Að missa fyrstu tönnina er merkilegur atburður. Ég man vel eftir spennunni sem fylgdi því og gleðinni við að kíkja undir koddann daginn eftir. Reyndar hélt ég að maður ætti að setja allar tennur sem maður missti undir koddann og hugðist ég því efnast vel, það er aftur á móti önnur saga.
Þegar ég var í vinnunni á dögunum var ein fimm ára stúlka með afar lausa tönn. Skyndilega kom hún til mín með tönnina í höndunum, dálítið skelkuð af því það var blóð. Ég fór með hana inn á bað til að gefa henni vatn að drekka. Svo illa vildi til að stúlkan missti tönnina ofan í vaskinn og hún hvarf samstundis niður niðurfallið.
Stúlkan fór auðvitað að gráta og ég reyndi að hugsa hratt, ætlaði hún að setja tönnina undir koddann, trúði hún á tannálfinn? Ég tók sénsinn og tók stúlkuna í fang mér.
A: Ætlaðiru að setja tönnina undir koddann?
S: Jaaá, ég vona að mamma og pabbi verði ekki reið (með grátstafinn í kverkunum)
A: Þau verða alls ekkert reið og veistu það er eitt sem þú getur gert til að tannálfurinn komi samt til þín þó þú hafir týnt tönninni.
S: (spennt) Hvað er það?
A: Þú skrifar tannálfinum bréf og segir hvað gerðist, þú segir honum líka að hann geti kíkt upp í munninn og séð að það vanti eina tönn, þá veit hann að þú ert ekki að plata. Svo setur þú bréfið undir koddann og tannálfurinn kemur og les það. Svo mun hann skilja eitthvað skemmtilegt eftir handa þér.
S: Ég ætla gera það sagði stúlkan og tók gleði sína á ný.
Daginn eftir þegar ég kom á leikskólann kom litla stelpan hlaupandi á móti mér ljómandi af gleði. Hún faðmaði mig og sagði að hún hefði skrifað bréfið alveg eins og ég sagði og sett undir koddann. Þegar hún vaknaði var bréfið horfið og (hún opnaði lófann og sýndi mér gljáandi hundraðkall) þetta komið í staðinn.
Æi já, það getur komið sér vel að hafa ímyndunarafl:)
<< Home