestabókina.
Söngvakeppni M.A. var í gærkvöldi. Við ætluðum að mæta snemma til að fá sæti annarstaðar en í hinni hörðu Kvos en einhverra hluta vegna lentum við einmitt þar. Þegar líða tók á kvöldið vorum við orðnar mjög rasssárar og lýstu einkenni Soffíu sér í heilabilun. Keppnin var samt mjög flott og flest atriðin góð að þessu sinni, eitthvað annað en í VMA eða það skilst mér á stelpunum sem enn fá tár í augun ef minnst er á þá keppni.

Fréttablaðið í dag var einkar skemmtileg lesning. Þar var verið að drulla á vingjarnlegan hátt yfir okka ágæta júróvísjonlag og útglenntan flytjanda þess. Lagið er vitanlega stolið það ætti hver maður að geta látið sér detta í hug með tilliti til höfundar þess. Uppi eru einhverjar hugmyndir um að breyta laginu en vonandi nær réttlætið fram að ganga og lagið í öðru sæti verði sent út. Þvílík gleði sem það yrði, það yrði tilefni til veisluhalda hjá okkur stelpunum.
Mikið er annars gaman að vera vinstri maður í dag.. Dabbi er í vondum málum tralalalalaa! Já það er ekki leiðinlegt að sjá stórlaxinn engjast á önglinum, hvernig ætlar hann að losa sig úr þessari klípu blessaður? Ég sá einmitt í áðurnefndu Fréttablaði í dag að Ingibjörg er vinsælli samkvæmt nýjustu könnunum. Það hlakkaði í mér illkvittnin.
Við erum að lesa Sjálfstætt fólk núna og varla að maður sé skrifandi þegar maður les Laxnes. Stafsetníngin fer aunhvurra hluta vegna í hnút.
Hildigunnur veit ekki hvað hún fær í afmælisgjöf hahaha. Þú verður bara að bíða gamla en hver veit nema að ég hafi tekið fram saumamaskínuna. Já, þetta var hótun.